miðvikudagur, 19. desember 2012

Jólagjafaleikur 2012

Þetta árið fer jólagjafaleikurinn alfarið fram í gengum Facebook síðu Ragna.is

Ástæðan er ekki sú að ég ætla að leggja áherslur mínar á þá síðu, heldur er hún ágætur vettvangur til að kynna bloggið :)

ólíkt öðrum facebook-leikjum sem eru í gangi þessar vikurnar þá þarf engan veginn að deila síðunni eð myndinni til að geta tekið þátt.

Þið þurfið einungis að kommenta á þessa mynd á facebook síðunni



og þið verðið að hafa like-að Ragna.is facebook síðuna 

Allar upplýsingar um hvernig skal taka þátt standa við myndina á facebook 

that's it :) 


22. desember kl 22 mun ég svo draga út þann heppna og reyna að koma til hans jólagjöfinni fyrir jól :) 

(hver sá sem kommentar mun fá sitt númer og mun ég svo nota random number genereator til þess að draga út þann sem vinnur) 






SHARE:

mánudagur, 17. desember 2012

Fréttir

Já, þetta ástand á mér er einn partur af bloggleysinu sl mánuði :) 

Lífið er ansi gott. Bíð spennt eftir 1. janúar eða 2013 eða.... já ég veit ekkert hvenær krakkinn kemur! :) 

Meðgangan gengið eins og í sögu, eldspræk, engir fylgikvillar so far og bumbus dafnar vel svo ég viti til :) 


38v, nýkomin heim eftir að hafa sungið á jólatónleikum 

SHARE:

Salthnetusmákökur með smarties

Jæja !
Þessar eru auðveldar og alveg súper fljótlegar !

öllu hent í skál og blandað saman... that's about it :)
Mesti tíminn fer í að hnoða þessu saman í litlar kúlur.
Þess vegna geri ég þessar kökur stundum sem stærri kökur og kalla þær amerískar M&M kökur... Bara af því að það er mun betra fyrir sálin að borða bara eina köku (sem er þó stærri... haha) í stað margra lítilla.

Það er samt fátt jólalegt við þessar kökur. Það sem best væri, væri ef hægt væri að kaupa bara rautt og grænt mini Smarties eða M&M og þá yrðu kökurnar aldeilis jólalegar ! :)

En í bili þá höfum við þær bara í öllum regnbogans litum og borðum um jólin.
Það er líka hvort sem er allt of mikið af negul-engifer-piparköku-smákökum og lakkrístoppum sem við innbyrðum hvort sem er :)
Öll þurrefni sett saman í allt of litla skál 


Blautefnum bætt útí þegar búið er að skíta út aðra stærri skál :) 


Hnoðað saman og mótaðar kúlur. 


Uppskrift:
Gerir um 70 smákökur

2 2/3 bollar hveiti
2 tsk matarsódi
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
1 bolli haframjöl
1 bolli lítið smarties eða súkkulaðiperlur frá Nóa Síríus
1 bolli salthnetur
1 bolli púðursykur
1 bolli sykur

250 ml bráðið smjör (um 200+ gr)
2 egg (ekki lítil)
2 tsk vanilludropar/extract

Aðferð: 
-Blandið öllum þurrefnum saman í skál
-Bætið blautum efnum saman við og hrærið létt saman með sleif og klárið svo að hnoða þetta saman í höndunum.
-Mótið litlar kúlur og raðið á pappír
-Bakist við 180°C á blæstri á 2-3 hæðum í 12-14 mínútur þar til þær hafa náð karamellulit



Svo verð eg að muna næst að taka myndir af kökunum áður en þær klárast ! :)


SHARE:

miðvikudagur, 21. nóvember 2012

Kalkúnn

Þakkargjörðin, hin bandaríska hátíð þar sem iðulega er snæddur er kalkúnn er á morgun.
Þess vegna er við hæfi að benda ykkur á kalkúnauppskriftina mína 






SHARE:

Ofnbakað Rósakál






Ég held að það tíðkist vanalega hjá fjölskyldum að sjóða rósakál í léttsöltu vatni og jafnvel smá smjöri.
Ég man reyndar að einu sinni fannst mér rósakál alveg skeeeeelfilega vont. En núna finnst mér rósakál alveg ómissandi með hátíðarmat og elda það jafnvel einnig með ofnsteiktum kjúkling.


Þið sem hafið verið á móti rósakáli og fundist það vera ekkert spes, endilega prufið þetta !

