laugardagur, 15. september 2018

Steiktar Edamamebaunir

Uppáhalds snakkið síðastliðnar vikur og loksins kemur uppskriftin hingað inn 😊

Edamamebaunir eru orðnar vinsælt snakk á flestum veitingastöðum og það er svoldið síðan frosnar Edamamebaunir fór að fást frosnar hjá öðru frosnu grænmeti í Krónunni. Síðan þá hef ég verið að prufa mig áfram með uppskriftir hérna heima og fyrir nokkrum síðan tókst mér að fullkomna uppskriftina (að mínu mati)

Gjörið svo vel

Uppskrift
1 poki Edamamebaunir (400 gr)
2 msk olía
1-2 rif hvítlaukur (kraminn eða rifinn)
1/2 tsk chilliflögur
2 msk tamarisósa
1 tsk sesamolía
2 msk saxaður ferskur kóríander
saltflögur eftir smekk


Aðferð:
-ATH, þið eruð aldrei að fara að setja hitann á pönnunni upp í mikið meira en 3/4 upp í hæsta. Helst hafa hana bara miðlungsheita þar sem það er bara markmið að elda baunirnar en ekki steikja þær og brúna. Hvítlaukur er fljótur að fá beiskt bragð ef hann eldast um of og tamarisósan á að þykkna og verða að sírópi en ekki brenna við pönnuna.

-Setjið frosnar eða þiðnaðar baunir á miðlungsheita pönnu með 2 msk af olíu til að steikja uppúr. Veltið þeim reglulega.
-Bætið krömdum hvítlauk útá (ef rifin eru lítil set ég 2, annars set ég 1)
-Bætið chilliflögum útá (hér má vissulega setja minna. Ég kaupi mínar chilliflögur í Tiger)
-Bætið tamarisósu útá. (hún er bragðsterkari en soya sósa og þess vegna vel ég hana. Hér má vissulega nota soyasósu í staðinn)
-Veltisteikið áfram þar til tamarisósan hefur þykknað og hvítlaukurinn er eldaður.
-Bætið sesamolíunni útá og slökkvið undir hitann.
-bætið söxuðum kóríander útá og veltið öllu saman.
-Áður en allt er fært yfir í skál, stráið saltflögum yfir allar baunirnar (mér finnst gott að hafa þetta nokkuð salt - minn smekkur). Þið prufið ykkur bara áfram og það er lítið mál að bæta salti við eftirá.
-Færið yfir í skál. Það er ekki nauðsynlegt að skafa alla olíu, hvítlauk og chilliflögur af pönnunni. Bragðið er komið :)
Þetta eru baunirnar sem ég kaupi í Krónunni

Allt steikt á miðlungshita á pönnu 

Bæta kóríander og sesamolíu útá 


Sett í skál og smá auka salti stráð yfir 





Enjoy 😙





SHARE:

laugardagur, 21. júlí 2018

Kjúklingaborgarar með ferskum kóríander


Ferskt á bragðið og djúsí. 
Mjög skemmtileg tilbreyting frá nautahakksborgurum :) 


Hægt er að nota borgarana eina og sér með meðlæti, sem borgara í pítubrauð (og nota þá jafnvel tzatziki sósu í stað pítusósu) eða sem tilbreyting í buffi á hamborgarann. 


Blandið saman öllum innihaldsefnum í skál
Látið kjötdeigið standa í 30 mín (ekki í ísskáp). 

Steikið á pönnu við miðlungs hita (eða grillið) 


Uppskrift:
gerir 5 stk 

500-600 gr kjúklingahakk (fæst t.d. í Nettó) 
1/2 laukur saxaður fínt 
1 hvítlauksrif saxað smátt
1 dl brauðmylsna 
1 egg  
1 dl saxað kóríander 
1 msk paprikukrydd
1/2 tsk chilipiparkrydd 
2 tsk saltflögur 
pipar eftir smekk 

Aðferð: 

-Allt sett saman í skál og blandað saman með sleif eða höndum. 
-Mér finnst gott að láta kjötdeigið standa í 30 mín til að láta kryddin og kóríander bragðbæta kjötið enn betur. 
-Vigtið 150 gr af kjötdeigi, mótið í kúlu og fletjið út með lófunum á milli 2ja handa eða notið hamborgarapressu. 
-Steikið á pönnu með 4-5 msk af olíu til að fá þá extra krispí. Varist að hafa pönnuna of heita því þá verða þeir of dökkir að utan áður en þeir eldast í gegn. 

