þriðjudagur, 5. september 2023

Rúgbrauð

Rúgbrauðsuppskrift
Rúgbrauð

Sætt, kraftmikið og dökkt rúgbrauð. Alveg sturlað gott.

Ég baka stóra uppskrift, sker niður í kubba og frysti. Tek svo kubbana út þegar ég hef fisk í matinn eða þegar það er mikill brauðskortur í nesti fyrir krakkana í skólann. Þau satt að segja elska þetta með nóg af smjöri.

Þetta er ekki soðið brauð, en þetta er jafn gott. Það þarf ekki að setja þetta í mjólkurfernur, en það má. Einhversstaðar heyrði ég að mjólkurfernurnar væru ekki framleiddar með það í huga að þær séu hitaðar upp í 100°C og það sé mögulegt að það leki úr þeim "efni" inn í brauðið og þar með ákvað ég að ég myndi ekki þurfa að standa í þesskonar tilraunum með fjölskyldumeðlimi. 

Ég keypti mér Gastro-bakka og lok, eins og þessa sem notaðir eru á veitingastöðum. Þeir fást á ýmsum stöðum. Minn er að stærðinni 1/2. 

Þessa stærð að uppskrift að rúgbrauði er vel hægt að setja í stóru steikarpottana sem leynast á mörgum heimilum eða minnka um helming og setja í 2 formkökuform og álpappír yfir þegar það er bakað. 

Uppskrift 

600 gr rúgmjöl 
330 gr heilhveiti 
1150 ml súrmjólk 
200 gr púðursykur 
430 gr sýróp 
17 gr matarsódi 
13 gr salt 


Aðferð: 

-Aðferðin er ekki flókin. Allt er sett í skál og blandað saman. Sett í smurt form og lok eða álpappír settur yfir. 
-Mér finnst sjálfri gott að láta deigið standa í forminu í 30 mínútur áður en ég set þetta í form svo að rúgurinn og heilhveitið blotni vel áður en bakstur hefst.
-Bakist við 100°C 
-Sé all deigið bakað í einu formi, bakið það þá í 11 klst. Bakið þið það í smærri einingum, bakið það þá í 10 klst. 
-Ég set tímaniðurtalninguna af stað á ofninum og brauðið bakast yfir nótt hjá mér. Ofninn slekkur á sér þegar hann er búinn og okkar býður þá vanalega ylvolgt rúgbrauð á morgnana. 

Rúgbrauðsuppskrift
Öllum innihaldsefnum blandað saman 

Rúgbrauðsuppskrift
Deigsoppan tilbúin í bakstur. Mikilvægt að hafa lok eða álpappír yfir

Rúgbrauð  uppskrift
Nýbakað og volgt, skorið í kubba og svo fryst 
Rúgbrauð



Hlakka til að sjá rúgbrauðin ykkar! 


Njótið 



SHARE:

fimmtudagur, 16. apríl 2020

Banana- og Döðlubrauð

....án sykurs ;) 





Ég hef verið að prufa mig áfram með Sweet like sugar í stað þess að nota venjulegan sykur og það hefur komið vel út í flestum tilfellum :)

Hér er uppskrift af hollu heimabökuðu brauði sem er aðeins kryddað en afskaplega sætt, mjúkt og gott!

Það góða við þetta er að það tekur stuttan tíma að skella þessu saman, þarf aðeins skál, gaffal, sleif og formkökuform og svo geymist þetta afskaplega vel næstu dagana.

frábært með smjöri og osti!

Uppskrift

(1 bolli eru 250 ml)
3 stappaðir bananar
1/2 bolli saxaðar döðlur
1.5 bolli hveiti
1/2 bolli Sweet like sugar (eða venjulegur hvítur sykur)
1 bolli haframjöl
2 egg
1/2 tsk salt
1 1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk negull
1 tsk kanill

Aðferð 

-Bönunum, döðlum, eggjum og sykri hrært saman.
-Öðrum þurrefnum bætt samanvið
-Sett í smurt form og bakað við 180°C í ca 50 mínútur á undir/yfir hita.
SHARE:

föstudagur, 22. nóvember 2019

Skinkuhorn





Ég get lofað ykkur að þetta eru mýkstu skinkuhorn sem þið munuð nokkurn tíman smakka. Tvöföld hefun gerir extra trikkið og salt ofaná í lokin er punkturinn yfir i-ið.