Hafið rósakálið helst ófrosið, setjið það á klædda ofnplötu

Á meðan rósakáið eldast/brúnast, sjóðið niður balsamik edik og sykur

Uppskrift: 
Fyrir 6 

2 pokar frosið rósakál
matarolía

salt og pipar
1.5 dl balsamik edik 

0.75 dl sykur


Aðferð:
-Setjið afþýtt rósakál á klædda ofnplötu (einnig hægt að nota ferskt rósakál en það er oft erfitt að fá það ferskt og gott nema í kringum hátíðarnar. Passið ykkur ef þið kaupið ferskt rósakál að plokka af blöð sem virðast visnuð eða gulnuð.
-Hellið olíu yfir, saltið og piprið (ég nota fínmalaðan hvítan pipar)
-Skerið stóra rósakálshnausa í tvennt.
-Bakið við 180-190°C í 30 mínútur, veltið við eftir þörfum á um 10 mín fresti þar til hausarnir eru orðnir gullinbrúnir á nokkrum hliðum
-Á meðan rósakálið er inní ofni, setjið þá sykur og balsamik edik saman í pott og sjóðið niður á um 10-15 mínútum eða þar til að það líkist orðið karamellu eða sírópi. Ef það kólnar um of áður en rósakálið er tilbúið, hitið það þá aðeins.
-Þegar rósakálið kemur út, hellið þá balsamik sírópinu yfir og berið fram :)

ath
það er aaaafskaplega gott að setja steikt beikon saman með sem er smátt niðurskorið.







SHARE:

fimmtudagur, 15. nóvember 2012

Perukaka



Auðveld kaka



án gríns

-ekkert smjör sem þarf að þeyta með eggjum
-þarf ekki þeytara eða hrærivél
-átt oftast allt til í hana
-getur gert með mjög litlum fyrirvara ef gesti ber að garði

Þetta er mjög svipuð kaka og skyndikökunum sem við svo mörg þekkjum en þessi er aðeins öðruvísi þar sem að í þessari eru ekki kokteilávextir eða kókos og púðursykur sett ofaná.
Auðvitað má samt setja kokteilávexti í staðinn fyrir niðursoðnu perurnar... og það er einnig alveg gríðarlega gott að setja niðursoðnar ferskjur ! mmmm

Uppskrift fyrir 8-10
-passar í stórt kringlótt smelluform
Ef þið ætlið að setja kökuna í venjulegt eldfast mót gæti verið gott að minnka uppskriftina aðeins svo hún taki ekki rúma klst í baksri 

3 egg
1 bolli (250 ml) matarolía
1 + 3/4 bolli sykur
2 bollar hveiti
1 tsk salt
1 tsk matarsódi
1 tsk kanill
1 stór dós niðursoðnar perur skorið í bita  (eða ferskjur eða blandaðir ávextir)

Auk þess má setja 1/4 bolla af valhnetum + 1/4 bolla af rúsínum ef þið viljið :)

Ofaná:

flórsykur
vatn
smá vanilludropar

magnið fer eftir smekk :)


Aðferð:

-Setjið egg, olíu og sykur saman í skál og hrærið saman
-Bætið þurrefnum saman við
-hrærið saman
-Skerið perurnar í bita og blandið saman við deigið
-spreyið kringlótt smelluform vel, hellið deiginu í og bakið við 180°C í 45-55 mínútur (fylgist vel með undir lokin)
-Þegar kakan er tilbúin, látið hana kólna aðeins, hellið glassúrnum yfir og berið fram volga með ís eða þeyttum rjóma
Egg, sykur og olía sett saman í skál 

hrært saman 

þurrefnum bætt saman 

hrært saman

perur skornar í minni bita 

bætt saman 

inn í ofn og svo hefst þolinmæði 

látið kólna aðeins áður en þið setjið glassúr yfir

mmmm!!!!!!!! 




Svo er einnig frábært að fá nokkrar til þess að aðstoða mann við að borða kökuna :) 


enjoy ! :)

SHARE:

laugardagur, 3. nóvember 2012

Fyllt gerhorn / Skinkuhorn

Gömul klassík 
Fyllt gerhorn
Já eða skinkuhorn ! :) 

Fer allt eftir því hvað þið eruð vön að kalla þetta. En þar sem ég set hinar ýmsar  fyllingar í mín horn þá á nafnið "skinkuhorn" ekki alltaf við :) 
Hef oft verið spurð að uppskrift af svona hornum en tjah... Ég í fyrsta lagi geri þau ekki oft og eins og svo margar brauðuppskriftir, þá hendi ég bara einhverju saman í skál og kalla það gott ! :) 
Var um daginn með leshring Bráðahjúkrunarfræðinga heima hjá mér og hitti það akkúrat á Viku Bráðahjúkrunar svo ég skellti saman í Tiramisu, Snúðasnúning (Rögnusnúða gerða eins og Pekanhnetuhringinn nema með súkkulaðikremi ofaná) og Fyllt gerhorn.



