laugardagur, 14. nóvember 2020

Banana-og karamellubúðingur

Eftirréttur, eins og sá sem þú færð á veitingastöðum!

Silkimjúkur búðingur með karamellu-vanillubragði og svo leynast þarna óvænt bananar í botninum. 
Yndislegt alveg. 

Uppskrift 

(Fyrir 4 glös eða eftirréttaskálar) 

Í botninn: 

150 gr mulið digestive kex
3 msk sykur
4 msk bráðið smjör 


Aðferð:  

blandið saman  (möluðu) kexinu sykri og smjöri og þrýstið blöndunni í botninn og örlítið upp í hliðar á 4 desertskálum eða glösum. Kælið í 30 mínútur

Í fyllinguna:


215 gr púðursykur
30 gr smjör
3 msk (30 gr) maizenamjöl
350 ml nýmjólk
1/2 tsk salt
4 eggjarauður
1/2 tsk vanilluextract
2-3 þroskaðir bananar

Aðferð:

  • Bræðið smjör og blandið því saman við púðursykur, setjið í skál. Setjið þetta svo til hliðar
  • Í bolla, hrærið maizenamjölið útí smá af mjólkinni. Í potti, hitið restina af mjólkinni með saltinu þangað til að blandan er við suðu og hellið þá maizenamjölsblöndunni útí. Sjóðið þar til blandan þykknar.
  • Hrærið eggjarauðurnar saman í skál og hellið smá af heitri mjólkurblöndunni útí eggin. Hellið svo þeirri blöndu aftur útí heita mjólkina og hrærið þar til að blandan þykknar enn frekar (þetta endar á að verða svoldið eins og hrært majones.
  • Hellið/þrýstið blöndunni í gegnum sigti (ef ykkur kann að finnast þetta eitthvað kekkjótt) ofan í púðursykurblönduna, bætið vanilluextract við og hrærið vel saman. Sykurinn bráðnar. 
  • Skerið bananana niður í 5-6 mm sneiðar og dreifið yfir kexbotninn (ég notaði aðeins rúmlega 2 banana en það fer eftir smekk). Hellið blöndunni yfir bananana, geymið þetta í kæli í amk 2 klst áður en rjóminn er settur ofan á og borið er á borð. 
Kexið mulið 


kex-, smjör og sykur blandan sett í glösin og kælt




Allt að verða tilbúið til að setja saman blönduna í fyllingna



Fyllingunni hellt yfir bananana

Auka punktar:

  • Það er dásamlegt að setja karamellukúlukurl ofan á 
  • Það er líka æðislegt að setja smá vanillusykur útí rjómann þegar þið þeytið hann 
  • Það er hægt að geyma þetta í 2-3 daga í ísskáp ef þið sleppið að setja rjómann á og setjið plastfilmu yfir 
  • Það er hægt að hægelda eplabita uppúr smjöri, sykri, smá vanillu og kanil og setja í botninn í staðinn fyrir epli 
  • psst. þetta slær í gegn í matarboðum 



SHARE:

fimmtudagur, 14. maí 2020

Ofnbakaður Camembert

Mmmmm

Bráðinn ostur, heitur, lekandi með dísætu hlynsýrópi!

Fullkomið fyrir datekvöld eða saumaklúbbinn. Já eða bara hvað-sem-er ! :)
Eftirrétt eftir grillið, kósíkvöld uppí sumarbústað, snarl uppí rúm seint um kvöld .... hvað-sem-er



Uppskrift 


1 camembert
2 msk hlynsýróp
2 msk muldar pekanhnetur
1 msk söxuð trönuber eða döðlur

Aðferð 


-Hitið ofninn í 200 gráður
-Skerið ofan í ostinn, 2/3 af leiðinni í gegn, skerið eins og þið væruð að skera eftir línunum í rúðustikuðu blaði :)
-Setjið 2 msk af hlynsýrópi yfir og bakið ostinn í 10 mínútur
-Takið hann út og setjið pekanhnetur og trönuber/döðlur yfir, bakið í 5 mínútur í viðbót.

Skerið í ostinn
Hellið hlynsýrópi yfir 

Ath 

Ég læt pekanhnetur og berin ekki vera allan tímann inni því ef þetta er allan tímann þá getur það ofeldast og orðið beiskt :) Þetta þarf aðeins að ristast en á alls ekki að brenna.