Skinkuhornin er tilvalið að gera og geyma í frysti fyrir skólanesti eða til að eiga og grípa í. 


Uppskrift:
gerir 36 stk 

2 dl volgt vatn
1 bréf þurrger
1 tsk sykur

1 tsk salt
2 msk olía
6 dl hveiti

Fylling
hálf askja skinkusmurostur 
6-8 sneiðar af reyktri skinku 
1 hvítlauksgeiri (lítill) 
smá svartur pipar 
ítalskt krydd 

Aðferð:-Setjið volgt vatn, ger og sykur í skál og látið standa í 10 mín eða þar til gerið fer aðeins að freyða. Bætið restinni af innihaldsefnum saman við og hnoðið þar til deigið er slétt. Ég mæli með að gera það með deigkrók í hrærivél og hnoða það í 5 mínútur á litlum hraða.
-Látið deigið lyfta sér í 40 mínútur undir viskastykki á borði.-Sláið deigið niður, skiptið því í 6 búta, fletjið út í hring sem er svipað og pizzabotn á þykkt og skerið með pizzaskera í 6 geira. -Setjið fyllingu á miðja kökuna, nær breiðari kanntinum á geiranum. Bleytið breiða kanntinn og spíssinn með vatni (ég nota bara fingurnar í þetta) og rúllið í átt að mjórri endanum. Gætið að snúa saman endunum svo að lítið af fyllingunni leki út.
-látið hornin standa á borði í 30 mínútur svo þau lyfti sér aftur. 
-Penslið yfir hornin með matarolíu og setjið flögusalt yfir þau. 
-Bakið við 200°C á blæstri í um það bil 10 mínútur eða þar til hornin verði létt brún. 


Gerið og sykur sett útí vatnið og látið freyða 

Bætt útí hveitið, olíu og salti 

Hnoðað í 5 mínútur þar til deigið er slétt og fínt 

látið lyfta sér í 40-60 mínútur

Fyllingin sett saman 

Það er mjög gott að hafa aðstoðarmann sem fylgist vel með hvort deigið sé ekki að lyfta sér 

"mamma það er alveg orðið mjög stórt" 

Deiginu skipt í 6 jafnstórar kúlur 

Flatt út á hveitistráðu borði í hring 

Skorið í 6 geira með pizzaskera, lítið af fyllingu sett á breiðari endann og vatni penslað á endann og spíssinn

rúllað saman frá breiðari enda að þeim mjórri 

Snúið upp á endana og horn mótað 

Látið lyfta sér í 30 mínútur í viðbót, penslað með olíu og salti stráð yfir. 

Enjoy :)


SHARE:

fimmtudagur, 14. mars 2019

Pizzasnúðar

Klassískir pizzasnúðar en einnig fylgja hugmyndir að mjög frumlegum pizzasnúðum sem gaman er að prufa líka.

Virka í raun fyrir allan aldur og eru frábærir fyrir barnaafmælin, útilegurnar, kaffitímana, nestistímana og fleira og fleira. 

Þessir pizzasnúðar eru frábærir vegna hve mjúkir þeir eru (þið hafið örugglega aldrei smakkað aðra eins! 😎 Þeir geymast líka vel í 2-4 daga.

Eins og þið sjáið svo í hugmyndum að fyllingum er hægt að leika sér mikið með innihaldsefnin svo að þetta henti sem flestum 😊



Uppskrift 
(gerir 50-55 litla snúða)

450 gr hveiti
1 msk sykur
1 tsk salt
1 bréf þurrger
3 msk matarolía
1 dl mjólk
2 dl volgt vatn
góð ólífuolía

Hugmyndir að fyllingum
-pizzasósa
-skinka
-pepperoni (skorið í bita)
-kjötsósa (Bolognese)
-hráskinka
-fersk basilíka
-pulsur
-hvítlaukssmjör
-ostur
-ólífuolía
-ólífur
-pestó
-ýmis ítölsk krydd
-rifinn ostur
-mjúkur ostur (camembert t.d.)
-chutney

