þriðjudagur, 5. september 2023

Rúgbrauð

Rúgbrauðsuppskrift
Rúgbrauð

Sætt, kraftmikið og dökkt rúgbrauð. Alveg sturlað gott.

Ég baka stóra uppskrift, sker niður í kubba og frysti. Tek svo kubbana út þegar ég hef fisk í matinn eða þegar það er mikill brauðskortur í nesti fyrir krakkana í skólann. Þau satt að segja elska þetta með nóg af smjöri.

Þetta er ekki soðið brauð, en þetta er jafn gott. Það þarf ekki að setja þetta í mjólkurfernur, en það má. Einhversstaðar heyrði ég að mjólkurfernurnar væru ekki framleiddar með það í huga að þær séu hitaðar upp í 100°C og það sé mögulegt að það leki úr þeim "efni" inn í brauðið og þar með ákvað ég að ég myndi ekki þurfa að standa í þesskonar tilraunum með fjölskyldumeðlimi. 

Ég keypti mér Gastro-bakka og lok, eins og þessa sem notaðir eru á veitingastöðum. Þeir fást á ýmsum stöðum. Minn er að stærðinni 1/2. 

Þessa stærð að uppskrift að rúgbrauði er vel hægt að setja í stóru steikarpottana sem leynast á mörgum heimilum eða minnka um helming og setja í 2 formkökuform og álpappír yfir þegar það er bakað. 

Uppskrift 

600 gr rúgmjöl 
330 gr heilhveiti 
1150 ml súrmjólk 
200 gr púðursykur 
430 gr sýróp 
17 gr matarsódi 
13 gr salt 


Aðferð: 

-Aðferðin er ekki flókin. Allt er sett í skál og blandað saman. Sett í smurt form og lok eða álpappír settur yfir. 
-Mér finnst sjálfri gott að láta deigið standa í forminu í 30 mínútur áður en ég set þetta í form svo að rúgurinn og heilhveitið blotni vel áður en bakstur hefst.
-Bakist við 100°C 
-Sé all deigið bakað í einu formi, bakið það þá í 11 klst. Bakið þið það í smærri einingum, bakið það þá í 10 klst. 
-Ég set tímaniðurtalninguna af stað á ofninum og brauðið bakast yfir nótt hjá mér. Ofninn slekkur á sér þegar hann er búinn og okkar býður þá vanalega ylvolgt rúgbrauð á morgnana. 

Rúgbrauðsuppskrift
Öllum innihaldsefnum blandað saman 

Rúgbrauðsuppskrift
Deigsoppan tilbúin í bakstur. Mikilvægt að hafa lok eða álpappír yfir

Rúgbrauð  uppskrift
Nýbakað og volgt, skorið í kubba og svo fryst 
Rúgbrauð



Hlakka til að sjá rúgbrauðin ykkar! 


Njótið 



SHARE:

fimmtudagur, 14. maí 2020

Ofnbakaður Camembert

Mmmmm

Bráðinn ostur, heitur, lekandi með dísætu hlynsýrópi!

Fullkomið fyrir datekvöld eða saumaklúbbinn. Já eða bara hvað-sem-er ! :)
Eftirrétt eftir grillið, kósíkvöld uppí sumarbústað, snarl uppí rúm seint um kvöld .... hvað-sem-er



Uppskrift 


1 camembert
2 msk hlynsýróp
2 msk muldar pekanhnetur
1 msk söxuð trönuber eða döðlur

Aðferð 


-Hitið ofninn í 200 gráður
-Skerið ofan í ostinn, 2/3 af leiðinni í gegn, skerið eins og þið væruð að skera eftir línunum í rúðustikuðu blaði :)
-Setjið 2 msk af hlynsýrópi yfir og bakið ostinn í 10 mínútur
-Takið hann út og setjið pekanhnetur og trönuber/döðlur yfir, bakið í 5 mínútur í viðbót.

