fimmtudagur, 29. september 2011

Lambalæri


Í síðustu viku var loksins komið að mér að halda Gourmet-matarklúbb vinahópsins. 
Í fljótu bragði má segja að þemað mitt "mömmumatur" hafi verið gott þema og mikið gríðarlega var gott að fá íslenskt lambalæri með brúnni sósu, rabbabarasultu og grænum baunum ! 
Ég verð þó að viðurkenna að kartöflugratínið var kannski ekki alveg undir þemanu en það er einfaldlega bara of gott til að hafa ekki með lambakjöti! 

Eftirrétturinn var alveg himneskur (karamellu og bananabaka) sem Viðar var með ofnæmi fyrir... Kem að því síðar, ásamt uppskriftinni. En greyið fékk litla samúð með 3 hjúkkur og einn lækni í sama matarboðinu.

Lærið er að mestu leiti hefðbundið í undirbúning og matseld nema að ég tek lærið úr frystinum 4 dögum áður en ég ætla að elda það.
Ástæðan er ekkert nema sérviska ! Ég nefnilega las það í riti frá Matvís að á Íslandi hangi lambakjöt aðeins í 5 daga áður en það er fryst og sagað niður í neytendapakkningar og mér finnst það aðeins of lítið fyrir MINN smekk. Þess vegna vil ég taka kjötið út aðeins fyrr með það fyrir augum að reyna að fá auka meyrnun í kjötið þó svo að vissulega sé íslenska lambakjötið yfirleitt mjög meyrt.

1-2 dögum fyrir eldun set ég það svo í marineringu og geri ég hana yfirleitt svona 


ríf niður hvítlauk og saxa niður rósmarín(blöð?)

bæti kryddi saman við olíu, rósmarín, hvítlauk og pipar og fitusnyrti lambalærið 

maka þessu yfir allt kjötið 

og að lokum elda ég kjötið ! 

matarboðsgestir 

 
  
svona vil ég hafa kjötið mitt ! rétt bleikt! 

Erla að fá sér kartöflugratín 

uppskrift :

2.5 kg læri 

5 greinar rósmarín
5 hvítlauksgeirar
4 msk matarolía 
1 msk svartur pipar
1 msk maldon salt
3 msk Rustica krydd (hér er hægt að nota einnig Best á lambið)


Aðferð: 
-Fitusnyrtið lambalærið
-merjið hvítlauk / rífið niður, saxið rósmarínsprota og lemjið saman í mortéli eða blandið í skál ásamt pipar og olíu.  Ef þið ætlið að marinera kjötið í 1-2 daga, setið saltið ekki í blönduna, heldur stráið því yfir lambið áður en það fer í ofninn... Salt dregur vökva út lambakjötinu. vefjið í glæran plastpoka og geymið í kæli þar til þið ætlið að elda kjötið 
-Takið kjötið úr kæli (ef mögulegt er) 4-5 tímum áður en þið byrjið að elda kjötið. Að hafa það við stofuhita veldur jafnari eldun. 
-KAUPIÐ YKKUR KJÖTHITAMÆLI
-Eldið lærið við 180°C á yfir og undirhita í um 1.5 klst eða þar til hitamælirinn segir 68°C (hann á að vera í þykkasta hluta kjötsins). Takið þá kjötið út og látið standa í 15 mín þangað til það er borið á borð og skorið niður. 


Punktar


-Það er algerlega nauðsynlegt að hafa kjöthitamæli ef þið viljið hafa þær kröfur að hafa kjötið eldað eins og ÞIÐ viljið. Annars megið þið stinga kjötinu inní ofn í ca 1.5 klst og krossleggja fingur um að það verði ekki ofeldað eða hrátt... Aulalegir kjöthitamælar kosta skít og kanil en hjálpa ykkur helling :)
- Hafið ekki of miklar áhyggjur af sósunni. Ef þið eruð ekki til í að fara að baka upp sósur, kaupið þá pakkasósur eða einhverja tilbúna sósugrunna.
-Það er úr tísku að ausa vatni yfir kjötið á meðan það er verið að elda það !
-Kryddið sem ég nota (RUSTICA), er krydd sem kemur alveg í risastórum 600 gramma dunki og fæst aðeins í Fjarðarkaupum (svo ég viti til)... Einu sinni fékkst þetta krydd aðeins í heildsölum fyrir veitingastaði en sem betur fer fæst þetta orðið í Fjarðarkaupum. Ég (og mamma) notum einnig mikið kjötkraftinn, grænmetiskraftinn + sveppakraftinn... alveg ótrúlega góðar vörur ! 
-Mér finnst best að skera helling af kjöti inní eldhúsi áður en ég ber lambalærið á borð. Það næstum pirrar mig þegar húsbóndar á heimilum eru settir af stað með hníf og steikargaffal og á að sneiða kjöt í matargesti. Það er í fyrsta lagi ansi erfitt að skera lambalæri þar sem það er ekki þannig í laginu að maður skeri auðveldlega sneiðar af því og auk þess er erfitt að gera það sitjandi eða borgandi með olnbogana í augum sessunautanna. 
-Þú þarft ekki að eiga steikarpott. Ég hef hingað til notað eina af bökunarplötunum mínum en í þetta skipti notaði ég svona  sem ég keypti um daginn og fannst tilvalið að bæta í flóruna af hlutum sem ég veit orðið ekkert hvar ég á að geyma! 
Uppskriftin af kartöflugratíninu er hér: Kartöflugratín 


