mánudagur, 29. júní 2009

Bíldudals Grænar

Látrabjarg


Á leið á kvöldskemmtunina á laugardeginum



Feðgar á kvöldskemmtun...


jæja

Förinni þessa helgina var heitið Vestur á firði þar sem bæjarhátíðin Bíldudals Grænar var haldin (auðvitað á Bíldudal).
Við lögðum af stað í fyrra fallinu á fimmtudeginum, sem betur fer, þar sem að það er löng ferð að keyra til Bíldudals... (úff)! Vegagerðin hefur ekki komist með malbikunarvélarnar sínar á nema hluta vegakaflanna frá Búðardal svo að förin var farin eftir holóttum vegum og í ryki. Rétt norðan við Búðardal hittum við á Mömmu og Pabba sem voru búin að vera á viku ferðalagi og við ætluðum öll á Bíldudal. Ég á engin sérstök tengsl við Bíldudal nema þá að langafi minn er grafinn þarna og bjó þarna í einhver á með seinni konu sinni. Fyrir ferðina höfðum við verið stressuð um veðrið þar sem að allar veðurspár sýndu 20°hita um allt land nema á Vestfjörðum þar sem spáði Rigningu á laugardeginum og sunnudeginum. Á fimmtudeginum leit veðurspáin samt betur út en alla vikuna og við ákváðum að slá á það og taka áhættuna. Mamma og pabbi væru þá með fellihýsi ef of blautt yrði á okkur. 

Við vorum ekki komin á Bíldudal fyrr en upp úr 8 á fimmtudagskvöldinu og við reyndum að finna okkur tjaldstæði. Ákváðum að lokum að tjalda hjá íþróttahúsinu og hituðum pulsur í kvöldmatinn. Sólin skein fallega á fjörðinn og fjöllin á móti okkur en bærinn sjálfur var kominn í skugga. 

Föstudagurinn vakti okkur með heitu tjaldi og við skriðum út og borðuðum morgunmat í sólinni. Dagurinn fór síðan í sólböð og stutta göngutúra um svæðið. Laugardagurinn var svosem svipaður þar sem við eyddum deginum á Bíldudal, tókum þátt í hátíðarhöldunum og lágum í sólbaði inná milli. Heim á leið keyrðum við svo á sunnudeginum, mjög ánægð með frábæra helgi og "renndum" við á Látrabjargi á heimleiðinni. 
Leiðir skildu svo á Búðardal þar sem ég fór með foreldrunum til Reykjavíkur og aftur til vinnu á meðan Arnar og Viðar fóru norður í seinni vikuna þeirra í sumarfríi saman. 

Eitt fannst okkur svoldið merkilegt um helgina og örlítið pirrandi. Þjónustuviðleitni Vestfirðinga var ekki að fá háa einkunn hjá okkur. í fyrsta lagi var leiðinlegasta kerling veraldar sem vann í íþróttahúsinu sem rukkaði 320 krónur fyrir að fara í sturtu og hún afhausaði þá sem fóru óvart inn á skónum. Fyrir utan íþróttahúsið var svo heitur pottur sem sturtugestum var frjálst að nota en þessi pottur var svo heilagur í augum starfsfólksins að í hvert sinn sem einhver fór uppúr pottinum var rokið til og breitt yfir hann dúk (eins og er settur yfir sundlaugar á næturnar). Mér finnst það nú afskaplega mikill óþarfi þegar það er 20°C hiti úti... ;) Kerlingin leiðinlega var samt örugglega montnasta skuringarkona í heimi og hún átti þarna svo merkilega stöðu sem klefavörður og rukkari að hún sat með uppásnúið trýni allan daginn og skipaði fólki að gera hitt og þetta með fýlusvip og hortugheita tón og það var ekki sjéns að semja við kellinguna.. óóó nei. 

