fimmtudagur, 26. ágúst 2010

Bláberjadaður

Jæja....

Long time no see.

Í síðustu viku fór ég í bláber. Skemmdi 2 dekk og stóð í alskonar ævintýrum þann dag. Ég týndi samt ansi lítið af berjum vegna þess alls og stefni því að fara aftur um helgina eða eftir helgi..

Það tók því ekki að sulta neitt úr þessum berjum og voru því frekar sett í skál og hafa verið étin hér næstum á hverjum degi síðan. Í gær var komið að því að annað hvort frysta berin eða gera eitthvað úr þeim svo að ég lagðist í smá rannsóknarvinnu og fann svo skemmtilega köku að ég ákvað að ég yrði að prufa hana.

Kakan á sér smá forsögu frá árinu 1954 þegar 15 ára stelpa lenti í öðru sæti í Pillbury kökukeppni í Bandaríkjunum og vakti fyrir það mikla athygli. Síðan þá hefur þessi kaka verið bökuð á mörgum Bandarískum heimlum og er mjög vinsæl. Kakan hét þá Blueberry boy bait, eða Bláberja stráka-beita. Stelpan lýsti því að kakan væri svo góð að ef strákar myndu fá sér bita þá myndu þeir verða fyrir miklum áhrifum frá kökunni.

Uppskriftin er eftirfarandi 

deig
230 gr smjör (mjúkt)
1/2 bolli sykur
3/4 bolli púðursykur / eða ljós púðursykur
3 egg
2 bollar hveiti
1 msk lyftiduft
1 tsk salt
1 bolli mjólk
1/2 bolli bláber

ofan á kökuna:
1/2 bolli púðursykur eða sykur
1 tsk kanill
1/2 bolli bláber

Aðferð 

Fyrst er að gera hrært deig. Þ.e. setja smjörið í skál ásamt öllum sykrinum og þeyta saman í ca 2 mínútur.
Þar næst er eggjunum bætt við, aðeins einu í einu og þeytt í ca 15-30 sekúndur á milli hvers eggs svo að hræran skilji sig ekki (reyndar hef ég prufað sjálf þegar ég eitt sinn bakaði 20 formkökur í einu að setja öll eggin bara í einu og hræra. Eggin þurftu aðeins meiri þeytingu, enginn dó og kökurnar voru fullkomnar). En farið bara eftir þessu og hana nú :)

Út í smjörið, sykurinn og eggin er síðan öllum þurrefnunum skellt saman við auk 1 bolla af mjólk (ég bætti ca 1/4 bolla í viðbót í deigið)  og hrært þar til allt er vel blandað saman (muna, ekki hræra OF mikið).

Þegar allt er komið saman er hálfum bolla af ferskum eða frosnum bláberjum  hrært samanvið og sett í skúffukökumót (ef þetta á að að fara í stórt skúffukökuform þá þarf 2falda uppskrift, mitt form er ca 30x15 cm).

Ofan á óbakaða kökuna er dreyft yfir 1/2 bolla af bláberjum og kanilsykursblöndunni svo stráð yfir.

Bakað í ofni á miðhillu á 180°C í ca 30-45 mínútur eða þar til prjóni sem er stungið í kökuna kemur hreinn út. í guðanna bænum fylgist bara með kökunni af og til :)


Bjálæðislega góð kaka, pínu óvenjuleg með nýtt bragð. Bragðmikil og alveg rosalega mjúk.

punktar: 

  • Gæti verið gaman að setja aðra ávexti í kökuna einso t.d. kokteilber, hindber, ananas, epli ofl. 
  • Sleppa öllum púðursykrinum í kökunni og setja aðeins sykur. Kakan er svoldið sæt og pínu karmellukennd vegna púðursykursins. 
  • Gera 1/2 uppskrift og setja í eldfast form og borða heita með ís í saumaklúbbnum. 
  • Setja meiri bláber !!! :) 

Því miður tók ég engar myndir af kökunni en eftir smá leit á netinu fann eg mynd sem líkist minni köku.


Endilega eyðið nú smá af berjunum ykkar í eina svona köku og frystið einnig helling af berjum svo þið getið gert kökuna í allan vetur :) 


SHARE:

miðvikudagur, 11. ágúst 2010

föstudagur, 6. ágúst 2010

Hver er þessi einar?

Og hver er Hækjan...
já hækjan er örugglega ég og einar er vinstri fóturinn minn og ég og einar höfum verið að brasa ansi margt sl daga. Ég gengum um á einari (hoppa og haltra), ég elda á einari, ég fer í sturtu á einari... osfrv.

