sunnudagur, 3. september 2023

Núðlur í sterkri sósu

 

Þennan rétt hef ég verið að gera í að minnsta kosti 3 ár. Þegar ég sest niður og borða réttinn hugsa ég allaf, oh, ég þarf að muna eftir því að skrifa niður hlutföll og innihaldsefni næst þegar ég geri þennan rétt. Hann er SVO góður.

Það er mögulegt að ég muni aldrei aftur gera þennan rétt á þennan veg sem ég er að leyfa ykkur að njóta hér fyrir neðan. Ég á ekki alltaf til mirin og ég á ekki alltaf brokkolí. Stundum hef ég sleppt kjúkling! :) 

og annað varðandi fjölbreytninga, það er hægt að nota hverskyns núðlur sem er, og það er hægt að nota rækjur eða nautakjöt í stað kjúklings. Mér finnst kjúklingurinn bara einfaldlega þægilegastur, á hann oft til og þetta er fullkomin leið til að gera máltíð þegar það er bara ein kjúklingabringa til! 

Ath, það er hægt að gera þennan rétt barnvænni með því að sleppa Siracha sósunni, já eða gera hann sterkari með því að bæta við Chilli olíu eftir á eða smá Sambal Olek útí marineringuna.

Sósan er hérna aðal stjarnan í réttinum. Hún er sæt, sterk og sölt, þekur grænmetið, núðlurnar og kjúklinginn vel og er eins og bragðsprengja í hverjum bita! 


Uppskrift: 

Fyrir 4

Marinering / sósa 

100 ml sojasósa
50 ml mirin 
3 msk hlynsíróp 
250 ml vatn 
1 tsk kjúklingakraftsduft / 1/4 teningur brotinn niður 
2 msk Siracha sósa 
4 hvítlauksgeirar rifnir 
3 cm kubbur engifer, rifinn

Til þykkingar á sósu
1 tsk maizenamjöl 
100 vatn

Núðluréttur

1 kjúklingabringa / 5 kjúklingalundir skorið í bita 
100 gr brokkolí 
50-60 gr gulrætur skornar í strimla 
skarlottulaukur skorin í strimla 
400 gr núðlur að eigin vali 

Til skreytingar:
Kóríander
vorlaukur (græni hlutinn) 
sesamfræ 
límóna

Aðferð: 

  • Setjið öll innihaldsefni marineringunnar í skál með niðurskornum kjúklingnum og látið standa í 30 cm á borði. 
  • Veiðið kjúklingabita úr marineringunni og steikið á heitri pönnu. Hellið safa sem fellur til í sósuna enda er hann stútfullur af kjúklingabragði og marineringu
  • Sjóðið núðlurnar. 
  • Setið marineringuna í pott og sjóðið í 5 mínútur, þykkið með maizena-vatnsblöndu.
  • Takið kjúklinginn af pönnunni og steikið næst grænmetið upp úr smá olíu. 
  • Blandið soðnum núðlum og kjúkling saman við grænmetið á pönnunni. 
  • Hellið sósunni yfir og blandið öllu vel saman, ekki hafa áhyggjur af því að finnast þetta þunnt, núðlurnar drekka vel í sig af sósunni. 
  • Setjið í diska og berið á borð. Hver um sig setur svo vorlauk, kóríander og sesamfræ að vild. 










 

SHARE:

þriðjudagur, 25. janúar 2022

Nautakjöt og brokkolí í asískri sósu

Uppáhald innan fjölskyldunnar og alltaf vinsælt. 


Dökk og sölt sósan með mjúku kjöti og svo slatta af hrísgrjónum sem drekka í sig umfram sósuna er það sem gerir algerlega punktinn yfir i-ið! 




Ég á alltaf mikið til af gúllasi inni í frysti og hef verið að skera það niður í strimla og nota í þennan rétt. 

