miðvikudagur, 26. maí 2010

Fjarverandi

í nokkra daga.
Ég verð nefnilega með sólarvörn í annarri og kokteil í hinni á Marmaris þar sem allt er included! Get ekki beðið. Við eigum þetta skilið :)
SHARE:

Flýti mér kannski um of að verða fullorðin...

Ég nefnilega keypti minn fyrsta bíl í dag (ég er þó ekki búin að vera bíllaus sl 8 árin). Nýi bíllinn er sko ekki af verri endanum.
Mitsubishi Pajero GLS. 3.2 Turbo diesel DID árg 2001 á 31" dekkjum .... Leðurklæddur, topplúga, rafmagn í öllu... og aðeins keyrður 115 þúsund. Hann verður þó vonandi ekki á 31" of lengi enda er planið að lyfta honum aðeins og skella 33" undir þegar þessi dekk verða ónýt

Þetta er svo mikil græja að ég bakka orðið í öll stæði og keyri um með topplúguna opna


Einn hængur er þó á bílakaupunum. Ég er með svo mikið samviskubit yfir því að kaupa mér tveggja milljóna króna bíl og fara til Tyrklands í 10 daga í sömu vikunni að ég þori næstum ekki að segja frá þessu !! (var svo hjúkrunarstarfið ekki ÖRUGGLEGA hálaunastarf??) 

en ég er ánægð með kaggann og tek mig ansi vel út í honum. Sumarfríið verður flott í svona rúmgóðum og fínum bíl! 

SHARE:

mánudagur, 24. maí 2010

Ofnbakaður fiskur í tómatasósu

Mér finnast tómatasósur, gerðar úr niðursoðnum tómötum alveg gífurlega góðar. Sérstaklega finnast mér ítalskar tómata-pastasósur vera góðar og einnig finnst mér bragðgóð og chunky tómatasósa gera saltfisk að veislumat!

maður þarf örlítið að losna við hugmyndina sem orðið tómatsósa læðir að hjá manni.... Þetta er alls ekki hunt's tómatssósa í flösku :) Tómatasósan í þessum rétt er svo einföld að hún er frábær byrjun fyrir byrjendur.

Þessi réttur er búinn til í nokkrum þrepum en er að lokum settur allur saman í eldfast mót og settur ostur yfir... (Bráðinn ostur kemur mér næstum því hálfa leið til himnaríkis, ég sver það!)

Í réttinn notaði ég 600 gr af þorski sem Valgeir tengdapabbi veiddi. Þar sem ég kem úr Vík er ég ekki vön því að geta fengið ferskan fisk eða mjög góðan og fallegan fisk nema kannski í frosnum blokkum í kaupfélaginu. Þess vegna er ég svo ánægð með að eiga tengdpabba sem veiðir fisk og færir okkur af og til örlitla björg í bú. Einnig útbýr Valgeir saltfisk sem gerir mig einnig mjög glaða... Ég ELSKA saltfisk (í góðu hófi þó). Þó að ég noti þorsk þá má auðvitað nota ýsu.

Ég notaði íslenskt bankabygg í þennan rétt þar sem mér finnst það svo gott. Sjálfsagt er að nota hrísgrjón er þið viljið en ef þið hafið ekki prufað íslenska bankabyggið þá ættuð þið kannski að grípa tækifærið og gera það núna. Bankabygg þarf um 40 mínútna suðu. Hlutföllin eru 1 dl af bankabyggi á móti 3 dl af vatni.
Vegna þess hve langan suðutíma byggið þarf þá þarf að byrja á því að setja það í pott og koma upp suðu.

Næst er fisknum er velt uppúr hveiti sem hefur verið saltað og piprað og síðan steiktur í olíu á pönnu. Þegar búið er að steikja fiskinn er hann lagður til hliðar. Ef þið eruð ekki viss um hvort að hveitið sé nógu vel kryddað skulið skera smá bita af fisknum til prufu, velta honum uppúr hveitinu og smakka.