Fyrst var öllum á tjaldstæðinu bannað að nota klósettið innan íþróttahússins og var eina klósettaðstaðan á tjaldstæðinu því plastkamrar og hvergi var rennandi vatn. Eftir að margir höfðu talað við kerlinguna fengu gestir tjaldstæðisins að nota klósettið. en svarið var samt fyrst "þetta er ekki SKIPULAGT(!) tjaldstæði og kamrarnir eru það eina sem þið fáið að nota" Þarna kom fyrsti punkturinn í ruglinu. Við erum á bæjarhátíð, tjöldum hliðina á skilti sem segir "Tjaldvagnar/fellihýsi" og við fáum ekki vatn. Jæja, það voru 40 lítrar af vatni í fellihýsinu svo að við komumst í það að bursta tennurnar og þvo hendurnar úr öðru en vatni úr plastkamrinum... :) 

annað áfall fékk ég þegar ég fór í EINU Sjoppuna í bænum. Vissuð þið að það er engin búð/kaupfélag/sjoppa á Búðardal? ? ? (!) nóp.. ekki ein! allir í bænum keyra hálftíma leið til Patreksfjarðar til að kaupa nauðsynjar. Í fyrstu fannst okkur það ekki hræðileg tilhugsun en þegar við keyrðum svo veginn á sunnudaginn þá liggur hann yfir 2 heiðar, snarbrattur og í beygjum og bugðum ÞÓ SVO að Bílddælingar lofsami það að vegurinn sé malbikaður... haha.. well... það ættu líka flestir vegir að vera það finnst mér.

Til þess að mæta neyðaruppákomum selur Café Vegamót, smá kaffihús þarna mjólk og jógúrt svo að enginn sveltu heilu hungri á Bíldudal. En áfallið já... ég fékk 10 klaka í poka og einn "Stínubjór" fyrir bjórinn borgaði ég 650 kr sem mér fannst ágætt verð en fyrir klakana borgaði ég 150 kr. eftir að hafa labbað í burtu frá Vegamótum snéri ég við og spurði stelpuna hvort að henni fyndist nú ekki helst til mikið að rukka 150 krónur fyrir 10 klaka!! ég fékk þá 100 kall til baka (victory) og flipp flappaði í sandölunum aftur í tjaldið og sá fyrir mér kalt hvítvín :) 

síðasta þjónustuólundin varð uppvís á Patreksfirði þegar við vorum á leiðinni heim. á skilti hjá bensíndælunum var auglýstur ostborgari, sósa, franskar og kók á 1090. Ég pantaði 2 tilboð og benti á skiltið auk einnar pulsu. Fyrir þetta borgaði ég og hélt að ég fengi kókið með borgurunum. Sé ég svo að viðar er að kaupa kók því að kellan sagði að það fylgdi ekki kók með. Hann gafst of fljótt upp við að pexa við konuna og keypti sér kók þó svo að hann hefði bent henni á tilboðið úti á stétt en hún sagði að það væri ekki lengur í gildi. Ég fór því og talaði við konuna og benti henni á að ef að tilboðið hangi ennþá uppi þá sé það ennþá í gildi og hún með snúð á svip sagði okkur að taka kók úr kælinum sjálf. Eftir það þá sást konan rogast með níðþungt skiltið úr augsýn.. :) haha 

Annars vorum við ekki þau einu sem lentum í þessari þjónustuólund Vestfirðinga svo að ég held að þetta sé ekki einsdæmi :) Bíldudalur þarf einfaldlega að læra að taka á móti gestum og læra að umgangast þá :) Og patró amk að læra að auglýsa ekki útrunnin tilboð :)

Veðrið á sunnudeginum var best yfir alla dagana og ég verð að viðurkenna að ég væri svosem til í að hafa smá sól í Rvk í dag. Sumarfríið mitt er búið og ég fer að vinna á morgun :)  
SHARE:

föstudagur, 26. júní 2009

miðvikudagur, 24. júní 2009

such a nice week

Eyddi síðustu helgi með frændfólki Viðars á Húnavöllum (rétt hjá Blönduósi) og ég var svo sannarlega tekin vel inní ættina. Alveg flemmi gaman og við sváfum í hvalnum mínum (tjaldinu) þó svo að það hafi verið svoldið kalt á föstudeginum en til eru góðir svefnpokar og sofið var þétt... 