Forsagan er sú að ég ætlaði að dansa aaaðeins á Þjóðhátíð. Engin góð saga bak við það að "detta" í brekkunni eða hafa verið ofurölvi. Neibb, létt og kát á brá og missteig mig á flösku sem lá þar drukkin og tóm á dansgólfinu við stóra sviðið. Við það að misstíga mig fann ég skelfilegan smell og haltra út af dansgólfinu með herkjum og bít það í mig að ég VERÐI Að ná í kælingu og teygjusokk ASAP. Ég haltra því hálf kjökrandi upp í sjúkratjald þar sem ég bið um vistirnar og þar hittir Viðar mig svo. Ég bar mig mjög vel miðað við allan helvítis sársaukan og hoppa svo uppí Hvíta tjaldið hjá Gauja og Gústu og sé þá þessa FÍNU kúlu sem er strax tekin að myndast á utanverðum ökklanum. Eftir smá pælingar í Ottawa fannst mér vissara að taka nú röntgen og fer því upp á Slysó í eyjum í þeim erindagjörðum. Svo fer ég einfaldlega norður á Akureyri í smá dekur til þess að jafna mig í ökklanum og fæ ekkert út úr myndinni og segi því einfaldlega við fólk að það hefur greinilega verið ekkert að sjá í henni. Amk sást strax þarna um nóttina engin greinileg brot.
...
SVO fæ ég símtal frá Eyjum... ööö...eeee... það er líklegt að þú sért með syndesmosis rupturu og það greinist víkkað bil á milli fibulu og tibiu. andskotans djöfulsins djöfull!! Eyjamenn vilja senda mig í segulómun og fá álit bæklunarlækna með tilliti til aðgerðar og fleira vesens. (Aðgerð í þessu tilfelli hefði þýtt 2stk nagla boraða í gegnum leggjabeinin og gifst í allt of margar vikur með engu ástigi!).  Að auki var mér tilkynnt að ég hefði ekkert mátt stíga í fótinn og megi alls ekki gera það. (dem)

Ég var auðvitað á Akureyri og þeir höfðu engin úrræði fyrir mig þar vegna sumarleyfa svo ég fór bara suður og kíkti á Slysó hér í Rvk.
Eftir hálf taugatrekktan dag á Slysó, endurmat og pælingar var ég úrskurðuð með 3°tognun... sem er svona "næstum allt í sundur en sleppur þó" greining. Núna þarf ég bara að jafna mig, fara hægt af stað og ALLS ekki misstíga mig á næstunni. Liðurinn er laflaus og liðböndin aum ...og marið er tjah, ansi skrautlegt.

viljiði sjá ? :)

Um nóttina... smá búhú


Morguninn eftir... ógeðslega bólgin 



Kvöldið eftir:
afmyndaður og bólginn ökkli


Mánudagur... (dagur 3)

Þriðjudagur (dagur 4)




Fáránlega erfitt að mynda mar... En þetta er alveg frá tánum upp alla hægri hliðina, yfir hásinina og innaná hælinn. Allt það sem er ekki dökkfjólublátt er grænt eða ljósblátt. NÆS ! :) 
Þá finnst mér hann einar minn sætari og mun skemmtilegri þessa dagana. 

Frí í vinnunni í amk viku skv Skúla. Ég tek því fyrstu vaktina næstu mánudagsnótt og þar til er ég að passa mig. Já í alvöru. Ætlum samt að reyna að fara á ættarmót með hækjurnar í eftirdragi og í vinnustaðarútilegu hjá Viðari. Ég á eftir að njóta þess smá að sitja og ota hækjunum í hann þegar hann tjaldar! 

Annars er ekkert í fréttum þannig séð. Það eina rosalega sem hefur gerst fyrir utan þjóðhátíð, ökklavesen og tilhlökkun til að fara í vinnuna aftur er það að ég kom að konu sem hafði fallið afturfyrir sig á Akureyri í vikunni. Ég kom þarna að ásamt 2 öðrum sem voru þar fyrir og sáu þetta gerast og sá fljótt að eitthvað var ekki í lagi. Eftir fljótlega ABC skoðun var það ljóst að konan var með engu lífsmarki.  ÞÁ var nú gott að vera hjúkka, vera búin að sjá hjartastopp áður og kunna handbrögðin. . . Sjúkrabíllinn kom og 4 vaskir menn tóku við af mér og öðrum sem þarna voru. Héldu áfram endurlífgun, barkaþræddu, settu upp mergnál, stuðuðu 2-3x, komu henni í hnoðbrettið og svo hélt ég á brott. Veit satt að segja ekki söguna meir. 
Það er nú ekki langt síðan ég var að ræða það við Viðar hvenær það myndi gerast sem ég kæmi að einhverju slysi eða slíku þar sem ég yrði að vera hjúkrunarfræðingurinn á staðnum og nota þekkinguna. Það liðu örugglega ekki nema 2 dagar þarna á milli og þá var ég á hnjánum að hnoða. . . merkilegur heimur.




SHARE:
Blog Design Created by pipdig