Einnig er hægt að kaupa einhversskonar mínútusteik eða nota nautakjötsstrimlana sem fást frosnir í flestum búðum.  

Marineringin mýkir kjötið upp svo þetta þurfa ekki að vera bestu bitarnir til að þetta verði gómsætt og mjúkt.


Uppskrift (fyrir 4) 

Nautakjöt og marinering 

500 gr nautakjöt skorið í strimla 

1 tsk matarsódi (þetta mýkir kjötið, mjög mikilvægt) 

3 msk vatn 

1 msk matarolía 

1 msk ostrusósa 

2 tsk maizenamjöl 

Aðferð:

Öllu blandað saman og látið standa í 30-60 mínútur við stofuhita. 


Asísk Sósa. 

250 ml vatn 

1 msk kjuklingakraftur frá Oscars 

3 msk soyasósa 

2 msk ostrusósa 

1/2 msk sesamolía 

1/4 tsk hvítur pipar 

1 msk sykur 



Nautakjöt og brokkolí í asískri sósu 

Nautakjöt í marineringu 

Sósa

500 gr brokkolí skorið í bita 

2+2 msk olía 

2 hvítlauksrif - rifin eða kramin 

2 cm bútur af engifer, rifinn eða saxaður smátt 

Shaoxin vín (má sleppa - en það fæst í asískum búðum, þarft bara að biðja um það) 

Til að þykkja 

4 msk vatn 

2,5-3 msk maizenamjöl 

sósulitur (má sleppa)

ofaná: Sesamfræ, niðurskorinn vorlaukur og kóríander (má sleppa) 


Meðlæti

250 ml ósoðin hrísgrjón 

750 ml vatn 

1 tsk salt 

Soðið uppá í 2 mínútur og svo sett helluna niður í 2-3 og látið standa þannig í 20 mínutur, ALLS ekki opna pottinn á meðan. 



Aðferð: 

  • Steikið kjötið í skömmtum á pönnu í 2 msk af olíu þannig að það sé létt brúnað. Best er að gera þetta í nokkrum skömmtum svo kjötið sé að brúnast en ekki soðna á pönnunni, safnið svo steikta kjötinu og öllum safa i skál (kjötið þarf hér ekki að vera fulleldað í gegn, það gerir það seinna í ferlinu). 
  • Steikið létt á pönnunni hvítlauksrifin og engiferið í 2 msk af olíu. Hellið Shaoxin víni útá. 
  • Bætið brokkolíi, léttsteikið í 2 mínútur og bætið svo kjötinu og sósunni útá. Sjóðið við vægan hita í 5 mínútur
  • Til að þykkja sósuna er maizenamjöli og vatni hrært saman og sett útí sjóðandi sósuna og hrært vel saman við alveg í lokin. Ég set oftast smá sósulit útí sósuna einnig til að fá dýpri brúnan lit. 

nokkrir punktar: 
Frá byrjun til enda tekur aðeins um 25 mínútur að útbúa þennan rétt ef frá er dreginn tíminn sem tekur að setja kjötið í marineringu. 
Þetta hins vegar hentar ágætlega sem matur í miðri viku þegar komið er heim eftir vinnu. Að græja þá kjötið, láta það standa og svo setja grjónin yfir suðu á meðan allt annað er undirbúið og svo eldað.



SHARE:

mánudagur, 16. nóvember 2020

Risarækjur með tómata- og pestósósu

Vá. Þvílík dásemd sem þessi réttur var. 

Átti svo yndislegt nýbakað súrdeigsbrauð sem ég vildi nota til þess að drekka upp gómsæta sósu og datt í hug að búa til einhvernskonar rétt úr risarækjum sem ég átti til. 
Að öllu jöfnu hefði ég gert þennan rétt hérna sem ég geri afskaplega oft en það var eitthvað svo kuldalegt úti að mig langaði í kraftmikla og braðgmikla rjómasósu. 