ENJOY !SHARE:

miðvikudagur, 28. september 2011

Skonsur

Allar þessar skonsur. Tilbúnar á 15 mínútum ! mmm
Nýbakaðar skonsur með smjöri, osti og sultu eru algert nammi...! Auðvitað má einnig setja salat á þær og allt annað álegg sem ykkur kann að detta í hug. :)

Það sem mér finnst einna best við skonsur, annað en að þær eru góðar og mjúkar, er að það tekur ENGAN tíma að útbúa þær !  Ég tók tímann (mjög óformlega) hvað ég var lengi að útbúa herlegheitin (+ myndatökur og uppstillingar) og þetta var bara korter. 
Þess vegna er hentugt að henda í skonsur þegar gestir koma og brauðið sem er í pokanum á borðinu hefur átt betri daga !  :)

Ég var búin að prufa 3 eða 4 uppskriftir af skonsum áður en ég gerði að lokum þessa. Tilraunastarfsemin snérist um það að finna BESTU uppskriftina til að deila með ykkur. 

Og viti menn ! 

besta uppskriftin fannst í uppskriftunum frá mömmu (auðvitað!).
Svona fyrir utan það að uppskriftin var súper einföld. (ekkert þeyta eggjahvítur sér rugl)Þurrefni sett í skál

blautefni sett í skálina líka  og svo hrært saman

deigsoppan á að vera ca svona þykk... og það er ALLT í lagi þó að það séu örlitlir kekkir ! 
Svo er bara að setja eina ausu á pönnuna (ég smyr pönnuna bara í  fyrstu umferðinni og það endist út deigið), velta pönnunni þannig að deigið þeki alla pönnuna og svo bíða etir að svona fallegar loftbólur myndist. (Hellan á að vera stillt á miðlungshita)


Svo er ágætt áhættuatriði að snúa skonsunni. Ég get nú ekki sagt að ég sveifli pönnunni og snúi skonsunni í loftinu. En ég nota bara pönnukökuspaða og þetta tekst svona í 95% tilfella! 
Uppskrift:
3 bollar hveiti
3 tsk lyftiduft 
2 msk sykur 
2 stk egg
1/2 tsk salt 
ca 2,5-3 bollar mjólk


Aðferð:
-Blandið saman þurrefnum og blautefnum, hrærið saman og bætið við mjólk ef þurfa þykir. (ég byrja á að setja einn bolla af mjólk og bæti svo í)
-Setjið eina ausu af deigsoppu á miðlungsheita pönnu og snúið henni við þegar loftbólur hafa myndast
-Borðið með bestu lyst ! 
-Hitið upp eða borðið kaldar daginn eftir 


Punktar:
-Það er örugglega ekki heilagt að það þurfi að nota pönnukökupönnu til þess að baka skonsur. En then again. Ef þið eigið ekki pönnukökupönnu núna þá mun ALLTAF koma að því að þið munið eignast eina. Kaupið ykkur því pönnu eða smellið henni á jólagjafalistann :) 
-Lang best er að nota pönnukökuspaða til þess að snúa skonsunum
-Ég og Viðar höfum ekki enn orðið sammála um hvað skonsur séu. Ég man reyndar ekki hvað hann kallar það sem ég kalla skonsur. En það sem hann kallar skonsur er það sem Bretar kalla Scone og er gerbrauðshnullungur borðaður með miklu smjöri og sultu. Við höfum ákveðið að vera ósammála um þetta :)SHARE:

þriðjudagur, 20. september 2011

Næsta blogg - Þið ráðið

Það væri kannski afar sniðugt að spyrja ykkur hvaða uppskrift þið viljið sjá næst hérna á síðunni ?

Skonsur

Karamellu og banana baka

Íslenskt lambalæri


Myndir af herlegheitunum er hér í næsta bloggi á undan.

:)

vinsamlegast svarið í kommentunum

SHARE:

Næst á dagskrá


Hér eru nokkrar uppskriftir sem munu birtast hér á næstkomandi vikum :) SHARE:

sunnudagur, 18. september 2011

Gulrótarsúpa með kókosmjólk og karrí

Góð og meinholl haust/vetrarsúpa 


saxið niður hvílauk, lauk og engifer 

steikið við vægan hita í 3-5 mínútur, ath á ekki að brúnast 

bætið gulrótum útí 

kjúklingasoð 

Soðið uppá 

búið til purée 

kókosmjólk og sítrónusafa bætt útí, saltað og piprað

borðað með heimagerðu naan brauði og kóríander stráð yfir

Uppskrift: 
(fyrir 4-5) 