Notaði tækifærið og fór loksins eftir uppskriftinni sem ég á en ég gerði auðvitað aðeins öðruvísi fyllingu en ég hef vanalega gert. Bara svona til að prufa eitthvað nýtt. :) 

Byrjið á að setja volgt vatn í skál, sykur og ger og látið standa í 10 mín en þar til gerið er farið að freyða aðeins.
Hnoðið svo restinni saman og bætið í hveiti eftir þörfum ef þið þurfið en þetta ætti að vera nokkuð passlegt.
Látið á volgan stað eða setjið skálina í heitt vatn í 40 mínútur. 

Hér getið þið ráðið hvað þið gerið mörg horn.
upprunanlega uppskriftin segir að maður eigi að skipta deiginu í 2 hluta og hvern hluta skal skera í 8 geira.
Eins og þið sjáið, þá skipti ég deiginu í 5 hluta og hvern hluta í 6 geira.
Ástæðan er sú að ég vildi fleiri og minni horn þar sem mér finnst oft og mikið að hafa hornin of stór og maður fær sér frekar fleiri horn ef maður vill meira í stað þess að sitja uppi með stór horn :) 


Uppskrift: 
16 stór horn eða í kringum 30 minni

2 dl volgt vatn
3 1/2 tsk þurrger
1 tsk sykur

1 tsk salt
2 msk olía
5 dl hveiti

Fylling
Pizzasmurostur nýtt (um hálf askja)
hvítlauksgeiri
reykt skinka, skorin smátt (um 6 sneiðar)

Aðferð:
-Setjið volgt vatn, ger og sykur í skál og látið standa í 10 mín eða þar til gerið fer aðeins að freyða. Bætið restinni af innihaldsefnum saman við og hnoðið þar til deigið er slétt og vel saman sett. Má vera aðeins klístrað og er það í rauninni betra en að hafa það of stíft og seigt :)
-Látið lyfta sér í 40 mínútur.
-Sláið deigið niður, skiptið því í búta eftir því hve mörg horn þið viljið gera, fletjið út í hring sem er svipað og pizzabotn á þykkt og skerið með pizzaskera í 6-8 geira. Ath ef kökurnar eru í minni kanntinum þá eru 6 geirar passlegir og í sumum tilfellum 4 alveg nóg.
-Setjið fyllingu á miðja kökuna, nær breiðari kanntinum á geiranum og rúllið í átt að mjórri endanum. Gætið að klípa vel saman endnum sitt hvorum megin við fyllinguna svo minna leki út af henni en það er vanalega eitthvað sem gerist no-matter-what :)
-Raðið á plötu þannig að það sjáist í mjóa hluta geirans og endana sem þið hafið klemmt saman lagið þið aðeins til svo fylltu hornin ykkar líti út eins og fyllt horn :)
-Bakið við 180°C á blæstri ef þið eruð með ofn sem býður upp á það í um það bil 10-15 mínútur (satt best að segja, þá þarf ALLS ekki að baka svona horn mikið. Bara fá þau létt brún!)

Punktar
-Sumir vilja pensla horn með eggi og strá birkifræi ofan á... það er alveg option ef þið viljið :)
-Bakið tvöfalda uppskrift og frystið. Alger snilld og þið getið hitað hornin upp með því að skella þeim frosin í ofninn þegar gestir koma og glansað af myndarheitum þegar gestirnir koma! :)
-Ath, hornin þurfa ekki að líta fullkomnlega út. þau eru alveg nógu góð til að standast útlitsgagnrýni :)

Hugmyndir af fyllingum! 

Sveppaostur, skinka og graslaukur
Rækjuostur og sinnep
Epli og kanilsykur
Paprikuostur og paprika
Skinkumyrja og skinka
Pepproni og rifinn mozzarella


Enjoy !