Alla þessa viku (+ síðustu helgi) og næstu er Viðar með Arnar Smára sinn og erum við búin að bralla saman helling og þeir 2 enn meira... í dag fórum við t.d. og prufuðum nýju sundlaugina á Álftanesinu og voru þeir frændurnir Arnar Smári og Stefán Örn titrandi af spenning yfir að fara í STÆRSTU rennibraut á ÍSLANDI. Öldulaugin var alveg rosaleg ! :)

kl 6 keyrðum við í Elliðarárdalinn, nánar tiltekið Indíánagil þar sem Leikhópurinn Lotta  var að sýna leikritið "Rauðhetta". Við sátum þarna 4 á pikknikk teppi, borðuðum smá nesti og kúrðum okkur inní annað teppi í sólinni og góða veðrinu og hlógum af vitleysingjunum Grísunum, Rebba og fleirum. 

Á morgun er ferðinni heitið á Vestfirði og hitta mömmu og pabba sem við ætlum að eyða helginni með og kíkja á fjölskylduhátíðina "Bíldudals Grænar" á Bíldudal og jafnvel kíkja á langa-lang-afa ?


SHARE:

mánudagur, 22. júní 2009

Le Bastogne kex / Sírópslengjur


Uppskrift af Le Bastogne

375 gr hveiti
250 gr sykur
250 gr smjörlíki
1 stk egg
3/4 msk síróp
3/4 tsk kanill
1 1/4 tsk matarsódi
1/2 tsk vanilludropar


Jæja... 

-Aðferðina gæti verið örlítið flóknara að útskýra ef þið hafið aldrei séð þessar kökur áður eða gert svokallað "hnoðað deig" eins og stendur alltaf við uppskriftir í uppskriftarbókinni hennar mömmu. 

-"hnoðað deig" í kökubakstri gengur út á það að blanda saman öllum þurrefnum fyrst og taka síðan smjörlíkið eða smjörið og mylja það útí deigið. Þetta tekur smá tíma og hefst alltaf á endanum með því að passa að vera alltaf að nudda smjörlíkið í sundur með fullt af hveiti og sykri svo að á endanum er allt smjörlíkið blandað saman við hveitið og áferðin er ekki ólík botninum á ostakökum frá MS. Þegar allt er orðið blandað svona saman og helst engar klessur af smjörlíki eru eftir þá er gerð hola í mulninginn og öllum vökvanum hellt þar ofaní og allt er svo hrært/hnoðað saman.








-Sjálfsagt stendur í einhverjum bókum að best sé að pakka deiginu inn í plastfilmu og geyma í ísskáp í einhverjar klst eða amk eina en ég hef bara nokkrum sinnum gert það þegar ég vann á Höfðabrekku og hafði ekki alltaf tíma til að baka kökurnar strax eftir að ég gerði deigið og finnst ekki vera munur á þó endanlegri útkomu að það gæti svosem verið einhver. 

-Deigið á að vera næstum það blautt að manni lítist ekki á blikuna. :) En þetta reddast allt

-Vel af hveiti er stráð á borðið þar sem auðvelt er að sækja það en ekki fara að rúlla kökurnar út í heila bingnum heldur bætið við eftir þörfum. 

-Smá klípa af deiginu er tekin og rúlluð út í pulsu sem nær langhliðina á milli á bökunarplötunni þinni. Ég hef rúllurnar aðeins mjórri en venjulegar pulsur. 3-4 lengjur komast á hverja plötu en ath að þær renna mikið út.