Skerið í ostinn
Hellið hlynsýrópi yfir 

Ath 

Ég læt pekanhnetur og berin ekki vera allan tímann inni því ef þetta er allan tímann þá getur það ofeldast og orðið beiskt :) Þetta þarf aðeins að ristast en á alls ekki að brenna.





SHARE:

miðvikudagur, 6. maí 2020

Köld sinnepssósa

Æðisleg sinnepssósa sem bragð er að! 
Frábær með grillinu í sumar eða fiskréttum.
Geymist vel og um að gera að gera nóg af henni til að eiga.

Uppskrift: 

2 kúfaðar msk majones 
2 kúfaðar msk sýrður rjómi
1 tsk dijon sinnep
1 tsk sætt sinnep 
2 tsk sítrónusafi 
1/4 tsk hvítlaukskrydd/duft 
salt og pipar eftir þörfum 
3 msk gróftsaxaðar sinneps-sprettur 


Aðferð:

Hrærið öllu saman í skál ogl látið standa í amk 15 mínútur áður en þið berið fram. 


SHARE:

sunnudagur, 20. maí 2018

Túnfisksalat - það besta!


Frábært túnfisksalat, auðvelt og klikkar aldrei. 


Já, ég ætla að vera svo kræf að segja að þetta sé besta túnfisksalat sem þið hafið smakkað. 
Það er svo ljúffengt að fólk sem heldur því fram að það borði ekki túnfisk og hvað þá niðursoðinn túnfisk í túnfisksalati hefur skipt um skoðun eftir að hafa smakkað þetta! 😀





Ég hef gert þetta túnfisksalat svo vandræðalega oft að það er skrítið að ég hafi aldrei komið því verk að setja uppskriftina hér inn. 
Raunar er ein túnfisksalatsuppskrift hér nú þegar en hún er allt öðruvísi og meira til þess að henda einhverju saman með nánast engri fyrirhöfn.

Þetta túnfisksalat er öðruvísi en öll önnur að því leitinu til að hér er ekkert majónes og í staðinn fyrir það er notaður sýrður rjómi og kotasæla. 






Uppskrift: 

3 egg 
1 dós túnfiskur í vatni 
1/2 rauðlaukur (eða 1 skarlottulaukur) 
1 dós sýrður rjómi (% tala skiptir ekki máli) 
1 lítil dós kotasæla (ef maður á stóra kotasæludós þá notar maður tómu dósina af sýrða rjómanum til að mæla magnið, eins og ég gerði hér sjá mynd) 

Krydd: 
hér gilda engar mælieiningar nema smekkur hvers og eins 

Karrý 
Laukduft 
hvítlauksduft 
Aromat 
(stundum set ég líka lawry's og/eða paprikukrydd



Innihaldsefnin 

Aðferð: 

-Sjóðið 3 egg og kælið, skerið í smáa bita 
-Skerið laukinn, mjög smátt. (myndband hvernig það er gert er hér)
-Hellið vatninu af túnfisknum og brjótið hann upp í smáa bita 
-ATH mikilvægt: Kryddið þetta saman áður en sósan fer útí. 
-Blandið kotasælu og sýrðum rjóma saman við og hrærið saman. 





Setjið egg, rauðlauk og túnfisk saman í skál 

Kryddið blönduna áður en sósunum er blandað útí 

Hrærið vel saman kotasælu og sýrðum rjóma 


psst. TUC kexið sem er með salt og pipar er fullkomin pörun með þessu salati 

SHARE:

miðvikudagur, 17. janúar 2018

Límonaði



Undirbúningur: 
400 ml sykur
200 ml vatn

Hitað saman að suðu þar til sykurinn er uppleystur. Sett í kæli og kælt.

Samsetning:
350 ml sítrónusafi  (ca 5-9 sítrónur, fer vissulega eftir stærð)
2 l kalt vatn
sykursýróp

Aðferð:
-Kreistið safann úr sítrónum í höndunum eða með safapressu.
-Sigtið safann til að fjarlægja steina. (Mér finnst gott að geyma smá af aldinkjötinu sem festist í sigtinu og bæta útí safann eftirá)
-Hellið sykursýrópi, sítrónusafa og vatni saman við og hrærið þar til allt er blandað.
-Skerið 1 sítrónu í þunnar sneiðar og bætið klökum útí.