SHARE:

sunnudagur, 28. október 2012

Brauðsúpa




uppskriftin er svoldið slumpuð en læt hana koma svona ca hérna vegna fjölda fyrirspurna... 
300 gr rúgbrauðskubbur, skorinn í bita, soðið í potti með rúmum 1L af vatni í 15 mínútur. 1 msk kakó og 2 msk sykur/púðursykur eða eftir því sem þið viljið. Sett svo í blender eða matvinnsluvél (ekkert vesen með að leggja þetta í bleyti áður s.s.) og blandað þar til allt brauðið er orðið að mauki. Soðið upp aftur. Ef þetta er of þykkt, bætið þá vatni, ef þetta er of þunnt, reddið þið ykkur með maizenamjöli+vatni og þykkið.
Gott að setja sítrónusneið útí og sjóða með eða sítrónudropa. Rúsínur settar útí og látið malla þar til þær eru mjúkar. Borið fram með nóg af þeyttum rjóma!
SHARE:

mánudagur, 3. september 2012

Red Velvet Cupcakes/Bollakökur

Þessar rauðu kökur eru mjög vinsælar í bandaríkjunum og hef ég nokkrum sinnum gert Red Velvet köku sem köku í tveim lögum og með kremi á milli.
En aldrei gert bollakökur áður.

Eins og venjan er, er svo rjómaostakrem sett ofan á og finnst mér fallegast að setja það á með litlum spaða til að fá svona "rough" útlit á kökurnar. Í staðinn fyrir fullkomnlega slétt eða ásprautað krem.

Kökurnar er í sjálfu sér ekki erfitt að gera. En sömu uppskrift er hægt að nota til að gera kringlótta köku í 2 lögum. Það er þó eitt sem þið þurfið að eiga sem ekki allir eiga. Þ.e. gel-matarlit.
Flestir eru nú reyndar farnir að nota svona liti til að lita smjörkrem, sykurmassa og glassúr. En enn eru nokkrir sem hafa ekki kynnst þessu.
Ég hef hingað til verið að nota Wilton litina sem fást í Partý búðinni, Kosti og Húsasmiðjunni t.d. og svo er Allt í köku einnig með gel-liti sem fá góð meðmæli.


Myndin er örlítið yfirlýst og virðast kökurnar ekki vera jafn rauðar og þær eru í raun




Uppskriftin segir 24 kökur. En ég notaði lítil hvít muffinsform (þessi gömlu og góðu sem hafa fengist í 40 ár) og fékk því aðeins fleiri kökur. 

1 bolli : 2.5 dl : 250 ml 

Uppskrift: 

1 1/2 bolli matarolía 
1 1/2 bolli sykur 
2 egg 
1/2 msk rauður gel-matarlitur 
1 tsk vanilludropar/vanillu extraxt 
2 1/2 bolli hveiti
1 tsk salt
1 msk kakó
1 bolli létt súrmjólk (einnig hægt að redda sér með súrmjólk og smá íblandaðri mjólk til að þynna blönduna)
2 tsk edik 
1 1/2 tsk matarsódi 

Aðferð:

- Blandið saman með handþeytara eða í hrærivél sykur og olíu. Hrærið svo eggjunum saman við einu og einu í einu og blandið vel. Hrærið útí blönduna rauða matarlitnum og vanilluextraxt.
-Setjið öll þurrefni útí auk létt súrmjólkurinnar. Blandið saman
-Setjið edikið í skál og matarsídann ofan í (ath þetta freyðir). Bætið blöndunni útí deigið og blandið í 10 sek.
-Setjið deigið í form. Ekki fylla þau meira en til rúmlega hálfs og notið muffinsmót til þess að setja pappírsformin í svo formin haldi lögun.
-Bakið kökurnar í ofni sem er stilltur á 180°C og að sjálfsögðu fer baksturstíminn algerlega eftir stærð bollakakana. En má reikna með um 15-20 mín.

látið kökurnar kólna og gerið svo rjómaostakrem ofaná. 

100 gr rjómaostur
50 gr smjör
1/4 tsk vanilluextract
1 pakki flórsykur (Aðlagið magnið eftir þörf)

Aðferð:

-Þeytið smjör og rjómaost saman
-bætið flórsykri og vanilluextract útí og þeytið í 5 mínútur. 

Setjið á kaldar bollakökur með spaða eða teskeið.


enjoy ! :) 









SHARE:

sunnudagur, 2. september 2012

Jarðarber úr "garðinum"


Já, það er ótrúlega gaman að fara út á svalir og tína jarðarber :) 

mmmmm


SHARE:

mánudagur, 27. ágúst 2012

Bláberjasulta

Að gera bláberjasultu er alveg svakalega einfalt og geta allir gert það án þess að eiga einhvern sérstakan búnað. Það eina sem þið þurfið að eiga eru glerkrukkur og ef þið eigið þær ekki þá er hægt að kaupa þær í Europris, Búsáhöldum, Byggt og Búið, Byko og Húsasmiðjunni svo eitthvað sé nefnt.