SHARE:

mánudagur, 4. febrúar 2019

Ostakaka

Þessa uppskrift gerði ég svo oft þegar ég vann á Halldórskaffi að ég gerði hana ekki í mörg ár!

Þegar ég fór svo að halda upp á barnaafmæli krakkanna þá langaði mig rosalega mikið til að gera þessa köku og þurfti svo nokkrar tilraunir til þess að rifja upp uppskriftina þar sem ég hafði hvergi skrifað hana niður :)

Þetta er klassískt ostakaka með stökkum kexbotni.
Ég hef alltaf sett berjablöndu eða jarðarber ofan á kökuna en það er hægt að setja allt sem hugurinn girnist ofan á, grunnurinn er alltaf sá sami.




Kexkökur settar í lokanlegan poka og brotnar með kökukefli eða buffhamri þar til að það eru engir stórir bitar eftir.
Bræddu smjöri helt ofan í pokann og öllu velt saman þar til allt kex hefur fengið smjör í sig. 

Kex- og smjörblöndunni hellt í hringlaga smelluform og slétt úr með skeið. Ekki þrýsta eða þjappa blöndunni
Kælið kexbotninn 
Þeytið saman rjómaost, flórsykur, sítrónusafa og vanilludropa 

þeytið rjóma 

blandið blöndunum saman og bætið matarlíminu  útí þegar búið er að leysa það upp 

Gott að hafa aðstoðarmann sem spyr 5x á mínútu "hvað gera núna mamma " ;) 


Þegar ostakakan hefur verið í kæli eða frysti í klst og hefur stífnað er berjum raðað yfir 

Jarðaberjahlaupi hellt varlega yfir ostakökuna, ath má ekki vera heitt 


Skorið meðfram kökunni allan hringinn og forminu smellt utanaf kökunni. Pönnukökuspaða eða stórum hníf stungið undir botninn til þess að losa hana af botninum og hún færð yfir á annan disk. 


Uppskrift
300 gr digestive kex
200 gr smjör (brætt)
500 ml rjómi
400 gr rjómaostur
2 msk sítrónusafi
3 matarlímsblöð
150 gr flórsykur
2 msk sítrónusafi
1 tsk vanillu extract
Frosin ber
Rautt jello

Aðferð 
-Kexkökur settar í lokanlegan poka og brotnar niður í mylsnu með kökukefli eða buffhamri þar til engir stórir bitar af kexi eru eftir.
-Bræddu smjöri er hellt út í kexmylsnuna og öllu velt um þar til að kexið hefur drukkið jafn í sig allt smjörið.
-Spreyið spreyform létt með PAM (nonstick spray) og hellið kexblöndunni í formið. Sléttið hana til með skeið en ath að þjappa eða pressa kexið ekki niður, þá verður kexbotninn of þéttur og harður
-Kælið botninn
-Þeytið saman rjómaost, sítrónusafa, vanillu extract og flórsykur í einni skál
-Þeytið rjóma í annarri skál
-Blandið saman rjómanum og rjómaostablöndunni. Best þykir mér að byrja á að setja rjómann smá saman útí rjómaostablönduna (í 3-4 skömmtum eða svo) og þeyta létt með handþeytaranum á milli til að blanda þessu saman.
-Látið matarlímsblöð liggja í köldu vatni þar til þau eru orðin mjúk. Leysið þau upp í 1,5 dl af mjög heitu vatni, látið blönduna standa og kólna aðeins.
-Hellið matarlímsblöndunni útí ostakökublönduna á meðan þið hrærið með handþeytaranum. Ostakökublandan mun þynnast aðeins við þetta en hún þéttir sig aftur þegar hún kólnar.
-Setjið blönduna yfir kexbotninn. Passið að hún fari vel út í allar hliðar svo að hlaupið renni ekki niður úr forminu þegar þið hellið því yfir.
-Látið kökuna standa í ískáp í frysti í klst.
-Dreifið frosinni berjablöndu yfir ostakökuna
-Útbúið rautt hlaup úr pakka (etv frá Jello). Ekki nota nema brot af því vatni sem gefið er upp. Í einn Jello pakka set ég 1,5 dl af sjóðandi vatni og leysi upp duftið. Bæti svo 1,5 dl af köldu vatni. Hellið varlega yfir öll ber. Líka hægt að nota ausu. (reynið að forðast að hlaupið myndi mikla froðu)
-Kælið kökuna aftur