Þá skuliði gera sósuna sem fer yfir réttinn:
Fyrst er að saxa laukinn mjög smátt. Þið eruð vonandi búin að læra að saxa lauk frá því í póstinum um túnfisksalatið ? (ef ekki, þá skuliði skoða þann póst). Laukurinn er steiktur í 2-3 mínútur á pönnu, setjið karrý útá laukinn og steikið aðeins betur. Með því að steikja karrýið aðeins aukiði bragðið af því og það verður betra. Í indverskri matargerð eru öll krydd réttarins oftast steikt saman í olíu áður en hafist er handa við að bæta matartegundum útá pönnuna.  Út á karrýgula-laukinn hellið þið úr einni niðursuðudós af  Newman's Own Five Cheese sósu. Hitið þetta saman þar til að það sýður og kryddið með salti og pipar. Þetta má vera frekar aðeins of salt heldur en vansaltað.


Hér eruði vonandi komin með soðið bankabygg, steiktan fisk og gómsæta tómatsósu.

þá skuliði setja fiskréttinn saman


Hellið bankabygginu í botninn á eldfasta mótinu og raðið fiskstykkjunum þar ofaná 

Hellið tómatsósunni yfir fiskinnn og stráið ostinum yfir

Bakað inní ofni sem stilltur er á yfir og undirhita og á 200°C þar til að osturinn bráðinn.. Ekkert kjaftæði með að hita þetta í 10 mín eða 7.6 mín eða já... einhvern tíma.. Osturinn þarf bara að verða smá litaður og rétturinn á að bubbla af hita...

takið réttinn út og berið fram með salati 

Uppskrift:

2 dl bankabygg
600 gr þorskur/ýsa
(ca 3 dl hveiti + salt og pipar)
olía til að steikja fiskinn uppúr
2 venjulegir laukar
1 tsk karrý
1 dós af Newman's Own Five Cheese sósu
salt og pipar
rifinn ostur, nægur til að þekja réttinn eða eins mikill og þig langar í. 

Gjörið svo vel 




SHARE:

laugardagur, 22. maí 2010

Næsta blogg

Ég er að hugsa hvað ég eigi að blogga um næst. Ég er nefnilega með fullt af myndum í tölvunni tilbúnar til þess að blogga við.

Held samt að ég láti þetta vera eins fjölbreytt og ég get svona þegar ég er að byrja og bloggi um mjög bragðgóðan ofnbakaðan fiskrétt....

eða hvað ?
SHARE:

föstudagur, 21. maí 2010

Rosalegar súkkulaðimuffins




Góðar, stórar, mjúkar muffins með crunchy topp... 


Þetta er ekki flókið mál :) just do it 
Þó svo að ég notist við venjuleg muffinsform þá er einnig kjörið að nota stærri muffinsform eins og er farið að fást í nokkrum búðum núna (t.d. eins og Allt í köku) og þá færðu muffins sem líta út eins og þú hafir keypt þau í bakaríi! :) 





Smjörlíki, sykur og púðursykur vigtað saman í skál



Það er þeytt vel saman í 3-4 mínútur. Einn daginn ætla ég mér ða leggja þessum handþeytara. Hann hefur þó staðið sig ansi vel hingað til. Allur bakstur tekur bara lengri tíma og maður þarf að standa við skálina allan tíman. Væri ekki slæmt að eignast kokka-stærð af Kenwood vél einn daginn (ekki með 50 lítra skál þó). Þennan þeytara fékk ég í innflutningsgjöf frá Döggu frænku þegar ég flutti inná Holtsgötuna 2001 ásamt Þorbjörgu og Pálma... good memories!




Eitt egg og þeyta vel 



Annað egg og þeyta AFTUR vel



Þurrefnin eru vigtuð saman í aðra skál. Stundum gerist ég svo dugleg að ég sigta öll þurrefnin saman. Einhverstaðar las ég það nefnilega að þannig EIGI að baka kökur. Ég hef hreinlega ekki mikla skoðun á því en þegar ég hef lesið nokkrum sinnum að til að búa til "cake flour" þá eigi að sigta hveiti 3x og reyndar bæta út í hvern bolla af hveiti 2 msk af maisenamjöli (og fjarlægja 2 msk af hveiti úr hverjum bolla í staðinn). Þarf að prufa þetta einhverntíman. Svona kökuhveiti á að vera ávísun á "Cakes that are light and fluffy and so much better"