-Ofan á hverja lengju er stimplað með gaffli,  þétt, þvert á til að gera örlítið mynstur. (þetta gerir kökurnar ekkert betri og má sleppa ef sá hinn sami vill)


-Kökurnar eru settar inní ofn á 180°C og blástur (þetta fer á uþb 3 plötur) og mín regla er sú að þegar maður heldur að kökurnar séu tilbúnar þá eigi þær eftir að vera í 1 mínútu lengur inní ofninum. Þær mega alls ekki vera of ljósar því að þá verða þær ekki stökkar og verður minna karmellubragð af þeim þar sem að sykurinn þarf að verða heitur og bráðna vel saman við smjörlíkið og "caramelize-ast" Þið getið farið eftir litnum á kökunum frá Lu... það er ca rétti liturinn :) skv tímatöku eru þetta 12-14 mínútur



-Þegar allt virðist  vera tilbúið, takið lengjurnar ur ofninum og skerið þær í 3-4 cm langa bita með hníf. Kökurnar eru mjög mjúkar þegar þær eru nýkomnar út úr ofninum svo að það er lítið mál. Reynið bara að standast það að smakka ekki strax ! :)



dip'em or don't dip'em in milk... it's entirely your choice ;) 

enjoy!!! 



SHARE:

mánudagur, 15. júní 2009

helgin afstaðin

Vann helgina á hjúkkuvöktum og stóðst þá prófraun með sóma. 
næstu 2 vikur verða mest megnis frí og ferðalög þar sem ég vinna ekki næst fyrr en á miðvikudagskvöld og er svo í fríi til 30. júní. Þennan tíma ætla ég að nýta til að ferðast um landið í tjaldi... vúhú !


SHARE:

fimmtudagur, 11. júní 2009

Heilsukökur á fimmtudegi


Já. var skilin eftir EIN heima. Ég hef alltaf verið svo mikið í kringum stráka og í strákahópum að ég kann ekki við að fá ekki að vera með af því að ég er stelpa. Hefði átt að sleppa því að fara í kjól í dag ... ;) But do I care ? njeee

en jæja.. 
Hvítvínsflaskan var búin (voru nokkrir dreitlar eftir í henni) og mér datt í hug að nýta eitthvað af dóti sem ég á í skápum og skúffum og baka eitthvað tiltölulega HOLLT. Aðal hugmyndin var að baka eitthvað með ananas en ég hef held ég aldrei gert það áður þó svo að ég hafi oft ætlað mér að prufa einhverntíman að gera "ananasköku á hvolfi". 

en talandi um "holan" bakstur... Það er svosem aldrei hægt að baka eitthvað 100% hollt, en það er hægt að setja hollari hluti en aðra og taka í staðinn út hluti sem eru t.d. hveiti, egg, fita, hvítur sykur, mjólkurvörur osfrv.  Ég gerði það að einhverju við þessa uppskrift þar sem að þó að hún hafi verið á góðri leið með að vera holl þá vantaði nokkr hluti uppá sem ég lagaði aðeins til, breytti og bætti. 

Tilraunabaksturinn tókst held ég vel og svei mér þá ef að kökurnar bragðist ekki svoldið eins og instant Apple and cinnamon grauturinn sem hægt er að kaupa í pökkum í öllum búðum.

Þessi uppskrift inniheldur ekki Eggjarauður, Hveiti, Hvítan sykur eða Fitu.
Aftur á móti er töluverður sykur í formi ávaxtasykurs, agave sýróps og hunangs. Næst hugsa ég samt að ég sleppi ávaxtasykrinum.

hérna kemur uppskriftin

Hawaii kökur 

1/4 bolli fínmalað spelt
2 bollar haframjöl
4 msk kókósmjöl (algerlega mín viðbót)
1 tsk vínsteinslyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 tsk kanill
1/2 tsk salt 
2 eggjahvítur
2 msk ávaxtasykur
3 msk agave sýróp
1/4 bolli hunang
1/4 bolli eplamús (Euroshopper)
1/2 bolli rúsínur
3/4 bolli ananaskurl með safanum

Aðferð:
-Blandið saman öllum þurrefnunum.