Uppskrift:

 fyrir um 2 

ca 400 gr risarækjur 
3 msk olía 
200 gr kokteiltómatar 
5 sneiðar sólþurrkaðir tómatar skorið í teninga
2 hvítlausrif 
1 skarlottulaukur 
100 ml hvítvín 
1 msk rautt pestó (Philipo Berio)
1 msk fljótandi humarkraftur frá Oscars
200 ml rjómi 
fersk basilika, ca 10 blöð
rifinn parmesan (hver og einn setur yfir) 
salt og pipar 

Aðferð

  • Steikið rækjurnar uppúr 2 msk af olíu á heitri pönnu. Takið af og látið til hliðar 
  • Steikið því næst saxaðan hvítlauk, skarlottulauk, kokteiltómata, sólþurrkaða tómata í ca 3 mín, hækkið vel á pönnunni og hellið hvítvíninu útá (ég notaði hvítvín sem fæst orðið í flestum búðum eins og Krónunni og Bónus - það kemur saltað og piprað og er ekki ætlað til drykkju þó það sé áfengt) 
  • Leyfið þessu að sjóða hressilega í um 2 mínútur eða þar til að mesta hvítvínið hefur gufað upp. 
  • Látið 200 ml af rjóma útá, 1 msk af pestóinu og 1 msk af fljótandi humarkrafti. Ég þurfti ekki að salta þarna en bætti við smá pipar. 
  • Setjið rækjurnar útá
  • Sjóðið í 5 mín á vægum hita 
  • Skerið basilíkuna í strimla og hrærið samanvið 
  • Borið fram með nýbökuðu brauði sem notað er til að drekka í sig rjómasósuna og nýrifnum parmesan sem rifinn er yfir sósuna og rækjurnar þegar þær eru komnar disk hvers og eins.
Þessi réttur er virkilega fljótlegur (tekur ca 15 mín að útbúa) og það setja humarkraftinn útí sósuna færir sósuna á það stig að það yrði enginn ósáttur við að fá þennan rétt á veitingastað. 

Mæli með að þið prufið. 





psst. Hvernig væri að bjóða makanum á heimadeit og bjóða uppá þetta? ;) 


Punktar: 
-Hér má vissulega nota humar ef þið viljið
-Þessi sósa og rækjur henta unaðslega vel sem pastasósa. Sjóðið Tortellini og bætið saman við (sleppið brauðinu þá) Þessi skammtur af sósu ætti að henta 4 ef það er sett pasta samanvið
SHARE:

miðvikudagur, 13. maí 2020

Sterkur kjúklingur í Gochjang sósu

Ég ætla að gefa þessum alveg 6.5 af 10 í 🌶
Sem mér finnst alveg ótrúlega gott.
Elska að elda sterkan mat heima og þessi réttur rífur temmilega í og er með svo djúpu og skemmtilegu bragði að ég stóð mig að því að ausa sósunni sérstaklega bara yfir hrísgrjónin bara til þess að fá meira af þessu sæta, salta, sterka bragði!

Í sósunni er aðal stjarnan Gochjang paste sem fæst í ÖLLUM búðum sem selja asíumatvörur enda er þetta krydd notað í afar mörgum kóreskum réttum. Sem ég skil mjög vel. Liturinn og bragðið er svo einstakt og gott að ég hef notað þetta krydd í marga rétti undanfarið

Ég kýs að nota kjúklingalæri þar sem þau eru svo mjúk og góð þegar þau eru elduð í svona sósu. Þau þola líka mikinn hita án þess að þorna upp.