Aðferð: 
-Blandið innihaldsefnum saman í skál/hrærivélarskál og hnoðið saman í 2-3 mínútur eða þar til deigið er vel komið saman. Það má vera nokkuð blautt og ekki hafa það of stíft.
-Látið hefast í 40 mínútur undir viskastykki
-Fletjið deigið út í ílangan ferhyrning, ekki hafa deigið of þunnt.
-Smyrjið sósu á deigið og setjið fyllingu að eigin vali á. Dreifið rifnum osti yfir og hellið að lokum ólífuolíu í mjórri bunu yfir allt deigið (þetta er galdurinn fyrir mjúka pizzasnúða í marga daga 😉)
-Rúllið snúðunum upp eins og ég sýni á myndinni hér neðar (rúlla langhliðunum inn að miðju), skerið svo á milli rúllanna með pizzaskera og klárið að rúlla upp rúllunum. (þetta sparar þá vinnu að fletja út deigið í tveim skömmtum)
-Skerið rúllurnar í 4 cm breiða snúða, raðið þeim á bökunarpappírsklædda bökunarplötu og þrýstið létt með lófanum ofan á hverja rúllu.
-Látið snúðana standa á borði við herbergishita í 20 mínútur áður en þið bakið þá (má sleppa ef ekki gefst nægur tími)
-Bakið í ofni við 200°C í 13-15 mínútur eða þar til þeir hafa náð að gyllast smá. Varist að ofbaka þá ekki því að þá verða þeir harðir og tómatsósan brennur auðveldlega.

ATH. Ef þið notið kjötálegg eða e-ð annað álegg sem almennt geymist í kæli þarf að geyma snúðana í kæli eftir dag nr 1.

áleggið sem ég notaði hér var það sem átti í ísskápnum 


Pizzasósa, pulsur, rifinn ostur, hráskinka, afgangs bolognese sósa, Olifa Puglia ólífuolía, 
rúllur rúllaðar upp frá sitthvorri langhliðinni þar til þær mætast í miðju. Skerið þá á milli rúllanna með pizzaskera og klárið að forma rúllur. 

raðið pizzasnúðunum á plötu, látið standa á borði í 20 mínútur til að hefast örlítið og bakið svo í ofni





Munið að "tagga" mig á instagram "ragnab" og nota hasthtaggið #ragnapunkturis ef þið sýnið frá því sem þið gerið af síðunni á samfélagsmiðlum 😉

njótið
xoxo
SHARE:

fimmtudagur, 9. október 2014

Pítubrauð

Það tekur ekki langan tíma að gera pítubrauð. Það passar vel að henda því í skál þegar heim er komið eftir vinnu og svo kíkja á það aftur um 20 mín áður en maturinn á að fara á borðið. :) 

Fyrir utan hve æðislega gott að fá nýbakað pítubrauð þá er rosalega gaman þegar maður er með lítil börn að geta gert litlar pítur fyrir þau :)

Allt hráefnið

Aðstoðarkokkurinn raular orðið með mömmu sinni 

skipt í 8 kúlur 

Flatt út. Ath ekki hafa brauðin of stór.




Uppskrift: 
gerir um 8 pítur

500 gr hveiti
1,5 tsk salt
2 msk matarolía
1 poki þurrger
2 msk sykur
ca 250-300 ml volgt vatn

Aðferð
- Setjið hveiti, salt, matarolíu, þurrger, sykur og vatn saman í skál og hnoðið annað hvort í höndunum  á borði eða með hrærivél í 8 mínútur (hér má eiginlega ekki gefa afslátt á mínútum :) )
- Setjið deigið í skálinni á volgan stað (eða ofan í volgt vatn í eldhúsvaskinum) og breiðið viskastykki yfir. Látið hefast í 40-90 mín. (Fer eftir hve heitt er þar sem deigið hefast)
-Skiptið deiginu í 8 búta og gerið píturnar einar í einu með kökukefli og raðið 3-4 saman á pappírsklædda plötu og setjið inní ofn á.
-Verið búin að hita ofninn uppí 200°C og bakið píturnar á einni eða tveimur plötum (ef 2 plötur stillið þá á blástur) og bakið við 5-7 mínútur. Þær eiga að blása vel upp. Ef þær blása ekki vel út þá getur verið að ofninn sé ekki nógu heitur eða þið eruð með píturnar of stórar. Það er ágætt að miða við pítubrauðin sem fást í öllum helstu búðum.