Mér finnst að flestir ættu að skella sér í stutta útivist í berjamó einu sinni á ári. Jafnvel þó svo að berjasulta eða hlaup sé ekki það sem þið stefnið á að gera. Það er fyrst og fremst svo gríðarlega mikill peningasparnaður í því að eyða 3 tímum af einum degi í að tína ber.
Bláberin er hægt að frysta í zip-loc pokum í allt að ár og nota svo út í boozt, kökur, búa til bláberjasósu (t.d. á ostaköku) eða afþýða og borða með rjóma eða skella útá skyrið.
Ég hef lesið mér til um margar aðferðir til að frysta ber. Allt frá því að setja berin í glös með vatni og frysta svo glösin til þess að setja sykur útí pokann. Hjá mér hefur það aldrei klikkað að setja berin annað hvort í box eða vel lokanlegan poka. Maður hristir svo pokann eða boxið til áður en maður notar berin og þau losna mjög auðveldlega í sundur.




Bláberjasulta:

Byrjið á að skola berin. Mér finnst best að þrífa vaskinn vel. Fylla hann af ísköldu vatni og setja öll berin útí. Þannir fljóta upp stöku laufblöð, þurr ber og grænber sem ég hef misst af þegar ég hreinsaði berin. Berin veiði ég svo uppúr með sigti og læt á bökunarplötu með eldhúspappír á til þerris í smá stund. 

Uppskrift:
Hlutföllin eru svona sem þið aðlagið svo að því magni af berjum sem þið hafið

ath að mín uppskrift er uppskrift að sykurminni bláberjasultu en þið kunnið kannski hafið kannski kynnst. Það kemur þó ekki niður á bragðinu þó að sykurinn sé aðeins minni :) 

1 kg ber
500 gr hrásykur/sykur
1/2 bréf af bláu Melatin 

Ber og sykur soðið saman í potti í 15 mínútur við vægan hita þar til sykurinn er uppleystur og berin sprungin. Melatin duftinu er hrært saman við 2 msk af sykri og blandað saman við og soðið við vægan hita í 10 mín í viðbót.

Ég tek vanalega eina krukku frá áður en ég bæti hleypinum útí og geymi inní ísskáp, til þess að nota sem íssósu yfir veturinn :)

Hellið sultunni á hreinar krukkur og tyllið lokinu á.

Geymist í rúmt ár í eldhússkáp


í ár notaði ég hvítan sykur... Finnst hrásykurinn þó betri :) 


fjólublátt himnaríki?

Til að lesa um hvernig ég hreinsa krukkurnar þá stendur það í blogginu um Krækiberjahlaupið


SHARE:

sunnudagur, 26. ágúst 2012

Skemmtilegar fréttir :)

Eins og ég hef sagt, þá eru nokkrar ástæður fyrir bloggleysi sl 3-4 mánuði  :)

aðal ástæðan er ég hef haft litla lyst á að elda flókinn mat, búa til uppskriftir og að baka eitthvað sem ég hef ekki gert nokkrum sinnum áður.

og ástæðan er þessi



Hér eru skór fjölskyldunnar, raðaðir upp eftir aldri fjölskyldumeðlima. Það vantar þó enn einstaklinginn sem mun fá þessa litlu og fallegu leðurskó. 

Sá fjölskyldmeðlimur mun vera væntanlegur í kringum 2. janúar 2013 :)







SHARE:

föstudagur, 24. ágúst 2012

Krækiberjahlaup

Ég er það heppin að ég á afa sem er gjörsamlega berjaóður!

84 ára er karlinn að týna tugi lítra af krækiberjum útum allar sýslur og í ár fékk ég 5 lítra af berjum hjá honum. Ég er nú ekki mikið fyrir að borða krækiber ein og sér, en finnst hins vegar krækiberjasaft og krækiberjahlaup algert sælgæti og ákvað því að gera hvorugtveggja í ár. 