Smá tips...
-Það er vissulega hægt að grilla buffin 👍
-Ekkert mál að útbúa fyrirfram og taka með sér í útilegu ef maður vill tilbreytingu frá venjulega grillmatnum þar 😀
-Tryllt að bæta við fínt söxuðu fersku chili. 💥
-Ef þú ert ekki hrifin/nn af kóríander þá skaltu setja sama magn af ferskri ítalskri steinselju (flatlaufa steinselju). 


Pítubrauðin sem ég notaði hérna má finna hér á síðunni 

Mæli svo auðvitað með að þið fylgið mér á instagram og í instastories ;)  :) 


-
SHARE:

laugardagur, 2. júní 2018

Kartöflugratín







Kartöflur, hvítlaukssósa, ostur! 

Ég veit alveg hvaða kartöflurétt þið ættuð að gera með steikinni um helgina. 

Þennan. 


Kartöflugratín 
fyrir u.þ.b. 6
4 bökunarkartöflur 
3,75 dl rjómi
1,25 dl mjólk
2 msk hveiti
4 hvítlauksrif (rifin, kramin eða söxuð smátt)
1 tsk salt
nýmalaður svartur pipar eftir smekk (gott að hafa svoldinn slatta!) 
1-2 bollar rifinn ostur

(einnig gott að setja ferskt saxað rósmarín eða timian) 


Já. æðislegheitin eru ekki flókin.


Samsetningin er líka auðveld. 


Takið bökunarkartöflurnar (skrælið ef þið viljið) og skerið þær í sneiðar og svo í minni bita, (eins og pizzusneiðar).

Blandið rjóma, mjólk, hveiti, hvítlauk, salti og pipar saman í skál hrærið saman. 


Setið helminginn af kartöflunum í eldfast mót og hellið helmingnum af rjóma,hvítlauksblöndunni yfir. Skellið svo (varlega! ) restinni af kartöflunum útí og hellið yfir restinni af rjómblöndunni yfir. 


Setjið álpappír yfir mótið og inn í ofn á 200°C 


Ath að þetta gratín tekur langan tíma, þarf sjálfsagt að byrja á því töluvert á undan aðalréttinum í matnum þ.e.a.s. ef það stendur ekki til að gera lambalæri eða annað slíkt). 


Eftir 50 mínútur takið þá álpappírinn af og setjið eins mikinn ost yfir og þið viljið (ég: mikinn), látið brúnast áfram í 10-15 mín 



Ekki fá panic kast ef ykkur finnst þetta of þunnt þegar þið takið þetta útúr ofninum. Þetta þykknar aðeins við að standa og það er í raun nauðsynlegt að láta þetta standa í ca 10-15 mín áður. annars er þetta bara OF heitt !


Njótið :) 

SHARE:

sunnudagur, 20. maí 2018

Túnfisksalat - það besta!


Frábært túnfisksalat, auðvelt og klikkar aldrei. 


Já, ég ætla að vera svo kræf að segja að þetta sé besta túnfisksalat sem þið hafið smakkað. 
Það er svo ljúffengt að fólk sem heldur því fram að það borði ekki túnfisk og hvað þá niðursoðinn túnfisk í túnfisksalati hefur skipt um skoðun eftir að hafa smakkað þetta! 😀





Ég hef gert þetta túnfisksalat svo vandræðalega oft að það er skrítið að ég hafi aldrei komið því verk að setja uppskriftina hér inn. 
Raunar er ein túnfisksalatsuppskrift hér nú þegar en hún er allt öðruvísi og meira til þess að henda einhverju saman með nánast engri fyrirhöfn.

Þetta túnfisksalat er öðruvísi en öll önnur að því leitinu til að hér er ekkert majónes og í staðinn fyrir það er notaður sýrður rjómi og kotasæla. 






Uppskrift: 

3 egg 
1 dós túnfiskur í vatni 
1/2 rauðlaukur (eða 1 skarlottulaukur) 
1 dós sýrður rjómi (% tala skiptir ekki máli) 
1 lítil dós kotasæla (ef maður á stóra kotasæludós þá notar maður tómu dósina af sýrða rjómanum til að mæla magnið, eins og ég gerði hér sjá mynd) 

Krydd: 
hér gilda engar mælieiningar nema smekkur hvers og eins 

Karrý 
Laukduft 
hvítlauksduft 
Aromat 
(stundum set ég líka lawry's og/eða paprikukrydd



Innihaldsefnin 

Aðferð: 

-Sjóðið 3 egg og kælið, skerið í smáa bita 
-Skerið laukinn, mjög smátt. (myndband hvernig það er gert er hér)
-Hellið vatninu af túnfisknum og brjótið hann upp í smáa bita 
-ATH mikilvægt: Kryddið þetta saman áður en sósan fer útí. 
-Blandið kotasælu og sýrðum rjóma saman við og hrærið saman. 