Setjið það álegg sem ykkur lystir í pítuna ykkar

mmmmmmm

gjörið svo vel :)




SHARE:

fimmtudagur, 20. júní 2013

Pestó brauðbollur

Það er alltaf svoldið gaman að gera eitthvað aðeins öðruvísi :)

Hér eru brauðbollur sem bakaðar eru í tómatasósu.
Þær eru svo teknar úr fominu og snúið við, þannig að tómatarnir eru ofan á brauðbollunni :)
Þetta er snilld í saumaklúbbinn, vinkonuhittinginn, helgar brunchinn eða með súpu.

þegar deigið er tilbúið er það flatt út í ferhyrning og pestóinu smurt á + smá salti stráð yfir

rifnum osti er svo stráð yfir og rúllunni rúllað upp eins og sé verið að gera snúða


litli aðstoðarkokkurinn er alltaf jafn þolimóður 

tómatarnir settir í eldfast mót 

búið að sneiða niður "snúðinn" 

saumarnir klipnir saman og stungið undir svo að þetta verði meira eins og deigbolla 

raðað í formið og osti stráð yfir 

mmm!!!!!

Uppskrift: 
2.5 bollar hveiti
2 tsk ger
1 tsk salt
1/2 tsk nýmalaður svartur pipar
2 msk matarolía
1 bolli vatn

ca 5-6 msk pestó
1/2 dós niðursoðnir tómatar
1-2 dl rifinn ostur

Aðferð
-Brauðdeigið er gert á hefðbundinn máta. Þurrefnum blandað saman, vatni blandað við (haft ylvolgt) og  hnoðað þar til deigið er slétt og gljáandi. Látið lyfta sér í 30-60 mín.
-Deigið flatt út og pestói smurt á + saltað aðeins (ath pesto er mis-salt. Athugið hvort að það þurfi salt áður en þið skelltið saltinu yfir). Stráið svo smá rifnum osti yfir
-Rúllið deiginu að ykkur og skerið í sneiðar sem eru um 2-3 cm breiðar. Brjótið eða klípið endana niður þannig að þetta verði að bollu
-helllið 1/2 dós af tómötum í dós (má vera með einhverju auka bragði ef þið viljið), raðið bollunum ofaní (ath að þær þurfa ekki endilega að snertast, þær stækka í bakstri).
Stráið osti yfir og bakið í ofni i 30-40 mínútur á 180°C

Bleika og sæta eldfasta mótið fékk ég í Litlu Garðbúðinni  sem selur allt sem þarf til allrar ræktunar og er núna búin að bæta við sig sætri heimilislínu. Þið verðið eiginlega að kíkja í búðina því að sjón er sögu ríkari! :) Svo margt fallegt og búðin æðislega fallega upp röðuð!

Enjoy

SHARE:

þriðjudagur, 7. maí 2013

Kanilbrauð með rúsínum

Oh bara ef myndirnar myndu sýna hve mjúkt þetta brauð er, já og hve bragðgott það er !


Það er svona mjúkt enda búið að hnoða deigið vel (glúteinið binst) og það fær að lyfta sér 2x.

Já ég veit. Tvöföld hefun þýðir langur tími. En... Þið gerið 2 brauð, og þetta brauð frystist vel og er alveg gríðarlega gott í 2-3 daga, bara ef þið skellið því í brauðristina. Það er því ekkert til fyrirstöðu að prufa að gera þetta brauð.
Svo er líka sérstaklega gaman að gera svolítið öðruvísi brauð heldur en venjulegar brauðbollur eða hvítt brauð.