Krækiberjahlaup er aðeins meira mál heldur en sultan þar sem við þurfum að nota safann úr berjunum en ekki berin sjálf. Auðveldasta aðferðin er að skella berjunum í gegnum berjapressu og skilja þannig hratið frá berjunum en við sem höfum ekki lagt í svoleiðis kaup getum þrátt fyrir það búið til krækiberjahlaup! (það kostar bara smá vinnu í staðinn)


Grunn uppskriftin er þó svona 

1 líter berjasafi
1 kg sykur 

Þið farið svo eftir þessu þegar þið gerið hlaupið og breytið stærðunum eftir því sem þið hafið af saft, en hlutföllin halda sér 
(Ath að aftan á melatin pokunum er sagt að maður þurfi meira af meltatini en þetta, en þetta er nóg)

Ég byrja allaf á að skola berin og satt best að segja er mér næstum alveg sama þó örlítið lyng læðist með. Það mun alltaf verða sigtað frá hvort sem er.  

Til þess að fá safann úr krækiberjunum eru þau sett í pott og soðið upp á þeim í 20 mínútur. Þau eru ekki eins og bláberin sem springa sjálfkrafa við suðu heldur þarf svo að stappa á þeim með því áhaldi sem ykkur þykir best. Mér finnst best að nota kartöflustappara. Öll berin eru kramin þar til þau springa og gefa frá sér safann.





Þá er hratið sigtað frá með sigti eða með því að strengja taubleyju yfir skál og festa á börmunum með teygju eða bandi og gott er einnig að setja eitthvað ofan á hratið til að mynda smá meiri þyngsli á hratið (meiri safi! :) )


Svona er hægt að kaupa í Byggt og Búið, Húsasmiðjunni, Byko og á fleiri stöðum. 

Þetta læt ég standa yfir nótt.

Daginn eftir mæli ég saftina, helli henni í pott og sýð uppá henni með sykrinum í um 10 mínútur eða þar til sykurinn er uppleystur.

Ef ég vil gera krækibejasaft, þá helli ég henni þarna af og set í glerflöskur sem ég hef geymt (hvítlauksolíuflöskur t.d.) 

útí berjasafann + sykurinn í pottinum set ég Melatín duftið sem ég hef blandað saman við 2 msk af sykri svo að það hlaupi ekki í kekki í pottinum, sýð í 10 mín í viðbót og helli svo safanum í krukkur og loka krukkunum með því að tylla lokinu á.

Varðandi það að sótthreinsa krukkurnar þá hef ég ekki farið í þær aðferðir sem margir nota... S.s. þær að t.d. þvo krukkurnar og setja þær svo í stóran pott fullan af vatni og sjóða þær í einhverjar mínútur, þvo þær og setja þær í 100°C heitan ofn í klst og örugglega til fleiri aðferðir.

Ég einfaldlega þvæ krukkurnar annað hvort í mjög heitu vatni í höndnum eða í uppþvottavélinni og læt þar við sitja.  Ég geymi krukkurnar svo í skáp og geymast þær í rúmt ár án þess að hlaup/sulta skemmist hjá mér og þess vegna hef ég ekki breytt út af þessum vana







Munið að henda aldrei glerkrukkum :)


og 

Munið að vera í svörtum fötum á meðan þið standið í þessu stússi ! (Krækiberjasafi litar!)


Uppskrift af Bláberjasultu Hér
SHARE:

laugardagur, 21. júlí 2012

Pestókjúklingur

Vinkona mín hnippti í mig um daginn og sagði við mig "Ragna, það er MÁNUÐUR síðan þú bloggaðir síðast!" og það er eru þó nokkrir dagar síðan hún sagði þetta við mig.

óó

ég hef haft alveg skelfilega góða ástæðu fyrir bloggleysi sem mun koma fram fyrr en síðar

En... vitiði hvað. Þó svo að eg muni kannski ekki koma með þessa feikna-góðu ástæðu strax þá mun bloggum fjölga aftur núna :)



Bloggið í dag er eitthvað sem ég hef gert í mörg mörg ár en hefur þó auðvitað tekið einhverjum breytingum :) Nú er ég farin að krydda kjúklinginn meira áður en ég steiki hann og auðvitað er allt betra með hvítlauk og þess vegna er hann farinn að sjást með :)

Steikið bringurnar í olíu á pönnu þar til þær eru örlítið brúnaðar á hvorri hlið. Kryddið þær og makið hvítlauknum á þær áður en þær fara í pönnuna (snyrtið þær einnig eins og það virðist oft þurfa að gera, þ.e. takið fitu og himnur í burtu)


raðið bringunum í eldfast mót. Mér finnst betra að hafa þær ekki í allt of stóru móti því að þá er auðveldara að ausa upp olíunni/sósunni uppúr botninum 


setjið eina matskeið af grænu pestói á hverja bringu. Ekki dreifa um of úr pesóinu þa sem það mun annars leka útaf.
Bakið bringurnar í 15 mínútur í 180°C ofni og takið þær þá út, smyrjið pestóinu yfir bringuna (olían hefur lekið mikið til úr pestóinu og það er nú þurrara) og stráið eins mikið af rifnum osti og ykkur langar í. 