Geymist í nokkra daga í kæli í lokaðri flösku.

Gaman er að leika sér með þessa uppskrift og setja nokkur myntublöð útí sykursýrópið þegar það er soðið uppá því. Þau eru svo sigtuð frá áður en sýrópið er sett útí vatnið og sítrónuna og fersk blöð látin í staðinn. Eins er hægt að gera með timian, rósmarín eða hin ýmsu ber.





SHARE:

mánudagur, 27. ágúst 2012

Bláberjasulta

Að gera bláberjasultu er alveg svakalega einfalt og geta allir gert það án þess að eiga einhvern sérstakan búnað. Það eina sem þið þurfið að eiga eru glerkrukkur og ef þið eigið þær ekki þá er hægt að kaupa þær í Europris, Búsáhöldum, Byggt og Búið, Byko og Húsasmiðjunni svo eitthvað sé nefnt.

Mér finnst að flestir ættu að skella sér í stutta útivist í berjamó einu sinni á ári. Jafnvel þó svo að berjasulta eða hlaup sé ekki það sem þið stefnið á að gera. Það er fyrst og fremst svo gríðarlega mikill peningasparnaður í því að eyða 3 tímum af einum degi í að tína ber.
Bláberin er hægt að frysta í zip-loc pokum í allt að ár og nota svo út í boozt, kökur, búa til bláberjasósu (t.d. á ostaköku) eða afþýða og borða með rjóma eða skella útá skyrið.
Ég hef lesið mér til um margar aðferðir til að frysta ber. Allt frá því að setja berin í glös með vatni og frysta svo glösin til þess að setja sykur útí pokann. Hjá mér hefur það aldrei klikkað að setja berin annað hvort í box eða vel lokanlegan poka. Maður hristir svo pokann eða boxið til áður en maður notar berin og þau losna mjög auðveldlega í sundur.




Bláberjasulta:

Byrjið á að skola berin. Mér finnst best að þrífa vaskinn vel. Fylla hann af ísköldu vatni og setja öll berin útí. Þannir fljóta upp stöku laufblöð, þurr ber og grænber sem ég hef misst af þegar ég hreinsaði berin. Berin veiði ég svo uppúr með sigti og læt á bökunarplötu með eldhúspappír á til þerris í smá stund. 

Uppskrift:
Hlutföllin eru svona sem þið aðlagið svo að því magni af berjum sem þið hafið

ath að mín uppskrift er uppskrift að sykurminni bláberjasultu en þið kunnið kannski hafið kannski kynnst. Það kemur þó ekki niður á bragðinu þó að sykurinn sé aðeins minni :) 

1 kg ber
500 gr hrásykur/sykur
1/2 bréf af bláu Melatin 

Ber og sykur soðið saman í potti í 15 mínútur við vægan hita þar til sykurinn er uppleystur og berin sprungin. Melatin duftinu er hrært saman við 2 msk af sykri og blandað saman við og soðið við vægan hita í 10 mín í viðbót.

Ég tek vanalega eina krukku frá áður en ég bæti hleypinum útí og geymi inní ísskáp, til þess að nota sem íssósu yfir veturinn :)

Hellið sultunni á hreinar krukkur og tyllið lokinu á.

Geymist í rúmt ár í eldhússkáp


í ár notaði ég hvítan sykur... Finnst hrásykurinn þó betri :) 


fjólublátt himnaríki?

Til að lesa um hvernig ég hreinsa krukkurnar þá stendur það í blogginu um Krækiberjahlaupið


SHARE:

föstudagur, 24. ágúst 2012

Krækiberjahlaup

Ég er það heppin að ég á afa sem er gjörsamlega berjaóður!

84 ára er karlinn að týna tugi lítra af krækiberjum útum allar sýslur og í ár fékk ég 5 lítra af berjum hjá honum. Ég er nú ekki mikið fyrir að borða krækiber ein og sér, en finnst hins vegar krækiberjasaft og krækiberjahlaup algert sælgæti og ákvað því að gera hvorugtveggja í ár. 