Hrærið þurrefnum og mjólk saman við
Mitt trick á að gera mjúkar og loftfylltar kökur er að hræra deigið SEM MINNST ! Já. Það er meira að segja ástæða fyrir því. Sé kökudeig hrært of mikið saman þá binst glúteinið í hveitinu. Það vill maður ALLS ekki. Það er eitthvað sem maður vill að gerist þegar maður bakar brauð, ekki í kökum. Maður getur séð það í kökum sem hafa verið hrærðar of lengi að það eru stór loftbólugöt í kökunni eða jafnvel loftbólugöng í gegnum kökuna. Það er þess vegna nóg að hræra degið saman svo að það blandist saman og ekki skreppa í burtu í 3 mín með hrærivélina í gangi.



Muffinsformaplatti er nauðsynlegt... Ég hélt að það væri engin nauðsyn. En jú. Hef komist að því að það er nauðsyn. Í muffinsformi getur maður gert STÓRAR muffins og ég meira að segja fylli formin alveg upp á brún, þið sjáið á eftir af hverju það er allt í lagi :) ég þarf samt að fara að æfa mig í að gera cupcakes. Hingað til hef ég aðeins verið að gera muffins. Það er svolítið erfitt að skilgreina muninn þar á milli en hann felst aðallega í því að cupcakes er minni kaka, með sléttari toppi og mjög oft skreytt fallega. Muffin er stærri kaka, með stærri "hatt" og er ekki alltaf í brauðformi. Þessar kökur sem ég gerði voru klárlega muffins. 
Þetta er dæmi um cupcake:



En já.. þarf að æfa mig í því bráðum. Hef gert nokkrum sinnum en ekki tekið neinar myndir af þeim so far.

Já ég var ekki að grínast... ég fyllti formin ALVEG... og hvað gerist þá? sjáiði næstu mynd!


oh my... oh my... rosastórar muffsins með "crunchy" topp. 


namm!




Muffins þarf ekki endilega krem eða glassúr. En mér finnst það betra. 
Hér nota ég venjulega súkkulaðikökukremið mitt en gerði bara 1/3 af uppskriftinni. Ég sprautaði svo mismunandi mynstur á hverja köku.

Munið svo að deila með ykkur og fá ykkur kalda mjólk með .... 



Uppskrift:

150 gr sykur
150 gr púðursykur
125 gr smjörlíki
2 egg
260 gr hveiti
1/2 tsk salt
1 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
40 gr kakó
2 dl mjólk 

bakað við 180°C í  ~20 mínútur
gerir 12 muffins

(þetta krem geri ég vanalega en set mismikið af því. Vanalega geri ég þó bara um 1/3-1/2 uppskrift af kreminu)

Krem:

500 gr flórsykur
80 gr smjör brætt
60 gr kakó
1 tsk vanilludropar/extract
1 stk egg
2 msk kaffi
heitt vatn ef það þarf að þynna kremið aðeins.

nokkrir punktar: 
  • Hægt er að nota flestar kökuuppskriftir til að búa til muffins. Athuga þarf þó að ef deigið er mjög þunnt þá er ekki hægt að fylla formin alveg því að topparnir renna allir saman í eina köku þegar deigið lyftir sér. 
  • Gulrótarkökur eru tilvaldar til að gera muffins
  • Eigirðu ekki pappírsform má nota smjörpappír sem kipptur er í ferninga og stungið ofan í muffinsformabakkann, einnig má sleppa pappírsformunum, það þarf þó að athuga að best er að láta kökurnar kólna aðeins áður en þú tekur kökurnar úr forminu þegar þær koma úr ofninum
  • Hægt er að bæta út í muffinsið súkkulaðidropum. Hvort sem er hvítu súkkulaði eða venjulegu. Stundum er bara bæði betra :)
Gjörið svo vel



SHARE:

fimmtudagur, 20. maí 2010

Ragna.is tekur nokkrum breytingum

Mér fannst síðan eiginlega ekki vera nógu vel upp sett fyrst að ég er farin að blogga um mat líka.

