sunnudagur, 20. mars 2011

Túnfisksalat - mjög auðvelt !


Hér ætla ég að kenna ykkur að gera alveg ótrúlega auðvelt túnfisksalat. 
Sá Ágústu, skáfrænku gera svona sl sumar þegar ég var hjá þeim á Þjóðhátíð í eyjum og hef ekki gert öðruvísi túnfisksalat síðan.

Það er samt í raun ekki nema 2 ár síðan ég gat borðar túnfisksalat. Þar áður gat ég ekki fundið lyktina af því, eða niðursoðnum túnfisk í dós. . . Allt vegna þess að kötturinn sem við áttum sem lengst meðan ég ólst upp í Vík borðaði oftast Wiskas með túnfisk... Þ.a.l. tengdi ég lyktina lengi við kattarmat. 

En það er löngu hætt núna og mér finnst ritzkex með túnfisksalati alveg glimrandi gott. Hvort sem er þessu salati sem ég ætla að láta ykkur í té núna eða þessu túnfisksalati hérna sem var eitt af mínum fyrstu matarbloggum 

Það góða við þetta salat er að maður notar ekki hefðbundið majones eins og vanalega heldur Grænmetissósu frá E. Finnsson. Ágóðinn fæst kannski ekki í að túnfisksalatið sé eitthvað hollara fyrir vikið en aftur á móti sat ég alltaf uppi með hálfnotaðar majones dollur inní ískáp eftir túnfisksalatsgerð þar sem ég nota yfir höfuð ekki mikið af majonesi

Grænmetissósuna get ég á annað borð notað við ýmis tækifæri önnur en við túnfisksalatsgerð ;)

Annað sem mér finnst vera snilld við að nota grænmetissósuna er að það þarf EKKERT frekar að krydda salatið. 
Hver og einn er að vísu með sinn galdur við að krydda "sitt" túnfisksalat. T.d. setti ég alltaf smá season all, salt og aromat og veit ég að þeir sem eru ekki mjög vanir í eldhúsinu eru yfirleitt í miklum vandræðum hvað á að setja mikið af hverju.

Uppskriftin sem ég gerði hérna er tvöföld en ég ætla samt að gefa upp uppskriftina einfalda hér neðar.
2 föld uppskrift er alveg ótrúlega mikið magn svo að maður gerir ekki það mikið nema við einstök tækfæri ;) 


Hér eru öll innihaldsefnin... ekki mikið. Alls ekki 

Hellið safanum af túnfisknum og brjótið hann niður með skeið í skálinni

saxið eggin eða notið eggjaskera og blandið við túnfiskinn

Blandið grænmetissósu saman við 

tilbúið ! 


Uppskrift: 

2 egg, harðsoðin 
1/4 laukur, fínt saxaður 
1 dós túnfiskur í vatni 
Grænmetissósa frá E. Finnsson 


Aðferð:
-Sjóðið eggin aðeins áður þar til þau eru harðsoðin... (eða í ca 10-12 mínútur). Kælið og takið skurnina af. 
-Saxið laukinn fínt. Mér finnst alveg nóg að nota 1/4 lauk en aðrir sem eru hrifnir af lauk mega að sjálfsögðu nota meira. Viti ég fyrirfram hvort að fólk sem eigi að fara að borða salatið sé hrifið af lauk set ég 1/2 lauk en ef ég er að fara að mæta með salatið og margir eru að fara að snæða er vissara að vera aðeins meira hófsamur með laukinn. Sumir vilja meira að segja hafa hann grófsaxaðan og finna fyrir laukbitinum og er það alveg sjálfsagt. 
-Hellið af túnfisknum í vaskinn og setjið túnfiskinn í skál með lauknum. Hrærið því saman og brjótið um leið fiskinn niður í litla bita með sleifinni eða skeið á meðan. 
-Bætið söxuðum eggjum saman við. Ég nota 2-3 egg. Í þetta sinn notaði ég 4 stk fyrir tvöfalda uppskrift
-Látið grænmetissósu útí og hrærið saman þar til allt er vel blandað. Það þarf ekki mikið meira en 1/4 - 1/3 af sósunni svo farið varlega og sprautið ekki of miklu til að byrja með því það er erfitt að taka sósuna úr salatinu ef þið látið of mikið. 

Punktar:
Hef prufað að nota sósuna til að gera rækjusalat og það heppnaðist mjög vel.
Salatið er (vegna sósunnar, sem er þynnri en majones) þynnra en maður er kannski vanastur. Það kemur þó ekki niður á því að hægt sé að setja það á kex eða útbúa túnfisksamlokur 



SHARE:

1 ummæli

  1. Nafnlaus2:10 e.h.

    Lærði þessa uppskrift á þjóðhátíð fyrir nokkur, en þá var hún ekki með eggjum, mjög góð án eggjanna og hollari ;)

    SvaraEyða

Ragna.is er matarbloggsíða með sniðugum og auðveldum uppskriftum að gómsætum kökum, mat, meðlæti, brauðum, súpum og fleira.
Myndir fylgja flestum uppskriftum :)

Blog Design Created by pipdig