Skerið meðfram kökunni til að losa formið frá kökunni. Notið svo pönnukökuspaða eða langan hníf til þess að losa botninn undan kökunni og látið hana renna yfir á kökudisk (einnig hægt að bera hana fram á botninum úr forminu)


Njótið :)

SHARE:

þriðjudagur, 1. janúar 2013

Crème brûlée / Creme Brulee





Eftirrétturinn með skrítna nafnið :) 
Í rauninni þýðir Crème brûlée - Brenndur rjómi og er með einfaldari eftirréttum sem hægt er að gera. Það eina sem stöðvar fólk vanalega í að gera hann er það að það þarf sérstakan gasbrennara til þess að brenna sykurinn ofaná sem gerir þessar geðveikt góðu og stökku sykurskel ofan á vanillu, rjóma, sykurs og eggjarauðublöndunni. 

Þessir gasbrennarar fást t.d. í DUKA og Kokku. Þegar ég keypti minn brennara athugaði ég líka bílavarahlutabúðir en komst að því að þeir voru ódýrari í búðum eins og DUKA og Kokku. Ég mæli samt að sjálfsögðu með því að fólk geri smá könnuna hvar ódýrustu gasbrennarnir fáist þar sem þetta er nú ekki flókið tæki og þarf ekki að vera það fínasta fína til að það geri sitt gagn :) Auk þess er þetta væntanelga ekki neitt sem er það mikið notað að það borgi sig að borga 10 þús fyrir gripinn.
Einhversstaðar las ég að það ætti að vera hægt að brenna sykurinn með því að setja formin undir brennandi heitt grillið á bakaraofni. Ég hef sjálf ekki prufað það og get ekki annað en ímyndað mér að það hiti Creme brulee-ið of mikið... Ef einhver hefur prufað þá má hann svo sannarlega deila árangrinum með okkur :)



Rjómi og vanilla sett í pott og suðan látin koma varlega upp. Lækkað undir og látið standa við suðu í 5 mínútur 

Eggjarauður og sykur 

Eggjarauður og sykur þeytt þar til létt og ljóst, í um 2-3 mínútur. lítur út eins og þykkt vanillukrem þegar þetta er tilbúið. Svo er vanillubaunin tekin úr rjómanum og rjómanum helt útí í ca 20-50 ml skömmtum og þeytt á meðan. Mestu skiptir að fyrstu rjómaskammtarnir fari sem hægast útí svo þeir eldi ekki eggin og þau hlaupi. 

Sett í form 

Formin sett inní ofn í eldföstu formi eða djúpri ofnplötu og sjóðandi heitu vatni hellt í formið.  Best er að setja vatnið í formið EFTIR að þið eruð búin að setja allt inní ofn til þess að forðast óhapp með skvettur :)

(uppskriftin var nóg í 3 form en ég setti 1/2 skammt í 2 form svo við gætum gætt okkur á smá Creme Brulee daginn eftir)


Þegar búið er að baka Crème brûlée-ið og það hefur kólnað setjið sykur yfir og brennið! 



njótið ! 


Ath myndirnar eru af hálfri uppskrift en hér fylgir heil uppskrift fyrir 6 form 

Uppskrift 
fyrir 6 
600 ml rjómi 
1 vanillubaun
6 eggjarauður 
1/2 bolli sykur 

+6 msk sykur

Aðferð: 