Helstu breytingarnar eru yfir höfuð heildarútlitið. Dálkarnir eru öðruvísi og litirnir aðeins öðruvísi. Ég á samt sjálfsagt eftir að breyta þessu af og til núna á næstunni.

Aðrar breytingar eru þær að ég hef sett upp síðulista sem heitir "Uppskriftirnar" og þar getiði klikkað til þess að skoða linka á þær uppskriftir sem tilheyra hverjum flokki fyrir sig

Neðar á síðunni getiði séð "Flokkar" en þar muniði getað valið hvern uppskriftarflokk fyrir sig og séð þá allar færslur í þeim flokki á einni síðu.

Í uppskriftaleitinni munið þið geta leitað að uppskriftum eða einhverju efni sem birst hefur á síðunni (það er nóg af efni til að leita að og lesa á þessari síðu,  enda á bloggið 7 ára afmæli í ár!)

og hvernig lýst ykkur svo á ?

p.s.
Næsta uppskrift mun birtast á föstudaginn og ég get sagt ykkur núna að hún mun gera ansi marga svanga
SHARE:

miðvikudagur, 19. maí 2010

Hollara túnfisksalat


Þetta salat er mun hollari útgáfa af venjulegu túnfissalati.

Ekkert majones er notað og í staðinn er notuð kotasæla og sýrður rjómi


Það lítur meira að segja út eins og venjulegt túnfissalat

Ansi gott með Ritzkexi... 


Aðferð:
Túnfiskurinn brotinn vel í sundur og settur í skál ásamt kotasælu og sýrðum rjóma. Eggin skorin niður í litla bita eða sett fyrst langsum og svo þversum í eggjaskera. 
Laukurinn skorinn MJÖG smátt (Til að læra að skera lauk skoðið þá þetta myndband). Öllu er hrært vel saman og kryddað eftir smekk. Mér finnst best að setja karrí aukalega. 


Uppskrift: 

1 dós af túnfiski í vatni 
1 dós af kotasælu
1/2 dós af 5% sýrðum rjóma
3 egg (eitt egg bara eggjahvíta) 
1/2 laukur, saxaður smátt
Salt og pipar eftir smekk
Ef til vill einnig Aromat + karrý


P.s. 
Rosalega gott að bæta við papriku og gúrku út í salatið. 



gjörið svo vel! 
SHARE:

mánudagur, 17. maí 2010

Tómatsúpa

Einföld tómatsúpa og mjög kreppuvæn!



Fyrst er að steikja grófsaxaða laukinn ásamt 2 stykkjum af niðurrifnum hvítlauksrifjum, til þess þarf um 2 msk af olíu og jafnvel minna ef þið viljið. Setjið 1 lárviðarlauf útí og steikið aðeins í um 3 mínútur við miðlungs hita. 




Út í laukinn setið þið svo 2 dósir af niðursoðnum hökkuðum tómötum. Mega líka vera heilir, þetta fer jú allt í mauk að lokum. Í þetta er einnig bætt við 1 matskeið af púðursykri eða einhverskonar sætuefni. Ég salta líka og pipra þetta ríflega. 




Þegar tómatarnir hafa fengið að sjóða með lauknum, hvítlauknum og lárviðarlaufinu í um 10 mínútur þarf að mixa súpuna. Munið bara að TAKA lárviðarlaufið úr fyrst! Hægt er að nota töfrasprota, matvinnsluvél og jafnvel bara gamaldags kartöflustappara





Ég notaði matvinnsluvélina sem ég fékk í jólagjöf frá M&P




Þegar búið er að blanda þetta nægilega er súpunni hellt aftur í pottinn og bætt við 2 bollum af vatni auk 1 stk kjötkrafttening. Ég setti svo eina matskeið af þurrkaðri basilíku. Hefði ég átt ferska hefði ég að sjálfsögðu notað hana. Smakkið svo súpuna til. Ég bætti við auka kjötkrafti og pipar. 





Þetta varð svo afraksturinn. Restina setti ég í box og hitaði mér í hádegismat næstu 2 dagana.