Uppskrift:

(fyrir 2-3) 

6-8 úrbeinuð kjúklingalæri (600-800 gr)
3 msk Gochjang paste
3 msk hunang
1 msk soyasósa
1 tsk sesamolía
1 tsk rifinn ferskur engifer
2 rifin hvítlauksrif
smá svartur pipar

Til skreytingar þegar rétturinn er kominn útúr ofninum:
Vorlaukur (græni hlutinn)
Sesamfræ

Aðferð

-Hrærið öllum innihaldsefnunum á marineringunni saman í skál
-Setjið kjúklingalærin útí og látið standa á borði í klst
-Hitið ofninn í 230 °C á yfir- og undirhita
-Raðið kjúklingabitunum eldfast mót, látið bitana ekki ofan á hvorn annan
-Eldið í 20 mínútur
-Kveikið á grillinu í ofninum og grillið við 230°C í 10 mínútur í viðbót
-Takið út og setjið vorlauk og sesamfræ yfir
-Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati


Setjið marineringuna í skál 
Hrærið saman 
Hellið yfir kjúklingalærin og látið standa á borði í klst áður en þið eldið 
Raðið í eldfast mót og setjið inn í 230°C heitan ofn 
Breyið stillingunni á ofninum í grill eftir 20 mínútur og eldið þannig í 10 mínútur 
Vorlauk og sesamfræjum stráð yfir 

Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati 



 Ath.
-Það er hægt að sjóða sósuna niður með því að hella henni í pott og sjóða þar til hún þykknar og bera hana fram þannig
-Tilvalið er að nota bygg eða blómkálsgrjón með þessum rétt.
-Frábært til þess að grilla í sumar og ef til vill hafa grillað brauð, létta hvíta sósu og ferskt grænmeti með


enjoy! :)

SHARE:

miðvikudagur, 29. janúar 2020

Kóreskir djúpsteiktir kjúklingavængir

Kóreskir kjúklingavængir.
Kóreskir djúpsteiktir kjúklingavængir
Steiktir kjúklingavængir
sterkir kjúklingavængir
Sticky Korean kjúklingavængir.

Erfitt að velja nafn á þennan rétt, but you get the point :)

Þessir vængir samt... úff og vá... Betri en nokkrir aðrir sem ég hef smakkað á veitingastöðum. Sætir, smá sterkir (alls ekki um of), klístraðir, djúsí, stökkir, bragðgóðir... Þeir hafa ALLA uppáhalds eiginleika góðs matar ;)

Þessi réttur hefur ef til vill nokkuð langan innihaldslista af vörum sem þið eigið ekki endilega til í skápunum ykkar. Það góða við innihaldslistann er að þetta geymist flest allt mjög lengi, í framtíðinni er auðvelt að hendast til og græja þennan rétt með stuttum fyrirvara og það sem besta er ... að 2 bakkar af kjúklingavængjum kosta vel undir 1000 kr!

Það skemmtilega við þennan rétt er að hann getur verið aðalréttur, forréttur eða meðlæti. Allt eftir hvað hentar hverju sinni.




Kjúklingavængir: 
Aðalréttur fyrir 2, snakk með öðrum réttum fyrir 4-5 manns

2 bakkar (ca 1 kg) kjúklingavængir skornir í bita (hendið vængendanum) (sjá aðferð við að snyrta kjúklingavængi)
Svartur pipar
Salt
2 cm rifinn engifer
1 bolli / 250 ml kartöflumjöl
ca 500 ml sólblómaolía (má vera meira)

Sósa:
2 msk tómatsósa
2 msk sojasósa
2 hvítlauksrif - rifin
2 msk Gochujang paste (Kóreskt chili paste sem fæst í asíubúðum)
60 ml hunang (tært)
60 ml púðursykur
1 msk sesamolía

Eftirá:
1-2 msk sesamfræ
saxaður vorlaukur (bara græni hlutinn)

Aðferð:

