þriðjudagur, 19. mars 2019

Páskalegar bollakökur

Páskalegar bollakökur með litlum Cadbury eggjum 

Þessi litlu egg eru alveg ótrúlega góð og erfitt að halda sig frá því að borða þau öll áður en þau fara ofan á bollakökurnar en reynið að standast freistinguna :)
-Eða gera eins og ég, kaupa 3 poka til öryggis 

Fallegar, vorlegar bollakökur með appelsínubragði. Fallegar á borði og í veisluna og tekur stuttan tíma að útbúa. 


Uppskrift: 
gerir 12 bollakökur 

125 gr smjör
200 gr sykur
2 egg
1 tsk vanilludropar/extract
raspað hýði af 1 appelsínu
300 gr hveiti
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
125 ml mjólk

Glassúr
4 dl flórsykur 
appelsínusafi

Aðferð: 

-þeytið saman í hrærivél eða handþeytara smjör og sykur þar til það hefur lýst.
-Bætið við eggjum, einu og einu í einu og þeytið mjög vel á milli. Þeytið áfram í um 2 mín eftir að seinna eggið er komið útí.
-Bætið við appelsínuberkinum og vanilludropunum og blandið saman
-Setjið útí hveiti, lyftiduft, matarsóda og mjólk og hrærið saman þar til að þetta er orðið að samfelldu deigi. Ekki hræra lengur en mögulega þarf
-Setjið deigið í 12 bollakökuform í bollakökumóti (annars fletjast þær út í ofninum og ná ekki að lyfta sér svona hátt upp) 
-Bakist inní ofni við 180°c við 25 mínútur 
-Látið kólna
-Hrærið saman flórsykur og appelsínusafa. Erfitt að segja nákvæmlega hvaða magn af safanum þarf en reynið að miða við að hafa glassúrinn þykkan svo að eggin tolli ofaná og glassúrinn renni ekki allur af kökunum.
-Raðið Cadbury-eggjunum ofaná, látið glassúrinn harða aðeins og njóóóótið!

Fyllið formin næstum



látið kólna áður en glassúrinn er settur á 

seinna um daginn hurfu ansi mörg egg af bollakökunum... þessi liggur sterklega undir grun 😎
SHARE:

fimmtudagur, 14. mars 2019

Pizzasnúðar

Klassískir pizzasnúðar en einnig fylgja hugmyndir að mjög frumlegum pizzasnúðum sem gaman er að prufa líka.

Virka í raun fyrir allan aldur og eru frábærir fyrir barnaafmælin, útilegurnar, kaffitímana, nestistímana og fleira og fleira. 

Þessir pizzasnúðar eru frábærir vegna hve mjúkir þeir eru (þið hafið örugglega aldrei smakkað aðra eins! 😎 Þeir geymast líka vel í 2-4 daga.

Eins og þið sjáið svo í hugmyndum að fyllingum er hægt að leika sér mikið með innihaldsefnin svo að þetta henti sem flestum 😊



Uppskrift 
(gerir 50-55 litla snúða)

450 gr hveiti
1 msk sykur
1 tsk salt
1 bréf þurrger
3 msk matarolía
1 dl mjólk
2 dl volgt vatn
góð ólífuolía

Hugmyndir að fyllingum
-pizzasósa
-skinka
-pepperoni (skorið í bita)
-kjötsósa (Bolognese)
-hráskinka
-fersk basilíka
-pulsur
-hvítlaukssmjör
-ostur
-ólífuolía
-ólífur
-pestó
-ýmis ítölsk krydd
-rifinn ostur
-mjúkur ostur (camembert t.d.)
-chutney

Aðferð: 
-Blandið innihaldsefnum saman í skál/hrærivélarskál og hnoðið saman í 2-3 mínútur eða þar til deigið er vel komið saman. Það má vera nokkuð blautt og ekki hafa það of stíft.
-Látið hefast í 40 mínútur undir viskastykki
-Fletjið deigið út í ílangan ferhyrning, ekki hafa deigið of þunnt.
-Smyrjið sósu á deigið og setjið fyllingu að eigin vali á. Dreifið rifnum osti yfir og hellið að lokum ólífuolíu í mjórri bunu yfir allt deigið (þetta er galdurinn fyrir mjúka pizzasnúða í marga daga 😉)
-Rúllið snúðunum upp eins og ég sýni á myndinni hér neðar (rúlla langhliðunum inn að miðju), skerið svo á milli rúllanna með pizzaskera og klárið að rúlla upp rúllunum. (þetta sparar þá vinnu að fletja út deigið í tveim skömmtum)
-Skerið rúllurnar í 4 cm breiða snúða, raðið þeim á bökunarpappírsklædda bökunarplötu og þrýstið létt með lófanum ofan á hverja rúllu.
-Látið snúðana standa á borði við herbergishita í 20 mínútur áður en þið bakið þá (má sleppa ef ekki gefst nægur tími)
-Bakið í ofni við 200°C í 13-15 mínútur eða þar til þeir hafa náð að gyllast smá. Varist að ofbaka þá ekki því að þá verða þeir harðir og tómatsósan brennur auðveldlega.

ATH. Ef þið notið kjötálegg eða e-ð annað álegg sem almennt geymist í kæli þarf að geyma snúðana í kæli eftir dag nr 1.

áleggið sem ég notaði hér var það sem átti í ísskápnum 


Pizzasósa, pulsur, rifinn ostur, hráskinka, afgangs bolognese sósa, Olifa Puglia ólífuolía, 
rúllur rúllaðar upp frá sitthvorri langhliðinni þar til þær mætast í miðju. Skerið þá á milli rúllanna með pizzaskera og klárið að forma rúllur. 

raðið pizzasnúðunum á plötu, látið standa á borði í 20 mínútur til að hefast örlítið og bakið svo í ofni





Munið að "tagga" mig á instagram "ragnab" og nota hasthtaggið #ragnapunkturis ef þið sýnið frá því sem þið gerið af síðunni á samfélagsmiðlum 😉

njótið
xoxo
SHARE:
Blog Design Created by pipdig