Vá. Þvílík dásemd sem þessi réttur var.
Átti svo yndislegt nýbakað súrdeigsbrauð sem ég vildi nota til þess að drekka upp gómsæta sósu og datt í hug að búa til einhvernskonar rétt úr risarækjum sem ég átti til.
Að öllu jöfnu hefði ég gert þennan rétt hérna sem ég geri afskaplega oft en það var eitthvað svo kuldalegt úti að mig langaði í kraftmikla og braðgmikla rjómasósu.
Uppskrift:
fyrir um 2
ca 400 gr risarækjur
3 msk olía
200 gr kokteiltómatar
5 sneiðar sólþurrkaðir tómatar skorið í teninga
2 hvítlausrif
1 skarlottulaukur
100 ml hvítvín
1 msk rautt pestó (Philipo Berio)
1 msk fljótandi humarkraftur frá Oscars
200 ml rjómi
fersk basilika, ca 10 blöð
rifinn parmesan (hver og einn setur yfir)
salt og pipar
Aðferð
- Steikið rækjurnar uppúr 2 msk af olíu á heitri pönnu. Takið af og látið til hliðar
- Steikið því næst saxaðan hvítlauk, skarlottulauk, kokteiltómata, sólþurrkaða tómata í ca 3 mín, hækkið vel á pönnunni og hellið hvítvíninu útá (ég notaði hvítvín sem fæst orðið í flestum búðum eins og Krónunni og Bónus - það kemur saltað og piprað og er ekki ætlað til drykkju þó það sé áfengt)
- Leyfið þessu að sjóða hressilega í um 2 mínútur eða þar til að mesta hvítvínið hefur gufað upp.
- Látið 200 ml af rjóma útá, 1 msk af pestóinu og 1 msk af fljótandi humarkrafti. Ég þurfti ekki að salta þarna en bætti við smá pipar.
- Setjið rækjurnar útá
- Sjóðið í 5 mín á vægum hita
- Skerið basilíkuna í strimla og hrærið samanvið
- Borið fram með nýbökuðu brauði sem notað er til að drekka í sig rjómasósuna og nýrifnum parmesan sem rifinn er yfir sósuna og rækjurnar þegar þær eru komnar disk hvers og eins.
Þessi réttur er virkilega fljótlegur (tekur ca 15 mín að útbúa) og það setja humarkraftinn útí sósuna færir sósuna á það stig að það yrði enginn ósáttur við að fá þennan rétt á veitingastað.
Punktar:
-Hér má vissulega nota humar ef þið viljið
-Þessi sósa og rækjur henta unaðslega vel sem pastasósa. Sjóðið Tortellini og bætið saman við (sleppið brauðinu þá) Þessi skammtur af sósu ætti að henta 4 ef það er sett pasta samanvið