Kjúklingavængir:
-Skerið kjúklingavængina í þrjá hluta (sjá hvernig skal skera þá) og hendið vængendanum.
-Þurrkið þá vel með eldhúspappír svo þeir eru þurrir
-Saltið yfir og piprið
-Setjið rifinn engifer yfir og kastið kjúklingavængjunum saman í skál.
-Stráið kartöflumjöli yfir og hristið til í skálinni svo að allir vængirnir séu vel þaktir kartöflumjöli.
-Steikið vængina í heitri olíu sem er ca 180°C í potti á eldavélinni (ef þið eigið djúpsteikingarpott þá er það auðvitað það sem þið mynduð vilja nota ;) ). Þið eruð að fara að steikja vængina í nokkrum skömmtum og svo steikiði þá AFTUR þegar búið er að steikja alla vængina einu sinni
-Sem sagt.... steikið vængina í ca 5 mínútur við 175°C. Passið að hafa ekki of marga vængi í einu í pottinum. Eftir þessar 5 mínútur takiði þá út og leggið á pappír eða á ofngrind svo olían geti lekið af þeim.
-Á meðan þið hægt og rólega eruð að steikja vængina er kjörið að gera sósuna... (kem að því síðar).
-Þegar búið er að steikja alla vængina einu sinni eru þeir steiktir aftur í nokkrum skömmtum í 180°C heitri olíunni en nú bara í 3-4 mínútur eða þar til orðnir örlítið brúnir en mjög stökkir.
-Látið vængina aftur á pappír eða ofngrind.

Sósa: 
-Setjið allt sem á að fara í sósuna í pott og látið suðuna koma upp og sjóðið við mjög vægan hita þar til sykurinn er uppleystur.

Samsetning:

Þegar allir kjúklingavængirnir eru tvísteiktir, hitið sósuna aftur þannig að hún sjóði, setjið vængina í skál og hellið sósunni yfir vængina. Kastið svo vængjunum til í skálinni þar til þeir eru allir þaktir      sósunni.
Ra ðið á bakka, stráið semsamfræjum og söxuðum vorlauk yfir

Tillaga að meðlæti: 
Gráðaostasósa


SHARE:

miðvikudagur, 27. nóvember 2019

Kalkúnabringa með fyllingu

Þakkargjörðarhátíðin kemur frá Bandaríkjunum og er almennt ekki haldið upp á hana hér á Íslandi.
Það er hins vegar gaman að gera dagamun, bjóða vinum í heimsókn eða útbúa mat sem maður gerir ekki svo oft yfir árið.

Kalkúnabringa er eitthvað sem ég elda almennt ekki oft en hún er afskaplega bragðgóð og góð tilbreyting á hversdagsleikanum.

Þessi kalkúnabringa er fyllt með sætri, saltri, mjúkri fyllingu, með mikið af olíu og verður kalkúnninn safaríkur og mjúkur.

Fylling 
2 dl saxaðar döðlur
1 dl þurrkuð trönuber
1 hvítlauksgeiri (saxaður smátt)
1 skarlottulaukur (saxaður smátt)
1 msk ferskt timian
1 krukka fetaostur og öll olían
3 brauðsneiðar

Aðferð
-Steikið uppúr olíunni af fetaostinum lauk og hvítlauk þar til hann mýkist
-Bætið timian, döðlum og trönuberjum útí, lækkið hitann og steikið í 2-3 mínútur
-Bætið fetaosti útí og lækkið hitann enn meira, hann á aðeins að bráðna samanvið en ekki alveg leysast upp
-Rífið niður 3 brauðsneiðar í litla teninga (sleppa skorpu) og hrærið saman

Kalkúnabringa 
1.2 kg - fyrir ca 4 fullorðna

-Skerið bringuna þannig að hún verði útflött (e. butterfly - sjá video hér)
-Kryddið með góðu kryddi báðu megin. Mæli með kalkúna eða kjúklingakryddi.
-Setjið fyllinguna í og rúllið bringunni þétt saman uppí rúllu, rúllið upp frá styttri hlið bringunnar.
-Ef ykkur finnst þurfa, stingið tannstönglum í hana svo hún haldist vel saman.
-Eldið við 190°C í ofni (reiknið með klst inní ofni ca).
-Notið kjöthitamæli (algerlega nauðsynlegt). Ég mæli með að elda hana upp í 68°í kjarnhita, taka hana þá út, setja álpappír yfir og handklæði og láta hana standa í 20-30 mín á borði. Hún mun ná 71°C hita að lokum, jafna sig og verða meira safarík en ef hún væri skorin stuttu eftir að hún kæmi útúr ofni.

