Látrabjarg
Á leið á kvöldskemmtunina á laugardeginum
Feðgar á kvöldskemmtun...
Förinni þessa helgina var heitið Vestur á firði þar sem bæjarhátíðin Bíldudals Grænar var haldin (auðvitað á Bíldudal).
Við lögðum af stað í fyrra fallinu á fimmtudeginum, sem betur fer, þar sem að það er löng ferð að keyra til Bíldudals... (úff)! Vegagerðin hefur ekki komist með malbikunarvélarnar sínar á nema hluta vegakaflanna frá Búðardal svo að förin var farin eftir holóttum vegum og í ryki. Rétt norðan við Búðardal hittum við á Mömmu og Pabba sem voru búin að vera á viku ferðalagi og við ætluðum öll á Bíldudal. Ég á engin sérstök tengsl við Bíldudal nema þá að langafi minn er grafinn þarna og bjó þarna í einhver á með seinni konu sinni. Fyrir ferðina höfðum við verið stressuð um veðrið þar sem að allar veðurspár sýndu 20°hita um allt land nema á Vestfjörðum þar sem spáði Rigningu á laugardeginum og sunnudeginum. Á fimmtudeginum leit veðurspáin samt betur út en alla vikuna og við ákváðum að slá á það og taka áhættuna. Mamma og pabbi væru þá með fellihýsi ef of blautt yrði á okkur.
Við vorum ekki komin á Bíldudal fyrr en upp úr 8 á fimmtudagskvöldinu og við reyndum að finna okkur tjaldstæði. Ákváðum að lokum að tjalda hjá íþróttahúsinu og hituðum pulsur í kvöldmatinn. Sólin skein fallega á fjörðinn og fjöllin á móti okkur en bærinn sjálfur var kominn í skugga.
Föstudagurinn vakti okkur með heitu tjaldi og við skriðum út og borðuðum morgunmat í sólinni. Dagurinn fór síðan í sólböð og stutta göngutúra um svæðið. Laugardagurinn var svosem svipaður þar sem við eyddum deginum á Bíldudal, tókum þátt í hátíðarhöldunum og lágum í sólbaði inná milli. Heim á leið keyrðum við svo á sunnudeginum, mjög ánægð með frábæra helgi og "renndum" við á Látrabjargi á heimleiðinni.
Leiðir skildu svo á Búðardal þar sem ég fór með foreldrunum til Reykjavíkur og aftur til vinnu á meðan Arnar og Viðar fóru norður í seinni vikuna þeirra í sumarfríi saman.
Eitt fannst okkur svoldið merkilegt um helgina og örlítið pirrandi. Þjónustuviðleitni Vestfirðinga var ekki að fá háa einkunn hjá okkur. í fyrsta lagi var leiðinlegasta kerling veraldar sem vann í íþróttahúsinu sem rukkaði 320 krónur fyrir að fara í sturtu og hún afhausaði þá sem fóru óvart inn á skónum. Fyrir utan íþróttahúsið var svo heitur pottur sem sturtugestum var frjálst að nota en þessi pottur var svo heilagur í augum starfsfólksins að í hvert sinn sem einhver fór uppúr pottinum var rokið til og breitt yfir hann dúk (eins og er settur yfir sundlaugar á næturnar). Mér finnst það nú afskaplega mikill óþarfi þegar það er 20°C hiti úti... ;) Kerlingin leiðinlega var samt örugglega montnasta skuringarkona í heimi og hún átti þarna svo merkilega stöðu sem klefavörður og rukkari að hún sat með uppásnúið trýni allan daginn og skipaði fólki að gera hitt og þetta með fýlusvip og hortugheita tón og það var ekki sjéns að semja við kellinguna.. óóó nei.
Fyrst var öllum á tjaldstæðinu bannað að nota klósettið innan íþróttahússins og var eina klósettaðstaðan á tjaldstæðinu því plastkamrar og hvergi var rennandi vatn. Eftir að margir höfðu talað við kerlinguna fengu gestir tjaldstæðisins að nota klósettið. en svarið var samt fyrst "þetta er ekki SKIPULAGT(!) tjaldstæði og kamrarnir eru það eina sem þið fáið að nota" Þarna kom fyrsti punkturinn í ruglinu. Við erum á bæjarhátíð, tjöldum hliðina á skilti sem segir "Tjaldvagnar/fellihýsi" og við fáum ekki vatn. Jæja, það voru 40 lítrar af vatni í fellihýsinu svo að við komumst í það að bursta tennurnar og þvo hendurnar úr öðru en vatni úr plastkamrinum... :)
annað áfall fékk ég þegar ég fór í EINU Sjoppuna í bænum. Vissuð þið að það er engin búð/kaupfélag/sjoppa á Búðardal? ? ? (!) nóp.. ekki ein! allir í bænum keyra hálftíma leið til Patreksfjarðar til að kaupa nauðsynjar. Í fyrstu fannst okkur það ekki hræðileg tilhugsun en þegar við keyrðum svo veginn á sunnudaginn þá liggur hann yfir 2 heiðar, snarbrattur og í beygjum og bugðum ÞÓ SVO að Bílddælingar lofsami það að vegurinn sé malbikaður... haha.. well... það ættu líka flestir vegir að vera það finnst mér.
Til þess að mæta neyðaruppákomum selur Café Vegamót, smá kaffihús þarna mjólk og jógúrt svo að enginn sveltu heilu hungri á Bíldudal. En áfallið já... ég fékk 10 klaka í poka og einn "Stínubjór" fyrir bjórinn borgaði ég 650 kr sem mér fannst ágætt verð en fyrir klakana borgaði ég 150 kr. eftir að hafa labbað í burtu frá Vegamótum snéri ég við og spurði stelpuna hvort að henni fyndist nú ekki helst til mikið að rukka 150 krónur fyrir 10 klaka!! ég fékk þá 100 kall til baka (victory) og flipp flappaði í sandölunum aftur í tjaldið og sá fyrir mér kalt hvítvín :)
síðasta þjónustuólundin varð uppvís á Patreksfirði þegar við vorum á leiðinni heim. á skilti hjá bensíndælunum var auglýstur ostborgari, sósa, franskar og kók á 1090. Ég pantaði 2 tilboð og benti á skiltið auk einnar pulsu. Fyrir þetta borgaði ég og hélt að ég fengi kókið með borgurunum. Sé ég svo að viðar er að kaupa kók því að kellan sagði að það fylgdi ekki kók með. Hann gafst of fljótt upp við að pexa við konuna og keypti sér kók þó svo að hann hefði bent henni á tilboðið úti á stétt en hún sagði að það væri ekki lengur í gildi. Ég fór því og talaði við konuna og benti henni á að ef að tilboðið hangi ennþá uppi þá sé það ennþá í gildi og hún með snúð á svip sagði okkur að taka kók úr kælinum sjálf. Eftir það þá sást konan rogast með níðþungt skiltið úr augsýn.. :) haha
Annars vorum við ekki þau einu sem lentum í þessari þjónustuólund Vestfirðinga svo að ég held að þetta sé ekki einsdæmi :) Bíldudalur þarf einfaldlega að læra að taka á móti gestum og læra að umgangast þá :) Og patró amk að læra að auglýsa ekki útrunnin tilboð :)
Veðrið á sunnudeginum var best yfir alla dagana og ég verð að viðurkenna að ég væri svosem til í að hafa smá sól í Rvk í dag. Sumarfríið mitt er búið og ég fer að vinna á morgun :)