-Kljúfið vanillubaunina með beittum hníf og skrapið úr henni vanillufræin. Setjið þau auk, vanillubaunina og rjómann saman í pott og hleypið upp vægri suðu. Látið malla við suðu í um 5 mín. Á meðan þeytið þið eggjarauðurnar og sykurinn 
-Takið eggjarauður og sykur og þeytið vel í 3 mínútur. Hellið svo heitri rjómablöndinni hægt útí og þeytið á meðan. Í fyrstu þurfið þið að fara afar varlega svo þið eldið ekki eggin en undir lokin má setja rjómann aðeins hraðar útí 
-Takið 6 eldföst mót. Mín eru hringlaga og grunn, sumir nota souffle form en ég kýs að nota grynnri form. Ef þið eigið bara souffle form then go ahead :) Hellið eða ausið rjómablöndunni í formin og bankið svo hverju formi létt í borðið til að losa um loftbólur. 
-Raðið formunum í eldfast mót sem rúmar formin eða setjið í djúpt fat / ofnskúffu sem hægt er að hella vatni í 
-Látið heitt vatn renna, setjið í könnu og hellið varlega í mótið svo vatnið umleiki öll formin og nái uppá miðjar hliðar creme brulee formanna. Best er að gera þetta þegar mótið með formunum er komið inni ofn svo þið farið ekki að svetta öllu um koll við að setja mótið inní ofninn :) 
-Hafið ofninn stilltann á 150°C. Bakið í um 25-30 mín í miðjum ofni ef þið eruð með grunn form eins og mín en með souffle mót skulið þið reikna með um 45 mín. Það er í lagi að Creme brulee-ið dansi til þegar þið takið það úr ofninum.
-Kælið í ískáp þar til alveg kalt (geymist vel í ísskáp og má gera allt að 3 dögum fyrr ef þið viljið). Áður en þið brennið sykurinn ofan á, látið það taka aðeins hita aftur í sig og takið það um 1/2-1 klst fyrr útur ískápnum. 
-Setjið eina matskeið af sykri yfir hvert form og brennið með gashitara. Berið á borð strax. (ef sykurinn er látinn standa of lengi á þá bráðnar hann aftur)

Enjoy ! :) 




Áramótamaturinn 2012 




SHARE:

þriðjudagur, 31. janúar 2012

Tiramisu

Ó hvað þetta er yndislega, undaðslegur, æðislegur og bragðgóður eftirréttur ! ! 

(við skulum gleyma í smástund að hann er skelfilega óhollur... munið bara að borða minna í hádeginu og fara í ræktina!)




Það eru aðallega 3 atriði sem hafa stoppað mig í að gera tiramisu hingað til.
nr 1 - Þetta er flókið
nr 2 - Þetta er dýrt 
nr 3 - Það eru til góðar tegundir af tilbúnu tilbúnu tiramisu útí búð 
þessi þrjú atriði hafa samt hins vegar breyst í:
nr 1 - þetta er mun auðveldara en þið munið halda og frábært að geta gert þetta daginn áður en gestir munu koma til að minnka vesenið. 
nr 2 - Þetta er ekkert afburðadýr réttur. Mascarpone osturinn kostar um 700 kr samtals og eggin, tja, þau eru ekki dýr... 10 egg kosta um 400 kr og þarna notarðu 6 egg. Ekki má gleyma því að þessi réttur er stór og er fyrir 12 manns. Það kostar einnig sitt að gera eina marengs-ávaxtaköku eða heitan rétt :)
nr 3 - Þetta er BETRA en tiramisu útí  búð...

Jú, uppskriftin er stór en þegar maður er að þessu á annað borð, af hverju ekki gera bara alla uppskriftina og mæta svo með restina í vinnuna eða bjóða vinum í kaffi seinna í vikunni. Þetta endist vel í ískáp (4-5 daga).

Í mörgum uppskriftum sem ég skoðaði voru eggjahvíturnar nýttar með. Ég stóðst samt ekki mátið þegar ég las uppskrit frá kokki sem sagði að hands down þá væri þetta LANG besta tiramisu sem hann hafði gert um ævina og væri það sem hann teldi að kæmist næst því sem hafði bragðað á Ítalíu. 
Það var því engin spurning hvort ég ætti að gera þessa uppskrift eða ekki, og ó hvað ég var ekki vonsvikin.

Saumaklúbburinn og samstarfsfólk á Slysó var einnig mjög ánægt með afraksturinn :)

Fyrsti hlutinn er svoldið tímafrekur..