Sósa 
2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
3-4 greinar af timian
2 msk matarolía
1 L vatn
200 ml hvítvín
Kalkúnakraftur frá Tasty
Maizenamjöl í vatni
2 msk smjör
salt og pipar eftir smekk

Aðferð
-Steikið skarlottulaukinn, hvítlauk og timian í matarolíu þar til það verður lint.
-Hækkið hitann og hellið hvítvíni útí. Látið sjóða nær alveg niður
-Bætið vatni og krafti útí og látið sjóða í 30 mín við vægan hita
-Þykkið með maizenamjöli
-Saltið og piprið að vild
-Setjið 2 msk af smjöri útí sósuna rétt áður en hún er borin fram.



Reykjabúið - ATH, engin sýklalyf... Alveg dásamlegt! :) 
Flött út 
Fyllingin sett í 


SHARE:

sunnudagur, 6. október 2019

Kjötsúpa


Góða, kjarngóða íslenska kjötsúpan....

Þessi súpa hefur eflaust haldið lífinu í mörgum Íslendingnum í gegnum tíðina. Súpan er einföld og tekur ekki lengri tíma en um klst að elda.
Það er ekki betra að sjóða súpuna. Á endanum ertu bara að gera kæfu úr kjötinu og það þarf ekki meiri suðu en um þessa rúmu klst.


Uppskrift:

3 lítar  vatn
1,5-2 kg súpukjöt
1/2 dl hrísgrjón (má sleppa)
2 msk salt (og örlítill hvítur pipar)
5-8 gulrætur
8-10 kartöflur
1-2 rófur (smáar)
1/4 hvítkálsshaus
1 laukur
1 dl súpujurtir

Aðferð: 

-Skolið af kjötinu og setjið í pottinn ásamt 3 lítrum af vatni. Á meðan suðan er að koma upp er eðlilegt að brún froða myndist ofan á. Takið hana í burtu með skeið eða ausu jafn óðum og hún myndast. Sjóðið í 45 mínútur
-Á meðan kjötið sýður undirbúið grænmetið. Reynið að hafa í huga að hafa grænmetið í þeirri stærð svo það passi í skeið.  Skerið gulrætur í ca 5 mm þykkar sneiðar (ef gulræturnar mjög sverar skerið þær þá til helminga eða í fjórðunga fyrst), rófurnar í teninga, kartöflurnar skræliði og skerið í teninga, laukinn skerið þið í litla bita (mun smærri en annað grænmeti) og hvítkálshausinn í teninga.
-Þegar 45 mín eru liðnar af suðunni á kjötinu setjið þið þá 1 dl af súpujurtum útí, laukinn, kartöflur, rófur, gulrætur, salt, örlítinn hvítan pipar og ef þið viljið, 1/2 dl hrísgrjón (þau voru oft sett til þess að drýgja súpuna en margir eru vanir því að hafa hrísgrjón í súpunni sinni)
-Súpan soðin áfram í ca 15-20 mínútur.
-Að  suðutímanum liðnum hef ég vanalega tekið kjötið uppúr og dundað mér við að tína það af beinunum, hreinsa í burtu sinar og fitu, rífa í smærri bita og set þá svo aftur ofaní.
-Það er ekkert leyndarmál að súpan sé betri daginn eftir. Hún er það svo sannarlega... og hún er líka góð 3-4-5 daga eftir að hún hafi verið útbúin. Geymið hana bara í ísskáp í lokuðu íláti og hitið bara upp þá skammta sem þið ætlið að taka af henni. Sem sagt, reynið að hita hana ekki alltaf alla og kæla svo aftur (svo má alltaf setja súpuna í smærri skammta í box og frysta)

