miðvikudagur, 4. maí 2016

Grískar kjúklingabringur

Gómsætar kjúklingabringur sem henta vel í matarboð. Auðvelt að undirbúa jafnvel deginum áður(fyllinguna eða setja allt saman) ef það er lítill tími til stefnu daginn sem gestirnir koma.

en hey.. þetta er sko ALLS ekki bara til að bjóða gestum í mat! :) Þetta er líka gómsætur matur fyrir alla fjölskylduna!


Í raun er þessi uppskrift afskaplega auðveld í framkvæmd. Það er líka eitt hentugt við hana að þú notar ca hálfa fetaostskrukku og hálfa ólífukrukku svo að þú átt eftir í einn heilan skammt í viðbót seinna meir. 


Byrjið á að setja fyllinguna saman í skál, fetaost, rauðlauk fínt saxaðan, saxaðar ólífur, hvítlauk, steinselju. 
                                        

Blandið kryddblönduna og kryddið kjúklingabringurnar báðum megin Skerið vasa í kjúklingabringurnar og setjið fyllinguna í. Ég læt þær svo standa upp á hlið í eldföstu móti, þá fellur fyllingin ekki úr. 

Eldið í ofni á 180°C í um 35-40 mínútur eða þar til fulleldaðar. 

Fylling í 4 bringur
2 dl fetaostur (ca hálf krukka) - ekki olían með
1/2 rauðlaukur saxaður smátt
3 msk söxuð fersk steinselja (mælt eftir að búið er að saxa hana - ég nota flatlaufasteinselju (ítalska) sem ég rækta sjálf en fæst orðið í flestum búðum)
4 helmingar af sólþurrkuðum tómötum, saxaðir
1 - 1,5 dl ólífur, (mælt áður en þær eru saxaðar)
2 hvítlauksrif, rifin eða kramin

Kryddblanda
1/2 tsk salt
1 tsk pipar
1 tsk hvítlauksduft
2 tsk oregano eða ítölsk kryddblanda

Aðferð: 
-Ég nota sömu uppskrift hvort sem ég set fyllinguna í 3 eða 4 bringur ;) 
-Blandið öllum innihaldsefnum í fyllinguna saman í skál. 
-Útbúið kryddblönduna í skál, (ath að nota hvítlauksduft en ekki hvítlaukssalt!). Kryddið kjúklingabringurnar báðum megin (oftast einhver afgangur af kryddi)
-Skerið vasa í bringurnar og setjið fyllinguna í. 
-Látið bringurnar standa upp á hlið í eldföstu móti og setjið inní 180°C ofn í 35-40 mínútur eða þar til þær eru gegneldaðar 

Tillögur að meðlæti
-Sætar kartöflur skornar í teninga og kryddaðar með restinni af kryddblöndunni + ólífuolíu og bakaðar í sama tíma og bringurnar. 
-Kúskús
-grænt salat 
-Gott er að gera sósu úr soðinu af rennur af bringunum.
SHARE:
Blog Design Created by pipdig