Setja þarf egg og sykur yfir heitt vatnsbað (vatnið við það að sjóða) og "elda" eggin+sykur í 10 mínútur... Það verður að hræra stanslaust á meðan 

Blandan breytir um lit og verður ljósari 


Síðan þarf að þeyta upp blönduna þar til hún verður pastel gul á litinn



mascarpone osturinn er hrærður uppí öskjunni og þeyttur samanvið 

því næst er þeytta rjómanum blandað saman við, leggið hér frá ykkur þeytarann og notið sleif

hér er óhætt að smakka.. nokkrum sinnum ! 
hellið upp á 4faldan espresso, eða sterkt kaffi sem fyllir upp í ca 3/4 bolla 

áður en samsetningin hefst 



ladyfingers er snögglega dýft ofan i kaffið og lagt í botninn

mascarponeblandan er sett ofaná, annað lag af ladyfingers þar ofaná og endað á mascarponelagi 

geymist inní ískáp í amk 4 klst áður en borið fram, stráið kakó yfir með sigti rétt áður en borið er fram 



Uppskrift (fyrir 10-15, fer eftir öðru meðlæti)


6 eggjarauður
1 bolli sykur (250ml)
2 öskjur af mascarpone osti 
1 3/4 bolli rjómi (óþeyttur)
1 pakki (320-350 gr) Ladyfingers 
1/2 bolli espresso eða sterkt kaffi
1/4 bolli sterkt áfengi (Dökkt romm, Amaretto, Kaluha eða Brandý) - Sé áfengi sleppt, bætið þá við 1/4 bolla af kaffi við í staðinn
kakó 

Aðferð: 

-Blandið saman eggjum og sykri í skál yfir sjóðandi vatni. Hrærið stanslaust í blöndunni í 10 mínútur. 
-Þeytið upp eggjablönduna þar til hún verður pastel-gul á litinn
-Takið mascarpone ostinn, hrærið hann aðeins upp í öskjunum og bætið svo útí eggin. Þeytið vel saman
-Rjóminn er stífþeyttur og blandað saman við ostablönduna. Ath að hér er þeytaranum lagt og notuð sleif tl að blanda saman
-Ladyfingers er rétt svo dýft ofan í kaffið (eða kaffi + líkjör). Það þarf EKKI að láta kökurnar blotna í gegn, heldur bara að báðar hliðar komi í snertingu við kaffið. 
-Tiramisuinu er raðað upp þannig. Ladifingers - Mascarponeblanda - Ladyfingers - Mascarponeblanda. 
-Látið bíða í ísskáp þar til það er borið á borð. Rétt áður en rétturinn er borinn á borð er kakói stráð yfir í gegnum sigti svo að það þeki réttinn. 

ENJOY ! :)






SHARE:

þriðjudagur, 4. október 2011

karamellu og bananabaka !

Þessi-kaka-er-geðveik!!! (bara svo þið vitið það !) 

jæja
þá er best að byrja að segja ykkur meira frá henni. 
Uppskriftin kemur úr bókinni hans David Lebovitz  sem er ein af mínum uppáhalds köku/eftirréttabókum.

Það er einnig alltaf kostur þegar kökur þarf að gera með smá fyrirvara (þá er ekkert stress þegar það líður að matarboðinu að maður þurfi að útbúa eftirrétt á síðustu mínútu ásamt aðalrétt) og einnig er hægt að gera þessa köku deginum áður og geyma að setja rjómann þangað til síðustu mínútu (bakan geymist í 2 daga í kæli áður en rjóminn er settur á og bökuskelin sjálf ef þið kjósið að gera hana sjálf, geymist í 4 daga í kæli áður en karamellublandan er sett ofaní)

Þessi kaka er svo sannarlega með karamellubragði, en það besta er að karamellan (þó mikil sé) er ekki svakalega þung og mikil svo að það er allt í lagi að fá sér ágæta sneið af kökunni :) 
Galdurinn er að í karamellunni er mjólk en ekki margir desilítrar af rjóma. 

í heild er uppskriftin auðveld, en hana þarf þó að lesa vel til þess að gera allt rétt. Hún er nefnilega svoldið óvenjuleg. 

Hér eru eiginlega engar myndir af því hvernig ég gerði uppskriftina og eina ástæðan er sú að þetta gerðist allt svo hratt og mér fannst þetta svo spennandi að ég hafði engan tíma til að taka myndir ! ég lofa því að reyna að skrifa þetta skýrt niður fyrir ykkur 





hugmyndin af bökunni kom frá þessari bökuskel sem ég keypti í Kosti í sumar !  Vonandi fást þær ennþá, en ef ekki þá læt ég uppskritina af kexbotninum fylgja með. Auðvitað ÞARF ekki að hafa súkkilaðikexbotn ef þið finnið annarskonar bökuskel. 

bananarnir og karamellan komin í bökuskelina

sætur rjómi og súkkilaðispænir yfir 

óóóóó !!!!  
Uppskrift: 

Bökuskel 
(í 25 cm bökuform)

180 gr malað súkkulaðikex (ef það er krem á milli þá þarf að taka það af)
3 msk sykur
4 msk bráðið smjör

Aðferð:
-smyrjið formið, blandið saman súkkulaðikexinu (möluðu) sykri og smjöri og þrýstið blöndunni í botninn og upp í hliðar á bökuforminu. Kælið í 30 mínútur og bakið svo í ofni á 175°C í 10 mínútur.