Öll þurrefnin sett saman í skál 

þegar búið er að hnoða deigið í 6-8 mínútur (enga leti! :) ) - er það sett i hefun.  Hellið örlítið af olíu yfir degið og veltið því um 

Hér borgar sig ekki að flýta sér og setja skálina yfir heitt vatn í vaskinum. Setjið plastfilmu yfir og látið standa á borði í 2 tíma. Það er samt ekkert gríðarlega vinsælt að lofta út á meðan. Herbergishiti er fínn :)

Ef það sæist betur á myndinni þá mynduð þið sjá að deigið hefur stækkað um amk helming. 

sláið loftið úr deiginu, setjið það á borð og skerið klumpinn í tvennt. Sirkið ferhyrning sem er  með lengri hliðina jafn langa og formið sem þið ætlið ykkur að nota. 

smá bónus! Stráið kanilsykri yfir. En bara lítið 

Rúllið deiginu upp eins og þið séuð að gera snúð.

látið í form og setjið samskeitin niður. Endurtakið fyrir brauð nr 2, setjið plastfilmu yfir og látið hefa sig í klst i viðbót

þegar brauðið er komið gullið og heitt útúr ofninum, stelist í smjörstykkið, rennið þvi yfir heitt brauðið eins og það væri maísstöngull og stráið extra kanilsykri yfir.... jamm... ég er ekki að grínast :) 

njótið! :D

Uppskrift: 
Gerir 2 brauð 
(1 bolli er 2.5 dl) 

3 1/2 bolli hveiti (blátt hveiti frá Kornax helst)
4 tsk sykur
1 1/4 tsk salt
2 tsk ger
1 1/4 tsk kanill
1 egg
2 msk bráðið smjör
1/2 bolli mjólk
3/4-1 bolli vatn
1 1/2 bolli rúsínur

Kanilsykur

Aðferð:
-Setjið öll þurrefni í skál og bætið vatni, mjólk, smjöri og eggi saman við.
-Mér finnt best að setja mjólkina og vatnið fyrst  saman í skál. Sé mjólkin köld, nota ég tiltölulega heitt vatn svo að þegar þetta er saman komið þá er blandan ylvolg. Ég set svo eggið og smjörið þarna útí, hræri vel saman og slæ í sundur eggið í leiðinni og helli útí hveitið og restina af þurrefnunum. Ég byrja samt alltaf með 3/4 af vatni en þarf iðulega að bæta aðeins við.
-Hnoðið deigið í höndunum eða í hrærivél með deigkróknum. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé gert í 6-8 mínútur, en þannig binst glúteinið í hveitinu best og úr verður mjúkt og gott brauð með góðri loftfyllingu. Það er að sjálfsögðu mun minna mál að gera það í hrærivél en auðvitað líka hægt í höndunum. Bara svolítið meiri vinna :) Deigið á að vera nokkuð blautt en ekki klístrast við hendurnar nema að mjög litlu ráði. Í restina, bætið þið rúsínunum við (ef þið eruð að gera þetta í hrærivél gæti þurft að hnoða deigið aðeins til með höndunum svo að rúsínurnar dreifist jafnt)
-Látið deigið i skálina aftur (ef þið hafið sett deigið á borð til að hnoða það) og hellið örlítið af matarolíu yfir kúluna og veltið henni um í henni. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið standa við herbergishita í 2 klst.
-Eftir 2 klst hefur deigið risið um amk helming. Takið það úr skálinni og sláið loftið úr því og hnoðið afskaplega lítið. Skiptið deiginu í tvennt og formið eins og myndirnar hér fyrir ofan sýna, stráið kanilsykri yfir og setjið í form (ég nota formkökuform úr IKEA). Setjið aftur filmu yfir deigið og látið lyfta sér í 1 klst.
-Bakið brauðið við 185°C í 45 mínútur eða þar til brauðið er orðið gullið og flott að ofan.
-Þegar brauðið er nýkomið úr ofninum er möguleiki að taka smjör, smyrja það að ofan og strá kanilsykri yfir.
-Borðist volgt, kalt eða beint úr brauðristinni

enjoy ! :)



ein auka mynd af litla aðstoðarkokkinum henni Árdísi Rún sem er  3ja mánaða þarna 

SHARE:
Blog Design Created by pipdig