mánudagur, 17. ágúst 2015

Appelsínukaka með rabbabara


Þó svo að það sé enn miður ágúst er haustið farið að narta ansi í kinnarnar á manni.

Í mikilli rigningu og haustlegu veðri um daginn og við mæðgurnar enn í sumarfríi og afráðið var að baka köku.

Þessi kaka er mjúk, ekki þurr og skemmtileg tilbreyting frá rabbabarakökum sem maður er vanur að fá :)

Uppskrift: 

125 gr smjör
200 gr sykur
2 egg
1 tsk vanilludropar/extract
raspað hýði af 2 appelsínum
300 gr hveiti
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
300 gr rabbabari
125 ml mjólk

Aðferð: 

-þeytið saman í hrærivél eða handþeytara smjör og sykur þar til það hefur lýst.
-Bætið við eggjum, einu og einu í einu og þeytið mjög vel á milli. Þeytið áfram í um 2 mín eftir að seinna eggið er komið útí.
-Bætið við appelsínuberkinum og vanilludropunum og blandið saman
-Setjið útí hveiti, lyftiduft, matarsóda og mjólk og hrærið saman þar til að þetta er orðið að samfelldu deigi. Ekki hræra lengur en mögulega þarf
-Setjið deigið í kringlótt smelluform sem er spreyjað eða smurt.
-Stráið niðursöxuðum rabbabara yfir kökuna og bakið hana við 180 °C í 45-50 mín eða þar til hún er bökuð í gegn.
-Æðisleg volg með rjóma eða ís.


 

Punktar 

-það er vel hægt að sleppa rabbabaranum, kakan er gríðarlega góð án hans. Væri hægt að gera glassúr úr appelsínusafa, appelsínuberki og flórsykri
-ég á alltaf niðursaxaðan rabbabara í pokum í frysti. Það er ekkert mál að nota frosinn rabbabara í rétti eða til að gera rabbabaragrauta, sultur ofl yfir allt árið


SHARE:
Blog Design Created by pipdig