Fylling: 

215 gr púðursykur
30 gr smjör
3 msk (25 gr) maizenamjöl
375 ml nýmjólk
1/2 tsk salt
3 eggjarauður
1/2 tsk vanilluextract
3 þroskaðir bananar

Aðferð:
-Bræðið smjör og blandið því saman við púðursykur, setjið í skál og setjið sigti yfir skálina, setjið þetta svo til hliðar
-í bolla, hrærið maizenamjölið útí smá af mjólkinni. Í potti, hitið restina af mjólkinni með saltinu þangað til að blandan er við suðu og hellið þá maizenamjölsblöndunni útí. Sjóðið þar til blandan þykknar.
-Hrærið eggjarauðurnar saman í skál og hellið smá af heitri mjólkurblöndunni útí eggin. Hellið svo þeirri blöndu aftur útí heita mjólkina og hrærið þar til að blandan þykknar enn frekar (þetta endar á að verða svoldið eins og hrært majones.
-Hellið blöndunni í gegnum sigtið, ofan í púðursykurblönduna, bætið vanilluextract við og hrærið vel saman. Sykurinn bráðnar (ef þið eruð hrædd við sykurkekki í blöndunni, sigtið blönduna aftur).
-Skerið bananana niður í 6 mm sneiðar og dreifið yfir kexbotninn (ég notaði aðeins rúmlega 2 banana en það fer eftir smekk). Hellið blöndunni yfir bananana, setjið plastfilmu yfir kökuna og geymið hana í kæli í amk 2 klst áður en rjóminn er settur ofan á og borin á borð.


Topping:


250 ml rjómi
1 msk sykur
1/2 tsk vanilluextract
súkkulaðispænir til skreytingar

Aðferð.
-Þeytið rjómann þar til hann fer að þykkna, bætið sykri og vanilluextract útí og þeytið rjómann til fulls.
-Dreifið yfir bökuna og skreytið með súkkulaðispænum


ENJOY



SHARE:

mánudagur, 28. febrúar 2011

Sticky toffee pudding - Döðlukaka með heitri karamellusósu

Ég kynntist þessum eftirrétt í bretlandi en þessi réttur er mjög vinsæll þar á öllum veitingastöðum og hægt er að kaupa margar tegundir af þessari köku tilbúnni í búðum, oftast í plastílláti með sósunni undir kökunni og þessu er svo stungið inní örbylgju til að hita réttinn.


Ég hef reyndar bara gert þetta 1x áður en þetta er alveg dísæt og þétt kaka með enn sætari sósu

Hér kemur uppskriftin


150 gr döðlur, saxaðar frekar smátt
200 ml sjóðandi heitt vatn
1 tsk matarsódi
60 gr smjör (helst lint)
60 gr sykur
2 egg
150 gr hveiti
1,5 tsk lyftiduft

Aðferðin er ekki flókin:
-saxið döðlurnar og látið í vatnið + matarsódann og látið standa í 10 mín eða á meðan þið gerið deigið
-Deigið er gert þanig að smjör og sykur er þeytt saman í hrærivél eða handþeytara þar til að það er orðið ljóst og svoldið fluffy, þá er eggjunum bætt saman við einu í einu og þeytt vel á milli.
-Að lokum er hveitinu og lyftiduftinu bætt saman við og döðlunum + vatninu helt saman við líka og hrært saman þar til að það er orðið slétt og fínt.

Eins og þið sjáið á myndinni þá nota ég ekki lítið ferkanntað form eins og vanalega er gert heldur lítil form sem ég keypti í Söstrene Grene fyrir mörgum árum. Hægt væri líka að nota Créme Brulée form eða einfaldlega kringlótt form.

Þetta er bakað í 20-30 mínútur í miðjum ofni á um 180 °C eða þar til að prjóni sem stungið er í miðjuna kemur ekki blautur út. Það er þó í lagi að rakir,klístraðir kökumolar séu á prjóninum.