Inn í ofn aftur í 10 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og aðeins farinn að brúnast (ég vil hann ekki of brúnan eða stökkan í þessum rétt) 

berið fram með salati og kúskús 



borðið ..
mmmm!!!


Uppskrift:
Fyrir 4 


4 kjúklingabringur
ítölsk kryddblanda
2 hvítlauksrif, rifin eða kramin
Salt og pipar
grænt pestó um 4 msk
rifinn ostur að eigin vali

Aðferð: 
-Snyrtið kjúklingabringurnar, kryddið þær með ítölsku kryddi, salti, pipar og makið hvítlauknum yfir bringurnar báðum megin.
-Steikið bringurnar á pönnu, báðum megin í 2-3 mínútur eða þar til þær eru aðeins farnar að brúnat (þetta gæti einhverjum fundist óþarft og þið megið vel sleppa þessu :) )
-Setjið bringurnar í eldfast mót og setjið eina msk af grænu pestói yfir hverja bringu og setjið inn í heitan ofn á 180°C í 15 mínútur. Takið þá bringurnar út, dreifið úr pestóinu og stráið ost yfir og bakið aftur í 10 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn og byrjaður að verða gullinn og auðvitað ath ef þið eruð ekki viss hvort að bringurnar séu ekki örugglega tilbúnar :) Það á að koma safi úr þeim en hann á ekki að vera ljósbleikur. Glær safi er perfect en enginn safi þýðir ofeldaðar bringur :)
-útí búð fást orðið fjölda margar tegundir af kúskús með ýmsum bragðtegundum. Endilega veljið það sem ykkur langar mest í (við vorum með villisveppa kúskús) eða takið ókryddað kúskus og setjið grænmetistening út í vatnið sem þið eldið það í. Ef þið hafið ekki gert kúskús áður þá skulið þið ekki hræðast það. Það er í rauninni ekkert flóknara en að sjóða rétt magn af vatni á móti réttu hlutfalli af kúskús, slökkva undir pottinum, hella kúskúsinu útí og bíða þar til maturinn er tilbúinn.
-Salatið sem var gert þennan daginn var gert úr íslensku spínati, heimaræktaðri steinselju sem ég á svo mikið af þessa dagana, balsamic-basilikudressingu og parmesan (sem mamma og pabbi komu með frá Ítalíu um daginn)
-Sósu þarf ekki með fyrir þennan rétt þar sem hægt er að nota olíuna sem kemur úr pestóinu til þess að ausa yfir kjúklinginn.


enjoy ! :)

SHARE:

þriðjudagur, 12. júní 2012

Amerískar, stökkar súkkulaðibitakökur

oh já, þessar eru svo góðar.
Reyndar hef ég nokkrum sinnum gert aðra uppskrift sem er mun flóknari, en það þarf að bíða hátt í 3 daga þar til maður má nota degið sem er látið vinna einhverja töfra í ísskáp allan þann tíma. Verð að viðurkenna að vanalega er biðin þess virði enda var sú uppskrift kosin sú besta í New York Times tímaritinu af hópi tilraunakokka sem prufuðu ótalmargar uppskriftir.

En..

Þessi hér er mjög góð og svakalega einföld og fljótgerð. Athugið að þetta er ekki klassíska "subway" kakan sem er hálfbökuð og blaut í miðjunni. Þessar eru bakaðar í gegn og stökkar og flottar. Afskaplega góðar með kaffi og geymast svakalega vel.


Fæ þessa súkkulaðibita í Kosti. Ekki stórir eins og fást í flestum öðrum búðum. Einnig er einnig hægt að taka upp hnífinn og saxa niður suðusúkkulaði :) 

Fyrir bakstur 

Eftir bakstur... mmm ! 