Krækiberjahlaup er aðeins meira mál heldur en sultan þar sem við þurfum að nota safann úr berjunum en ekki berin sjálf. Auðveldasta aðferðin er að skella berjunum í gegnum berjapressu og skilja þannig hratið frá berjunum en við sem höfum ekki lagt í svoleiðis kaup getum þrátt fyrir það búið til krækiberjahlaup! (það kostar bara smá vinnu í staðinn)


Grunn uppskriftin er þó svona 

1 líter berjasafi
1 kg sykur 

Þið farið svo eftir þessu þegar þið gerið hlaupið og breytið stærðunum eftir því sem þið hafið af saft, en hlutföllin halda sér 
(Ath að aftan á melatin pokunum er sagt að maður þurfi meira af meltatini en þetta, en þetta er nóg)

Ég byrja allaf á að skola berin og satt best að segja er mér næstum alveg sama þó örlítið lyng læðist með. Það mun alltaf verða sigtað frá hvort sem er.  

Til þess að fá safann úr krækiberjunum eru þau sett í pott og soðið upp á þeim í 20 mínútur. Þau eru ekki eins og bláberin sem springa sjálfkrafa við suðu heldur þarf svo að stappa á þeim með því áhaldi sem ykkur þykir best. Mér finnst best að nota kartöflustappara. Öll berin eru kramin þar til þau springa og gefa frá sér safann.





Þá er hratið sigtað frá með sigti eða með því að strengja taubleyju yfir skál og festa á börmunum með teygju eða bandi og gott er einnig að setja eitthvað ofan á hratið til að mynda smá meiri þyngsli á hratið (meiri safi! :) )


Svona er hægt að kaupa í Byggt og Búið, Húsasmiðjunni, Byko og á fleiri stöðum. 

Þetta læt ég standa yfir nótt.

Daginn eftir mæli ég saftina, helli henni í pott og sýð uppá henni með sykrinum í um 10 mínútur eða þar til sykurinn er uppleystur.

Ef ég vil gera krækibejasaft, þá helli ég henni þarna af og set í glerflöskur sem ég hef geymt (hvítlauksolíuflöskur t.d.) 

útí berjasafann + sykurinn í pottinum set ég Melatín duftið sem ég hef blandað saman við 2 msk af sykri svo að það hlaupi ekki í kekki í pottinum, sýð í 10 mín í viðbót og helli svo safanum í krukkur og loka krukkunum með því að tylla lokinu á.

Varðandi það að sótthreinsa krukkurnar þá hef ég ekki farið í þær aðferðir sem margir nota... S.s. þær að t.d. þvo krukkurnar og setja þær svo í stóran pott fullan af vatni og sjóða þær í einhverjar mínútur, þvo þær og setja þær í 100°C heitan ofn í klst og örugglega til fleiri aðferðir.

Ég einfaldlega þvæ krukkurnar annað hvort í mjög heitu vatni í höndnum eða í uppþvottavélinni og læt þar við sitja.  Ég geymi krukkurnar svo í skáp og geymast þær í rúmt ár án þess að hlaup/sulta skemmist hjá mér og þess vegna hef ég ekki breytt út af þessum vana







Munið að henda aldrei glerkrukkum :)


og 

Munið að vera í svörtum fötum á meðan þið standið í þessu stússi ! (Krækiberjasafi litar!)


Uppskrift af Bláberjasultu Hér
SHARE:

fimmtudagur, 12. apríl 2012

Næturvaktir

Aðal ástæðan fyrir bloggleysi þessa dagana er fyrst og fremst aðeins of margar næturvaktir á Bráðamóttökunni. Næturvaktir eru reyndar afar skemmtilegar stundum og það besta kannski við þær er að þar er enginn sofandi (nema kannski örfáir sjúklingar) eins og á öðrum deildum eða heilbrigðisstofnunum, enda koma sjúklingar á öllum tíma sólarhringsins eins og þið kannski getið ímyndað ykkur.  Andinn er góður og það ríkir viss stemning að vera á næturvöktum. 