Þegar kakan er heit eða volg, hellið sósunni yfir og berið fram

karmellusósuuppskrift:

200 gr smjör
400 gr púðursykur
250 ml rjómi
1 tsk vanillu extract


Allt sett í pott og soðið í 5 mínútur
SHARE:

þriðjudagur, 22. febrúar 2011

Indverkst matarþema - uppskrift af Butter Chicken !

Jæja, þá er komið að því að útskýra aðeins hvað er hérna á myndunum :)

Fyrst sýni ég ykkur hvernig ég gerði Butter Chicken en það þarf að byrja á því að gera hann daginn áður enda þarf kjúklingurinn að marinerast yfir nótt í jógúrt-kryddleginum. 

Til að spara smá pening keypti ég kjúklinga upplæri og úrbeinaði tilblands við kjúklingabringur. Satt best að segja komu lærin betur út hvað varðar áferð og bragð og mun ég ekki reyna að gráta út pening fyrir kjúklingabringum næst þegar ég geri þennan rétt.
Það er að vísu örlítið vesen að úrbeina lærin, taka af þeim skinnið og fituhreinsa, auk þess að skera þau niðrí bita en ef tíminn er ekki vandamál þá myndi ég gera það. 

Það fyrsta sem maður hræðist í þessari uppskrift eru öll skrefin sem þarf að framkvæma en þau eru í alvöru ekki flókin eða rosaleg þegar það kemur að því að gera þetta allt. Það var í raun afskaplega gaman að leggja smá vinnu í þennan góða mat

annað sem maður hræðist eru fjöldinn af kryddtegundum sem þarf að nota í þennan rétt. 
Þessi krydd fást öll í flestum búðum (sum þó aðeins í Hagkaup eða stærri stórmörkuðum). Það var eitt "krydd" sem ég fann ekki í venjulegri búð en það var Kardimommufræ (cardamom pods) en þau fann ég í Asíska markaðnum hliðina á Nings á Suðurlandsbraut. Ef þið finnið þetta ekki þá myndi ég benda ykkur á að googla cardamom pods substitute í staðinn og sjá hvort að kardimommuduft virki ekki jafn vel í staðinn

en þá hefst fjörið
(athugið að ég gerði 2falda uppskrift fyrir 6 fullorðna. Einföld hefði kannski dugað fyrir um 5 + meðlæti)


Dagur 1:



1 Bolli hreint jógúrt + sítrónusafa er blandað saman. Útí það er settur hvítlaukur (maukaður, kraminn eða rifinn á microrifjárni eins og ég gerði) + engifer sem þarf að rífa á járni (hann er alltaf töluvert trénaður annars og ekki vinsælt að fá það uppi sig í svona rétti).
Einnig er tómatmauki,  paprikukryddi, Garam masala (tilbúið krydd) og muldum kardimommum (einnig tilbúið krydd).





Nærmynd af kryddum, hvítlauk, engifer og tómat 




í einfalda uppskrift á að nota 3-4 bringur eða samsvarandi magn af annarsslags kjúklingakjöti


öllu er svo blandað saman



verður fallega bleik-rautt á litinn


og svo geymt og gleymt inní ísskáp þar til daginn eftir ! 

Dagur 2:


Réttsælis frá kardimommufræjunum er :
Kardimommufræ, pipar, sykur, chilliduft, engifer, salt og paprikuduft. í miðjunni er svo kanill.
Ath... hér er ekki verið að fara að baka köku. Seriously !
já og rétturinn mun heldur ekki bragðast eins og kaka ! 

Hér hefst fjörið sem er svo framandi.
Búa þarf til nokkuð bragðsterkt, tómatkryddmauk til að blanda útí jógúrtblönduna sem útbúin var deginum áður. 

Lauk, hvítlauk og engifer er svissað aðeins á pönnu. Þarf alls ekki að brytja það smátt, enda á eftir að mauka þetta allt saman eftir smá stund. Tómatasósunni (passata - fæst í fernum í Bónus eða brytjaðir tómatar í dós sem ýtt er í gegnum sigti) er helt útá og að lokum öll þessi krydd sem þið sjáið á myndinni hér fyrir ofan, á myndina vantar reyndar lárviðarlauf og karrý




Þetta er allt svo soðið saman í smá stund og síðan skellt í blandara og 


 víííí!!!!!!