Uppskrift:
gerir 12-15 kökur
(1 bolli eru 2.5 dl)

230 gr smjör
2/3 bolli sykur
2/3 bolli púðursykur
2 egg
2.5 bolli hveiti
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
1 tsk vanillu extract/dropar
2 bollar súkkulaðibitar

Aðferð:


-Sykurinn og smjörið er þeytt vel saman í þeytara og eggjunum bætt saman við einu og einu í einu þar til blandan hefur lýst töluvert.
-Þurrefnum og vanillu extract er bætt saman við og að lokum súkkulaðibitinum. Ath að ef þið eruð að nota handþeytara þá þarf vanalega að bæta súkkulaðibitunum saman við með sleif þar sem deigblandan er mjög mjög þykk.
-Sett á ósmurða og óklædda plötu, inn í ofn á 180°C í 9-12 mín. Tekið út, látið kólna aðeins og flutt svo yfir á grind þar sem kökurnar eru látnar kólna meira (eða ein lengi og þið getið beðið með að fá ykkur     eina)

SHARE:

föstudagur, 8. júní 2012

Eplakaka - gamaldags

Hvar hef ég verið ? Þá það er nú góð spurning :)
Ég hef verið í útlöndum og mikið að vinna og voðalega lítið verið í frumlegum verkefnum í eldhúsinu.
Núna er ég hins vegar komin í sumarfrí og nýt tímans alveg í botn!

Hér kemur uppskrift af ekta "gamaldags" eplaköku eins og ömmur og mömmur gera (og núna við !).
Góða heitar með rjóma en geymast einnig gríðarlega vel og eru góðar til að taka með í ferðalög eða hafa í kaffitímanum.
p.s. Endilega gerið 2 kökur ef þið viljið ekki gera í skúffukökuformið og frystið aðra kökuna ! Hún er fljót að þiðna uppá borði og einnig hægt að flýta fyrir sér með því að senda hana í örbylgjuofninn ef gesti ber snögglega að garði









Uppskrift:
í tvö kringlótt form eða 1 skúffukökuform 

150 gr sykur
150 gr púðursykur
125 gr smjör
2 egg
1/2 tsk salt
1 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
260 gr hveiti
70 gr kókosmjöl
2 tsk vanilluextract/dropar
2.5 dl mjólk

Ofaná:
2 epli, skræld, kjarnhreinsuð og skorin í nokkuð þunnar sneiðar.
kanilsykur að vild

Glans:
Apríkósu eða appelsínumarmelaði
hitað í örbylgju og svo penslað yfir á meðan kakan er enn heit.

Aðferð:
-sykur og smjör þeytt vel saman með handþeytara eða í hrærivél með K-járninu á. Eggjum bætt saman við einu og einu í einu og þeytt vel á milli og á eftir.
-allt sem eftir er í uppskriftinni er sett saman við og blandað saman við þar til vel blandað (ath að þeyta ekki um of).
-Sett í smurt form, eplin eru skræld, skorin í tvennt og svo í sneiðar og raðað á deigið, þarf ekki að þrýsta niður. Stráð kanilsykri yfir og bakað í 30-45 mín á 180°C (styttra ef þið setjið kökuna í 2 form)


SHARE:

miðvikudagur, 16. maí 2012

kryddjurtaræktun 2012

fer vel af stað í ár.
Nokkuð þröngt er orðið um plönturnar í forsáningarbakkanum og satt best að segja bjóst ég ekki við að þær yrðu svona stórar áður en ég myndi setja þær út í júní. Er að velta því fyrir mér hvort ég ætti að taka svalapottana inn til að umpotta og prikla í þá og hafa þá inni þar til í júní þegar veðrið verður vonandi orðið stabilla og hlýrra. Eina vesenið við það að pottarnir eru stórir og fyrirferðamiklir og ekki mikið stofustáss :)

Basilikan er mjög falleg og stór og er ég farin að geta notað blöð af henni strax. Svo virðist sem að fræin sem Litla Garðbúðin er að selja séu kraftmikil og góð og upp kemur planta af hverju fræi að mér virðist :)




Mig langar einnig að benda ykkur á að pottarnir sem ég keypti í fyrra til að hengja á svalahandriðið og seldust upp á engum tíma í IKEA eru komnir aftur í IKEA. Hef ekki ennþá séð eða fundið betri útfærslu fyrir potta sem hanga framan á svölum þrátt fyrir þónokkra leit. 

Mynd frá 2011 

Það er ekki í boði fyrir mig að vera með potta inni á svölunum enda svakalega lítið pláss þar eins og þið sjáið. En þá er máli að nýta plássið vel og gera allt mjög kósí :) 




SHARE:
Blog Design Created by pipdig