Hvítlauksbrauðið var einfalt. Hvítlauksolía sett yfir brauðið (til í bónus), örlítitlu af salti og oregano stráð þar yfir og rifinn mozzarella settur yfir bæði brauðin. Þetta var svo sett á álpappír og undir grillið í bakaraofninum þar til að osturinn var bráðinn.



Verði ykkur að góðu

SHARE:

sunnudagur, 16. maí 2010

finally

Fyrsta matarbloggið kemur í vikunni....
SHARE:

föstudagur, 14. maí 2010

Jæks!

Deginum fram að hádegi eytt með stjúpsyninum og ræs kl 07.

Kynning á lokaverkefninu kl 13.45 í dag. 
Kvöldinu verður svo eytt með elsku hjúkkulingunum mínum sem  verða bráðum orðnir að alvöru hjúkkum. Í kvöld verður drukkið til að gleyma (því hve fullorðinn maður er allt í einu orðinn!?) 

Ég get ekki sagt annað en að ég sé afar ánægð með að vera loksins búin með skólann :) 

húrraaa!!

p.s. ég rústaði auðvitað bráðahjúkrunarprófinu (enda var öllum spurningum svarað í þetta skiptið)
SHARE:

mánudagur, 10. maí 2010

it's real!!!

Lokaritgerðin er 95% smollin saman... Skila henni í lokaskilum í kvöld/nótt/á morgun
Með því verður stóru fargi af mér létt og ég get farið að eiga mér líf aftur.

Bráðahjúkrunarprófið var þreytt í endurtekt í morgun og í þessu sinni ætla ég að láta einkunnina mína vera reiknaða út frá 10 en ekki 8.8. Ég sumsé taldi spurningarnar í morgun og svaraði þeim ÖLLUM! (ólíkt prófinu í fyrir 2 vikum). Ég geri líka ráð fyrir að hafa náð og þar með er mínum prófum lokið í námi mínu til hjúkrunarfræðings.

Dagskráin fyrir lokaverkefnisdaginn er líka komin inn og þar er mitt nafn á blaði.
Ég mun kynna mitt verkefni í stofu 101 kl 13.45




Ég verð þó að segja að niðurstöður mínar úr gagnaöflun um efnið hafi komið mér ansi mikið á óvart !
ef þið viljið vita meira þá get ég sent ykkur ritgerðina eða þið einfaldlega mætið upp í Eirberg á föstudaginn og fáið ykkur kökur og kaffi... (amk kaffi og kex)

Dagskrána fyrir kynningardaginn er hér 

Það er svoldið gaman að sjá loksins dagskránna með sínu nafni á. Ég er búin að skoða þessa fjárans dagskrá í maí hverjum síðastliðin 3 ár... LOKSINS er komið að mér :) og samnemendum mínum

sólarkveðja
Ragna
SHARE:

sunnudagur, 9. maí 2010

Beautiful Dangerous






Lag dagsins - Beutiful dangerous með Fergie af nýja Sólódisk Slash.






Lagið má svo ná í hér
SHARE:

laugardagur, 8. maí 2010

Sumarklippingin komin

Fyrir


Eftir
SHARE:

fimmtudagur, 6. maí 2010

Allt er vænt sem vel er grænt

Ég tók mér fyrirskipað frí í gær... Þó svo að ritgerðin sé tilbúin þarf ég því miður að taka eitt próf aftur. Ég féll nefnilega í bráðahjúkrun ! helvítis bömmer !  Það var þá prófið til að falla í eða hitt þá heldur
og enn meira ömurlegt að falla í fyrsta og eina prófinu sínu í síðustu prófatörninni.
Mér til örlítillar huggunnar þá féll ég þar sem ég sleppti óvart 3 bls af prófinu vegna þess að galli var í prófinu og að ég taldi ekki spurningarnar sem ég svaraði áður en ég skilaði.

já. mikill miskilningur, klaufaskapur og næstum því alfarið mér að kenna en á móti er það örlítil huggun að hafa fallið vegna þessa en ekki vegna þess að ég kunni ekki efnið nógu vel

Lítið hægt að gera í þessu nema að taka prófið aftur á mánudaginn og rústa því í staðinn. Mér til mestrar ánægju er bráðahjúkrun eitt af þeim fögum sem ég  hef mjög gaman af og er því próflestur nr 2 á efninu ekki að sliga mig.

og ég sem ætlaði að segja ykkur frá því að ég hefði tekið mér frí í gær ?  jæja, ég geri það þá núna

af kryddjurtunum er allt gott að frétta og hefur enginn bráður dauði verið yfirvofandi.

sko.... allt að gerast í pottunum ! 