Þegar maukið lítur svona ut í mixernum þarf að losa sig við stóra hluti og annað sem hefur ekki mixast nógu vel. Það er gert með því að skella sigti ofan á skál og þessu hægt og rólega þrýst í gegn. 



þetta tekur lengri tíma en ég hefði viljað... djöfull var ég orðin óþolinmóð þarna þegar hingað var komið í að kremja þessu í gegn, en þetta hafðist og það var ekki meira eftir en þetta ! :)



Þá hefst samsetningin mikla. 

Smjör er brætt á pönnu og kjúklingnum í allri jógúrtmarineringunni er helt útá og hrært í þar til þetta fer að hitna vel. 

Eftirleikurinn er auðveldur eftir þetta allt saman

Kryddmaukinu sem búið var að neyða í gegnum sigtið er helt útá og rjómaskvettu skellt með og allt hitað vel og soðið þar til að kjúklingurinn er klár




Borið fram í skál og ég kaus að setja ferskan kóríander yfir en það var algerlega mín hugmynd.. (bara af því að ég elska kóríander!) 


Fáránlega skemmtilegt að elda þennan mat og rosalega gaman að fá gesti í svona framandi og bragðgóðan mat.

Það kom mér á óvart hvað rétturinn small saman þegar allt var komið á pönnuna og þurfti ekki að bragðbæta neitt eins og maður er oft að gera í rétt lokin. 

ATH að upprunanlega er kjúklingurinn grillaður í jógúrtsósunni áður en honum er blandað saman við maukið en ég kaus að nota uppskrift sem gerði það ekki. Sparar aðeins fyrirhöfnina :) 


Meðlætið var ða sjálfsögðu NaanBrauð en uppskriftina má finna hér á síðunni eða HÉR


Allt að smella saman í eldhúsinu 


Pottarnir rétt áður en allt var sett á borð



Saffran Hrísgrjón 



Bombay Aloo 


Matarborðið 


Sticky toffee pudding 



Þetta blogg fjallar aðeins um Butter Chicken en hinar uppskriftirnar munu koma hér síðar. 
Ef þið eruð að skoða þessa síðu löngu eftir að þessi færsla var skrifuð þá munið þið finna þessar uppskriftir í viðeigandi flokkum vinstra megin á síðunni :)


Uppskrift :

Dagur 1: 

3-4 kjúklingabringur eða samsvarandi magn af kjuklingakjöti 

1 bolli hreint jógúrt 
1.5 tsk sítrónusafi 

1/4 tsk kardimommur (ekki dropar)
1/4 tsk Garam Masala
1/2 tsk paprikukrydd
1 tsk marinn, kraminn eða rifinn hvítlaukur
1 tsk rifinn engifer 
1 msk tómatpúrra 

- Öllu blandað saman og hellt yfir kjúklinginn
-geymt í ískáp yfir nótt 

Dagur 2:

1 stk laukur, gróft saxaður
5 hvítlaukrsif, söxuð 
3 msk matarolía
1 cm langur bútur af engifer, saxaður
1,5 bolli tómatasafi (passata)

3 lárviðarlauf 
1 tsk karrý 
1 tsk paprika (duft)
1 tsk salt
1 tsk sykur
1/4 tsk negull 
1/4 tsk kanill
1/2 tsk chilli krydd eða Cayenne pipar
pipar á hnífsoddi


-Laukur, hvítlaukur, engifer steikt saman á pönnu í 2-3 mínútur og svo tómatasafa + kryddum bætt útí og látið sjóða í smá tíma 
-Blandað í mixer þar til það virðist blandað saman +haha+
-sett í sigti og allt drasl sigtað frá 


til að setja réttinn saman

-3 kúfaðar skeiðar af smjöri bræddar á pönnu. 
-Kjúklingnum er bætt útá og hitað þar til það fer að sjóða
-Kryddmauki bætt útá + 1/4 bolla af rjóma og soðið þar til kjúklingurinn er tilbúinn


og SVONA gerið þið Butter Chicken 

auðvitað langar mig svo að heyra í ykkur ef þið leggið í tilraunaeldamennsku heima hjá ykkur :)



SHARE:
Blog Design Created by pipdig