-Þeytið eggahvíturnar þangað til að þær eru orðnar það stífar að þið treystið ykkur að fara í Jamie Oliver áhættuleik og hvolfa þeim yfir höfuðið á ykkur. 

Ég átti ekki ananaskurl svo að ég notaði venjulega ananashringi í dós og skar þá í þunnar lengjur þvert yfir, snéri svo brettinu og saxaði þá þvert á skurðarstefnuna og kom þá ananasinn út í litlum bitum. Safinn sem lak úr á meðan ég saxaði ananasinn var eini safinn sem ég setti í uppskriftina. Notaði í þetta 5 ananashringi. Held persónulega að það sé bara betra að hafa örlitla bita af ananas til að bíta í).

-Allt er svo hrært saman (þurrt+blautt) og látið standa aðeins svo að haframjölið dragi aðeins í sig vökvann og það verði mögulegt að setja þetta á plötu. 

-Þessu er svo slett á smjörpappír með 2 teskeiðum og má vera tiltölulega þétt þar sem kökurnar renna ekki út. Þetta urðu 33 kökur hjá mér.

-Sett inní ofn á 175 ° í 17 mínútur á blæstri þar sem þetta voru 2 plötur og þeim var svissað þegar bökunartíminn var hálfnaður. 

Núna eru kökurnar að kólna svo að ég veit ekki hver loka áferðin á kökunum er en núna eru þær örlítið krispí efst en mjúkar undir. Býst við að þær verði á endanum frekar mjúkar. 

Fyrsta smakk lofar góðu !! 

enjoy






SHARE:

mánudagur, 8. júní 2009

Veislumatur á mánudegi

Eftir að hafa rölt til læknisins á Háaleitisbraut gekk ég auðvitað heim aftur og varð á vegi mínum fiskbúð í skipholtinu (hliðina á American Style) en þar er opnuð aftur fiskbúð eftir að Fiskisaga lokaði búðinni þar, eftir að hafa keypt staðinn af gömlum fisksala. Maðurinn sem var að vinna í dag var ekkert svo gamall en gæti vel hafa átt staðinn.

Enginn fiskur var merktur í borðinu og ég er ekki sú flinkasta í að þekka fiska af roðinu einu þá benti ég svo til blindandi á borðið, þóttist benda á eitthvað (en benti í rauninni ekki á neitt) og sagðist ætla að fá steinbít fyrir 2 

Eftir smá flettingar í nokkrum kokkabókum hérna heima ákvað ég að vefja fisknum inní parmaskinku en eftir að hafa misst hökuna í gólfið í Hagkaup vegna verðsins á henni ákvað ég að prufa að kaupa Toscana skinku frá Ali sem er svipuð hráskinku nema að hún er léttreykt. 

ég saltaði fiskinn duglega og pipraði smá, skipti flakinu í þrennt og vafði 2 stykkjum fyrir sig inn í Toscana skinkuna. Pakkaði svo hvorri rúllunni inní matarfilmu og snéri upp á endana svo að skinkan lagðist vel að fisknum og lét þetta vera svona í kæli þangað til að það kom að eldunartíma. 

Þegar ég svo eldaði fiskinn steikti ég hann á heitri olíuborinni pönnu á öllum hliðum og setti hann svo í mót og inní ofn þar sem hann mallaði á meðan ég undirbjó meðlætið. 

Áður en ég hafði steikt fiskinn hafði ég sett smá af sætri kartöflu í pott sem ég átti eftir inní ísskáp og flysjaði og skar í teninga bökunarkartöflu. Þetta sauð ég og stappaði svo saman með gaffli, ekki það vel að þett væri kekkjalaust heldur var hægt að finna smá bita af sætri og venjulegri kartöflu í "músinni" út í þetta setti ég smá rjómaost (2 tsk kannski) og 3 dropa af sýrópi. (átti því miður ekki hlynsýróp, það kláraðist um helgina) 

Með þessu steikti ég svo hnefafylli af spínati í smá olíu, setti með rifinn hvítlauk og kryddaði með smá Cummin og salti. Þegar spínatið hafði minnkað niður í næstum ekki neitt setti ég 2 matskeiðar af 5% sýrðum rjóma.