1 laukur (frekar stór)
1 hvítlauksgeiri
1 msk rifinn eða saxaður engifer
3 msk matarolía
1/2-1 tsk karrí 
600 gr gulrætur skornar í skífur
1 L Kjúklingasoð (úr fernu eða farið eftir leiðbeiningum sem fylgja teningunum í kössunum)
2 msk sítrónusafi (ferskur)
1 dós kókosmjólk
salt og pipar eftir smekk

ferskt kóríander


Aðferð:
- Laukur, hvítlaukur og engifer steikt við vægan hita í 3-5 mínútur. Karríið látið útí og hitað vel (ég nota 1 msk).
- Gulrætur eru skornar niður og settar útí pottinn. (Ég skola þær aðeins en skef ekki utan af þeim... þetta eru einfaldlega OF margar gulrætur)
-Þegar gulræturnar eru vel soðnar og orðnar mjúkar (eftir um 15-20 mínútur) ausið þá súpunni í litlum skömmtum í blandara eða matvinnsluvél og maukið. Þegar allt er maukað setjið þá súpuna aftur í pottinn, sjóðið uppá og bætið við kókosmjólk, sítrónusafa og kryddið eftir smekk
-geymist í nokkra daga í ísskáp.

uppskrift af Naan brauði finnið þið hér á síðunni.

enjoy ! 

SHARE:

miðvikudagur, 14. september 2011

Réttarmyndir

er búin að setja myndir inn á myndir.ragna.is frá Skaftárréttum sl helgi. Að venju var gott veður og mjög gaman. :)


Auðvitað var helgin svo toppuð með fyrirpartýi útí Ferðaþjónustunni á Hunkubökkum áður en farið var á réttarball.


Því miður eru engar myndir af balli þó svo að margt hafi gerst á því balli en að venju fór ég ekki með neitt annað en 2000 kall sem stungið var inná brjóstahaldarann (til að komast inná ballið) og áfengi í poka.. s.s. engir lyklar, enginn sími, enginn jakki og heldur engin myndavél !
Svona gerir maður þetta bara í sveitinni

SHARE:

Ostaköku Brownies

Brownies þekkja orðið allir þó svo að Íslendingar séu almennt hrifnari af gömlu og góðu skúffukökunni.
Aðal munurinn er að brownies eru litlir súkkulaðikökubitar sem eru örlítið seigir, rakir og með sterku súkkulaðibragði.
Það eru því ekki margir bitar sem hægt er að innbyrða áður en maður fær alveg nóg.

Þessi kaka blandar saman 2 guðdómlegum hlutum... Bakaðri ostaköku og mjúku brownie.

Uppskriftin kemur upprunanlega úr einni uppáhalds kökubókinni minni sem ég eignaðist síðastliðinn vetur og heitir hún Ready for Dessert eftir David Lebovitz.
ég er enn in love with Joseph Joseph vigtina 

smjör og súkkulaði... heavinly blanda 


mmmmm

undarleg samsetning 

eins og listaverk 

gullinn draumur 

Svo er um að gera að skella sér með kökuna í pikknikk með góðum vinkonum

Uppskrift:
85 gr smjör skorið í bita
115 gr suðusúkkulaði brotið í bita
130 gr sykur
2 egg
70 gr hveiti
8 gr dökkt kakó
1/8 tsk salt
1 tsk vanillu extract
80 gr suðusúkkulaði saxað gróft  eða litlir bitar tilbúnir í poka

Ostakaka
225 gr rjómaostur
1 eggjarauða
75 gr sykur
1/8 tsk vanillu extract


Aðferð:
-Bræðið smjör og súkkulaði yfir vatnsbaði við vægan hita.
-Þegar blandan er öll bráðin, bætið restinni af þurrefnum + eggjum útí og hrærið saman.
-Setjið súkkulaðidropana eða bitana útí og blandið vel. Ath, hér er alveg ónauðsynlegt að nota eitthvað annað en sleif.
-Setjið deigið í smurt kassalaga form sem er 23 cm á breidd (eins og þið sjáið þá á ég ekki svoleiðis form en mitt dugar vel)
-Ostakaka: Þeytið saman með þeytara eða gefið ykkur ágætan tíma til að gera þetta í höndunum með písk, rjómaost, eggjarauðu, sykur og vanillu extract þar til blandan er slétt og vel blönduð saman.
-Dreifið blöndunni yfir í 8 eða fleiri "slettum" og blandið slettunum svo létt saman við súkkulaði deigið.

Bakist í miðjum ofni á 175°C þar til að kakan hefur stífnað aðeins í miðjunni eða í um 35-40 mínútur.
Ath ekki reyna að taka hana úr forminu fyrr en hún er alveg kólnuð


Enjoy !

SHARE:

mánudagur, 5. september 2011

Uppskrift vikunnar


Sem er þó ekki væntanleg fyrr en seinna í vikunni :)


SHARE:

fimmtudagur, 1. september 2011

Laugardagskvöld :)

Mun ég taka fram hljóðnemann, rétta Agli gítarinn, ræskja mig all svakalega og taka alla gömlu og góðu slagarana + alla þá nýjustu og skemmtilegustu á Halldórskaffi :)
súper gaman og súper mikið fjör ! :)

SHARE:
Blog Design Created by pipdig