En

Þegar maður vaknar eftir 3. eða 4. næturvaktina uppúr 16 á virkum degi. Hvað á maður þá að fá sér að borða? 

a) ekki meira ristað brauð með osti  -takk
b) morgunmat? kornfleks? úff... og ekki búin að borða almennilega máltíð í 3 daga?
eða 
c) 




Ég held að þetta sé ein besta byrjun á degi eftir næturvakt sem hugsast getur !


Grísk jógúrt með hlynsýrópi og kornfleks
Pera, panani og jarðarber
Ristuð beygla með osti og heimagerðu krækiberjahlaupi og hin með skinku
Latté


mmmm!!!

En

Mig langar að minna ykkur á að like-a fb síðuna hér til vinstri á síðunni. Þar missið þið ekki af uppskriftum eða bloggum
(ég set líka inn uppskriftir sem ég finn á netinu og finnst áhugaverðar og þess virði að prufa)


SHARE:

föstudagur, 27. janúar 2012

Heit pizzaídýfa





Hugmyndin er einföld og afraksturinn er góður :) 
Það eru sjálfsagt allir búnir að smakka rjómaosts-salsa ídýfuna sem flestir hafa verið að gera í saumaklúbbum og partýum síðustu ár. 
Þessi ídýfa er kannski meiri elíta enda þarf aðeins fleiri hluti til að setja hana saman heldur en salsaídýfuna (sem fær alveg gullorðu fyrir einfaldleika). Að sjálfsögðu er það ykkar val hvaða álegg þið setjið á pizzaídýfuna svo að það þurfa ekki að vera jafn margar tegundir og ég kaus að setja. 


Rjómaostablöndu er smurt í botninn og pizzasósunni dreyft yfir í smá slettum og svo varlega strokin út yfir rjómaostblönduna þannig að þetta verður í 2 fallegum lögum. Setjið svo álegg að eigin vali yfir pizzasósuna
Stráið einnig smá af uppáhalds ítalska/pizza kryddinu ykkar yfir áleggið áður en þið setjið ostinn.  

stráið ost og parmesan yfir og bakið í ofni þar til að osturinn er bubblandi og brúnn í könntunum 



berið fram með ritzkexi, niðursneiddu baguette eða tortilla snakki. Best er að hafa skeið í ídýfunni svo að fólk geti skammtað sér beint á disk eða mokað upp á kexið/brauðið/snakkið

Uppskrift: (fyrir um 6-8) 


1/3 askja rjómaostur
1/2 bolli sýrður rjómi
1/2 bolli rifinn mozzarella ostur
1/4 bolli rifinn parmesan ostur (má sleppa)
1 bolli pizzasósa 
smá pipar og salt

álegg: 
Skerið allt niður í litla ferninga og reiknið með 4 msk af hverju
pepperoni
laukur 
skinka 
sveppir
ítalskt krydd

annað:
ólífur
paprika
hvítlaukur (ekki 4 msk þó!)

Yfir:
1 bolli mozzarella
1/4 bolli parmesan (má sleppa)

Aðferð: 

-Hrærið upp í rjómaostinu í skál til að mýkja hann. Hrærið einnig aðeins upp í sýrða rjómanum áður en þið blandið honum saman við rjómaostinn. Bætið við mozzarellaosti og parmesan, saltið og piprið aðeins blönduna (þarf meiri pipar en salt). Dreifið úr blöndunni í eldfast mót. 
-Dreifið úr pizzasósunni yfir rjómaostablönduna.
-Stráið jafnt yfir álegginu sem þið kjósið að nota, þekið áleggið með mozzarellaosti og parmesan og skreytið svo réttinn með nokkrum pepperonisneiðum
-Bakist við 180°C í um 20 mínútur eða þar til ídýfan er fallega brún í könntum og bubblandi heit 

enjoy ! 





SHARE:
Blog Design Created by pipdig