Ég fór svo í gær og keypti mér jarðaberjaplöntur í gróðrarstöðinni Mörk. Mamma kom líka með mér og ég lét hana kaupa Hafþyrni (blogga um hann síðar) 

hvað ætla ég að gera við jarðarberjaplöntur ? ? 

sjáiði bara :)









svo er planið að setja þau útskot sem plönturnar mynda í gegnum botninn svo að á endanum verði öll grindin þakin jarðaberjaplöntum
en
ég sagði bara að það væri planið 


:)



SHARE:

mánudagur, 3. maí 2010

Þjóðhátíð 2010

þar verð ÉG!... (og Viðar)






og fyrsti bjórinn verður opnaður áður en komið verður til Eyja


Svo verður tjaldað í sama garði og 2007



Svo verður vonandi farið í bekkjabíl


Og svo verður skellt sér í brekkuna!


Og kannski verður dansað fram á morgun
(þessi mynd er tekin kl 06.15 á mánudagsmorgni)



Eitt er vonandi víst... að ég verð ekki skælandi í landi verslunarmannahelgina 2010 :)


SHARE:

laugardagur, 1. maí 2010

Kryddjurtir...

fyrir rúmum 2 vikum setti ég niður kryddjurtafræ... Fyrir þetta sumarið ákvað ég að sá

  • Graslauk
  • Salvíu
  • Basiliku
  • Timian
  • Oregano
  • Chili
  • Kóríander
  • Steinselju (flat leaf)
Hér sést timianið 7 dögum eftir sáningu. í bakgrunni sést basilikkan. Aðrar jurtir voru ekkert farnar að taka við sér þarna. Skelli inn mynd af jurtunum bráðlega eins og þær líta út núna. Það er nefnilega komið grænt uppúr öllum hólfunum 

Aukalega við kryddjutatilraunirnar er ég komin með einhverskonar tilraunarstarfsemi á jarðarberjarækt í gosdós... Gosdósin kom sumsé frá Amsterdam og í henni er sag og fræ (or at least it's supposed to be). Það verður spennandi að sjá hvað sprettur uppúr dósinni þegar á líður á sumarið.

Annars las ég það í Garðheimablaðinu að það er hægt að rækta jarðarber í veggpottum og hef síðan þá verið alveg harðákveðin að prufa það í sumar. Ég þarf bara tímann til þess að fara í gróðrarstöð og kaupa jarðarberjaplöntur og föndra saman það nauðsynlegasta í þennan veggpott...

nánar síðar

Streita og kvíði er þema síðastliðinnar viku. Bæði í mínu andlega og í lokaverkefninu.
Tæplega 12 þúsund orð komin og langt í land enn (segir leiðbeinandinn...) *crap*

Það hefði kannski verið streituminna að slepp kryddjurtaræktunum þetta sumarið. Þær eru alveg gífurlega stressandi skal ég ég segja ykkur...


Munu þær deyja eða ekki ? ? ? (gífurlega stressandi situation stundum)


Ræktun síðasta sumas tókst samt ágætlega svona þegar ég var búin að drepa allt einu sinni. Ég gafst þó ekki upp og sáði öllu upp á nýtt og skildi eftir nákvæmar leiðbeiningar á umhirðu barnanna kryddjurtanna ef ég brá mér af bæ í fleiri en einn dag til að forðast annað fjöldamorð.

Anyhow. Ég ætla samt að reyna mitt besta að klára þetta lokaverkefnishræ og útskrifast 12. júní.  Það þýðir ekkert að gefast upp núna. That's just not my style !

kv
Ragna Björg
SHARE:
Blog Design Created by pipdig