Ath ...
Svona hef ég helst viljað borða kjötsúpu. Hafa hana tilbúna í skál eins og ég ber hana á borð.
Sumir eru vanir því að fá súpuna sér og svo kjöt, kartöflur og rófur á disk hliðina á og borðar það þá súpuna og matinn til skiptis eða brytjar kjöt, kartöflur og rófur sjálft út í súpuna.










SHARE:

þriðjudagur, 16. júlí 2019

Kjúklingabitar með sítrónu og kryddjurtum



Safaríkir og bragðgóðir kjúklingabitar

Ótrúlega einfaldir en setja smá öðruvísi tón á venjulegu krydduðu kjúklingabitana sem maður er vanur að elda heima. 


Einföld, hrein hráefni

Ekki fleiri innihaldsefni en þetta 

Öllu blandað saman og kjúklingabitum velt uppúr leginum
Kjúklingabitum raðað á grind með einhverju undir til þess að grípa safa og fitu og restinni af marineringunni dreift yfir bitana 
Kjúklingabitnarnir að krauma í ofninum 

Tilbúið! 

Uppskrift
8-12 kjúklingabitar að eigin vali 

1 msk rifinn sítrónubörkur (ca af einni sítrónu)
2 rifin hvítlauksrif
1 msk saxaðar ferskar kryddjurtir  - rósmarín og timian var fyrir valinu hér
(það er einnig hægt að nota 1 tsk af þurrkuðum)
1 tsk saltflögur
1 tsk nýmalaður pipar
3 msk góð ólífuolía
safi úr einni sítrónu
8-12 kjúklingabitar (leggir, læri, vængir)


Aðferð

-Öllu sem þarf í marineringuna blandað saman. Salt, pipar, kryddjurtum, hvítlaukur,  sítrónubörkur, ólífuolía, sítrónusafi
-Helt yfir kjúklingabitana og þeim velt um í marineringunni þar til þeir eru allir vel þakktir henni og látið standa á borði í 30 mín hið minnsta (eða allt að 12 klst í ískáp)
-Kjúklingabitunum raðað á grind sem er fyrir ofan ofnskúffu (svo bitarnir liggi ekki í safanum og safanum er safnað í ofnskúffuna fyrir neðan), restin af marineringunni úr skálinni er sett yfir bitana og svo eru þeir eldaðir í ofni á 190°C í 45 mínútur (yfir- og undirhita)

Bar kjúklingabitana hér fram með stökkum ofnbökuðum kartöflum (linkur neðar) og ofnbökuðu brokkolíi 


Annað:
-Ég bar þetta fram með ofnbökuðum stökkum kartöflum, ofnbökuðu brokkolí, olífuolíu og kaldri hvítlaukssósu
-þessa kjúklingabita er gott að grilla og sniðugt að eiga tilbúna í frysti til þess að taka með í útileguna. Setur þá frosna í kæliboxið og þeir halda kæliboxinu köldu á meðan þeir þiðna. Munið bara að það er mikilvægt að snúa svona bitum oft á grilli svo þeir brenni ekki áður en þeir eru tilbúnir.


SHARE:

mánudagur, 25. febrúar 2019

Kjúklingabringur í ofni með tómötum og ferskum kryddjurtum

Litríkur réttur úr hreinum hráefnum sem vekur athygli á matarborðinum og slær í gegn.






Fyrir 3

3 kjúklingabringur
1 msk ferskt rósmarín
1 msk ferskt timian
1 hvítlauksrif
4 msk góð ólífuolía
salt og pipar eftir smekk.

