sunnudagur, 6. október 2019

Kjötsúpa


Góða, kjarngóða íslenska kjötsúpan....

Þessi súpa hefur eflaust haldið lífinu í mörgum Íslendingnum í gegnum tíðina. Súpan er einföld og tekur ekki lengri tíma en um klst að elda.
Það er ekki betra að sjóða súpuna. Á endanum ertu bara að gera kæfu úr kjötinu og það þarf ekki meiri suðu en um þessa rúmu klst.


Uppskrift:

3 lítar  vatn
1,5-2 kg súpukjöt
1/2 dl hrísgrjón (má sleppa)
2 msk salt (og örlítill hvítur pipar)
5-8 gulrætur
8-10 kartöflur
1-2 rófur (smáar)
1/4 hvítkálsshaus
1 laukur
1 dl súpujurtir

Aðferð: 

-Skolið af kjötinu og setjið í pottinn ásamt 3 lítrum af vatni. Á meðan suðan er að koma upp er eðlilegt að brún froða myndist ofan á. Takið hana í burtu með skeið eða ausu jafn óðum og hún myndast. Sjóðið í 45 mínútur
-Á meðan kjötið sýður undirbúið grænmetið. Reynið að hafa í huga að hafa grænmetið í þeirri stærð svo það passi í skeið.  Skerið gulrætur í ca 5 mm þykkar sneiðar (ef gulræturnar mjög sverar skerið þær þá til helminga eða í fjórðunga fyrst), rófurnar í teninga, kartöflurnar skræliði og skerið í teninga, laukinn skerið þið í litla bita (mun smærri en annað grænmeti) og hvítkálshausinn í teninga.
-Þegar 45 mín eru liðnar af suðunni á kjötinu setjið þið þá 1 dl af súpujurtum útí, laukinn, kartöflur, rófur, gulrætur, salt, örlítinn hvítan pipar og ef þið viljið, 1/2 dl hrísgrjón (þau voru oft sett til þess að drýgja súpuna en margir eru vanir því að hafa hrísgrjón í súpunni sinni)
-Súpan soðin áfram í ca 15-20 mínútur.
-Að  suðutímanum liðnum hef ég vanalega tekið kjötið uppúr og dundað mér við að tína það af beinunum, hreinsa í burtu sinar og fitu, rífa í smærri bita og set þá svo aftur ofaní.
-Það er ekkert leyndarmál að súpan sé betri daginn eftir. Hún er það svo sannarlega... og hún er líka góð 3-4-5 daga eftir að hún hafi verið útbúin. Geymið hana bara í ísskáp í lokuðu íláti og hitið bara upp þá skammta sem þið ætlið að taka af henni. Sem sagt, reynið að hita hana ekki alltaf alla og kæla svo aftur (svo má alltaf setja súpuna í smærri skammta í box og frysta)

Ath ...
Svona hef ég helst viljað borða kjötsúpu. Hafa hana tilbúna í skál eins og ég ber hana á borð.
Sumir eru vanir því að fá súpuna sér og svo kjöt, kartöflur og rófur á disk hliðina á og borðar það þá súpuna og matinn til skiptis eða brytjar kjöt, kartöflur og rófur sjálft út í súpuna.










SHARE:
Blog Design Created by pipdig