Setjið egg, rauðlauk og túnfisk saman í skál 

Kryddið blönduna áður en sósunum er blandað útí 

Hrærið vel saman kotasælu og sýrðum rjóma 


psst. TUC kexið sem er með salt og pipar er fullkomin pörun með þessu salati 

SHARE:

þriðjudagur, 23. janúar 2018

Asískt núðlusalat


Flestir eru vanir að fá sér núðlurétt en það kannast ekki margir við að elda eða borða  núðlusalat. Þetta asíska núðlusalat er með vissa skírskotun til Víetnam í hráefnavali og einkennist af hvítlauk, stökku salati, mjúkum núðlum og gómsætum kjúkling sem toppar bragðið.
Þessi réttur er fljótlegur og skemmtilegur í matarboð þar sem það þarf litla fyrirhöfn að hafa fyrir honum, er ódýr, hollur og slær alltaf í gegn. Einnig hentar rétturinn vel til þess að útbúa í nesti.
Öll hráefnin fást í flestum stórmörkuðum fyrir utan Vermicelli hrísgrjónanúðlurnar, þær fást í flestum asíubúðum.

Persónulega set ég oftast meira af kóríander heldur en uppskriftin segir til um en það er algerlega af því að ég elska kóríander. Einnig á ég það til að setja mikið chilli í dressinguna ef ég vil hafa þetta sterkara en uppskriftin gefur upp.



Fyrir 4

Marinering fyrir kjúkling

2 kjúklingabringur skornar í tvennt
2 msk sojasósa
1/2 msk fiskisósa
1 msk limesafi
2 msk matarolía
2 skarlottulaukar saxaðir fínt
2 hvítlauksgeirar saxaðir fínt
1 tsk salt
1 tsk svartur pipar

Salat
1 lítill iceberghaus
2 gúrkur
1 dl söxuð fersk mynta
1 dl saxaður ferskur kóríander
1 dl saxaðar salthnetur

Dressing fyrir salat
4 msk fiskisósa
3 msk limesafi
120 ml vatn
1 hvítlauksgeiri saxaður fínt
1/2 chilli saxað smátt (meira eða minna eftir smekk)
2 msk matarolía




Skera kjúklingabringurnar í tvo jafnstóra hluta 


útbúa marineringu fyrir kjúklinginn
útbúa dressingu 

steikið kjúklinginn á vægum hita (annars brennur marineringin)
útbúið salat á meðan



allt í salatið er skorið/saxað niður og sett í skálar 



núðlur soðnar eftir leiðbeiningum, sigtaðar og settar ofan á salatið 
Kjúklingur skorinn í sneiðar og settur ofan á núðlurnar 


dressingu hellt yfir 


Aðferð

1. Skerið kjúklingabringurnar 2 í 2 jafnþykkarsneiðar hverja (4 sneiðar samtals)
2. Blandið öllum innihaldsefnum fyrir marineringuna saman og þekið kjúklingabringurnar. Látið standa í skál á borði í 1 klst.
3. Útbúið salatdressinguna með þvi að blanda öllum innihaldsefnum saman í skál og hræra vel. Gott er að gera dressinguna rétt eftir að maður marinerar kjúklinginn svo að hún taki vel í sig bragðið af hvítlauknum og chilli.
4. Steikið kjúklinginn á pönnu þegar hann er búinn að marinerast. Ekki hafa of háan hita því þá brennur hvítlaukurinn. Snúið reglulega.
5. Á meðan kjúklingurinn er að eldast í gegn skal sjóða núðlurnar eftir þeim leiðbeiningum sem gefnar eru upp á pakkanum og skolið svo með köldu vatni.
6. Sneiðið iceberghausinn í mjóa strimla, gúrkurnar í þunnar sneiðar, saxið kryddjurtirnar og salthneturnar (Má vera búið að þessu áður og geyma þar til kjúklingurinn er eldaður).
7. Þegar kjúklingurinn er eldaður er best að skera hann í strimla.
8. Setjið salatið saman í 4 skálar í þessari röð: iceberg, gúrka, mynta, kóríander, núðlur, kjúklingabringa og salthnetur.

9. Borðið á borð og hver og einn setur dressinguna yfir sjálfur. Reiknað er með ca 30-40 ml á mann.

SHARE:
Blog Design Created by pipdig