Þetta var svo allt sett á einn disk og hefði ég nennt að gera diskinn "chef-style" þá hefði ég tekið mynd en núna sé ég hálfgert eftir því... maturinn var nefnilega GEÐVEIKUR...

safanum af fisknum sem var saltað, reykt, fiskisoð, hellti ég yfir fiskinn þegar hann var kominn á diskinn.

Með þessu drakk ég glas af BOLLA - Pinot Grigio sem er uppáhalds hvítvínið mitt. Svona af því að ég átti opna flösku inní ísskáp síðan um helgina ;) 

Mér er sama hvort að ykkur hafi langað að lesa um matinn í kvöld eða ekki ! ;) enjoy

Ef þið eruð að velta því fyrir ykkur hvað hafi orðið af síðasta steinbítsstykkinu sem ekki var vafið inní Toscana skinkuna þá steikti ég það áðan á pönnu uppúr hvítlauks-infused olíu eftir að hafa velt því fyrst uppúr hveiti sem ég saltaði og pipraði. Restin af kartöflumúsinni + grænmeti er komið í nýja bakkann sem ég keypti í MegaStore í Smáralindinni.. en hann er svo sniðugur! 1 stórt hólf og 2 lítil, svolítið eins og frauðplastbakki undir take-away mat en þessi er fjölnota og með smelluloki.
Enginn LSH matur handa mér á morgun !!! :)


SHARE:

föstudagur, 5. júní 2009

Lifi Eiki Hauks

SHARE:

Dúndurfréttir

SHARE:

Pirr dagsins !!

viðar ákvað að bjóða mér á tónleikana með Dúndurfréttum og fleirum í Laugardalshöll sem eiga að vera í kvöld. Hann keypti miða í stúku þar sem að þetta eru tónleikar þar sem maður þarf að heyra og sjá vel, plús að ef við vildum standa niðri þá getur maður skroppið þangað.

3900 kr miðinn í stúku í stað 2900 fyrir stæði. nokkuð sanngjarnt bara...

Í vikunni kom fréttatilkynning um að þeir hafi fllutt allt klabbið á NASA og við héldum það öruggt að við fengjum 1000 kall á miða endurgreitt þar sem að nú stæðu allir og við höfðum borgað fyrir stúkumiða!

boy we were wrong

þeir sem standa að þessu hafa ákveðið taka þá sem ætluðu að sjá og heyra vel í tónlistarflutningnum í rassgatið og hækkuðu miðana í 3900 svo að við stöndum hliðina á þeim 798 sem einhverjir eru svo heppnir að hafa ætlað að standa from the beginning og fá ódýrari miða. Við fáum ekki mismuninn greiddann.. nóbb... ekki sjéns

við semsagt keyptum stúkumiða á 3900 og endum á að standa í þvílíkri þvögu á miklu minni tónleikastað fyrir 3900 sem er verð fyrir stúkumiða ?

okur  ?

jább!
SHARE:

fimmtudagur, 4. júní 2009

Fræðsla

Skólinn er búinn en LSH vill fræða okkur hjúkkulingana eitthvað reglulega svo að öllum 3. árs nemum sem starfa innan spítalans var hópað saman í litla loftlausa stofu og masað yfir okkur frá 9-16 um ýmsa hluti. Mis merkilega eins og við er búast.

Daginn enduðum við svo á endurlífgunaræfingum þar sem við fengum dæmi til að vinna með og eru svoleiðis námskeið alltaf góð og fá mann til að hugsa, svona til að reyna að koma inn automatískri hugsun hvað maður eigi að gera í aðstæðum þar sem sjúklingurinn crash-ar og við erum ein með hann, auk hvers konar endurlífgunar er viðeigandi að beita.



Harpa, Hanna, Íris og Eva að fara að aðstoða Tomma 

SHARE:
Blog Design Created by pipdig