2 lúkur af smáum krisuberjatómötum
flögusalt
góð ólífuolía

Til þess að setja yfir þegar rétturinn er kominn út:
Basilíka og parmesanostur

Aðferð:
-Skerið hvítlauksrifið niður í bita, grófsaxið kryddurnirnar og setjið ásamt olíu, salt og pipar saman í mortél. Steytið létt saman og veltið svo bringunum uppúr olíunni.
-Raðið bringunum í eldfast mót og raðið í kringum þær tómötum sem búið er að skera í helminga. Veltið þeim um í olíunni og kryddinu.
-Eldið í 190°C ofni í 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.
-Þegar rétturinn er kominn út er ferskri basilíku stráð yfir sem búið er að skera í strimla og parmesan annað hvort rifinn yfir eða skorinn í litlar sneiðar með skera stráð yfir.

Frábært að borða með þessum rétt nýtt súrdeigsbrauð, salat og/eða blómkálsmús





SHARE:

föstudagur, 18. janúar 2019

Risarækjur með tómötum og hvítlauk

Ég er oft að reyna að finna uppá einhverju kolvetnasnauðu og þessari uppskrift klambraði ég saman í sumar og hef gert nokkrum sinnum síðan.
Það má sanni segja að Instagramið hjá mér logi þegar ég pósta þessum rétti og ég veit að margir bíða eftir uppskriftinni.

Hægt er að nota uppskriftina sem forrétt, aðalrétt eða meðlæti. Ég hef borið rækjurnar fram með súrdeigsbrauði eða naan og hvorugtveggja er jafn gott þó svo að mér sýnist brauðæturnar elska súrdeigsbrauðið meira fyrir þær sakir að það drekkur svo vel í sig safann af réttinum (sem er algerlega himneskur btw!).

Rétturinn er einfaldur með örfáum innihaldsefnum og hér kemur uppskriftin loksins.


Uppskrift
Fyrir 3 í aðalrétt

500 gr smáir tómatar (því sætari því betri)
2 hvítlauksrif (1 hvítlauksrif ef það er stórt)
góð ólífuolía
nokkrar greinar af fersku timian (má sleppa eða nota þurrt)
600 gr risarækjur (ég kaupi mínar í Costco og vel stórar rækjur "tail on)
saltflögur
nýmalaður pipar
2 ferskar mozzarellakúlur
Fersk steinstelja eða kóríander (hvort sem ykkur líkar betur við)

Aðferð: 
-Tómatar skornir í helminga, settir í eldfast mót, hvítlaukur marinn eða skorinn smátt, dágóðum slatta af ólífuolíu hellt yfir, örlítið af salti, timiangreinum raðað yfir og velt með töng þar til að allt hefur fengið á sig olíu,
- Sett inn í ofn í 10 mínútur á 220°C.
-Tekið útúr ofninum. Þiðnum rækjum velt saman við, kryddað með aðeins meira salti og nýmöluðum pipar.
-Mozzarellakúlur rifnar niður og ostinum dreift yfir réttinn. Helmingnum af fersku steinseljunni/kóríandernum dreift yfir.
-Sett inn í ofn í 12-15 mínútur á 220°C eða þar til osturinn er bráðnaður, örlítið gullinn og rækjurnar orðnar bleikar.
-Restin af kryddjurtum stráð yfir.

Frábært að bera fram með brauði til þess að dýfa í safann sem fellur af í eldfasta mótið.
Hægt að bera fram með fersku Romainsalati og olífuolíu.






Tómatarnir skotnir til helmingja og settir í eldfast mót. 
Timian úr garðinum :) 
Rækjum bætt við þegar búið er að elda tómatana 

Rifnum mozzarella og kryddjurtum bætt við 



Rækjurnar eru gráar þegar þær eru hráar. Þær verð bleikar þegar þær eldast. 

Frábær réttur. Léttur í maga og unaðslega bragðgóður 

Enjoy



SHARE:
Blog Design Created by pipdig