Í síðustu viku var loksins komið að mér að halda Gourmet-matarklúbb vinahópsins.
Í fljótu bragði má segja að þemað mitt "mömmumatur" hafi verið gott þema og mikið gríðarlega var gott að fá íslenskt lambalæri með brúnni sósu, rabbabarasultu og grænum baunum !
Ég verð þó að viðurkenna að kartöflugratínið var kannski ekki alveg undir þemanu en það er einfaldlega bara of gott til að hafa ekki með lambakjöti!
Eftirrétturinn var alveg himneskur (karamellu og bananabaka) sem Viðar var með ofnæmi fyrir... Kem að því síðar, ásamt uppskriftinni. En greyið fékk litla samúð með 3 hjúkkur og einn lækni í sama matarboðinu.
Lærið er að mestu leiti hefðbundið í undirbúning og matseld nema að ég tek lærið úr frystinum 4 dögum áður en ég ætla að elda það.
Ástæðan er ekkert nema sérviska ! Ég nefnilega las það í riti frá Matvís að á Íslandi hangi lambakjöt aðeins í 5 daga áður en það er fryst og sagað niður í neytendapakkningar og mér finnst það aðeins of lítið fyrir MINN smekk. Þess vegna vil ég taka kjötið út aðeins fyrr með það fyrir augum að reyna að fá auka meyrnun í kjötið þó svo að vissulega sé íslenska lambakjötið yfirleitt mjög meyrt.
1-2 dögum fyrir eldun set ég það svo í marineringu og geri ég hana yfirleitt svona
ríf niður hvítlauk og saxa niður rósmarín(blöð?) |
bæti kryddi saman við olíu, rósmarín, hvítlauk og pipar og fitusnyrti lambalærið |
maka þessu yfir allt kjötið |
og að lokum elda ég kjötið ! |
matarboðsgestir |
svona vil ég hafa kjötið mitt ! rétt bleikt! |
Erla að fá sér kartöflugratín |
uppskrift :
2.5 kg læri
5 greinar rósmarín
5 hvítlauksgeirar
4 msk matarolía
1 msk svartur pipar
1 msk maldon salt
3 msk Rustica krydd (hér er hægt að nota einnig Best á lambið)
Aðferð:
-Fitusnyrtið lambalærið
-merjið hvítlauk / rífið niður, saxið rósmarínsprota og lemjið saman í mortéli eða blandið í skál ásamt pipar og olíu. Ef þið ætlið að marinera kjötið í 1-2 daga, setið saltið ekki í blönduna, heldur stráið því yfir lambið áður en það fer í ofninn... Salt dregur vökva út lambakjötinu. vefjið í glæran plastpoka og geymið í kæli þar til þið ætlið að elda kjötið
-Takið kjötið úr kæli (ef mögulegt er) 4-5 tímum áður en þið byrjið að elda kjötið. Að hafa það við stofuhita veldur jafnari eldun.
-KAUPIÐ YKKUR KJÖTHITAMÆLI
-Eldið lærið við 180°C á yfir og undirhita í um 1.5 klst eða þar til hitamælirinn segir 68°C (hann á að vera í þykkasta hluta kjötsins). Takið þá kjötið út og látið standa í 15 mín þangað til það er borið á borð og skorið niður.
Punktar
-Það er algerlega nauðsynlegt að hafa kjöthitamæli ef þið viljið hafa þær kröfur að hafa kjötið eldað eins og ÞIÐ viljið. Annars megið þið stinga kjötinu inní ofn í ca 1.5 klst og krossleggja fingur um að það verði ekki ofeldað eða hrátt... Aulalegir kjöthitamælar kosta skít og kanil en hjálpa ykkur helling :)
- Hafið ekki of miklar áhyggjur af sósunni. Ef þið eruð ekki til í að fara að baka upp sósur, kaupið þá pakkasósur eða einhverja tilbúna sósugrunna.
-Það er úr tísku að ausa vatni yfir kjötið á meðan það er verið að elda það !
-Kryddið sem ég nota (RUSTICA), er krydd sem kemur alveg í risastórum 600 gramma dunki og fæst aðeins í Fjarðarkaupum (svo ég viti til)... Einu sinni fékkst þetta krydd aðeins í heildsölum fyrir veitingastaði en sem betur fer fæst þetta orðið í Fjarðarkaupum. Ég (og mamma) notum einnig mikið kjötkraftinn, grænmetiskraftinn + sveppakraftinn... alveg ótrúlega góðar vörur !
-Mér finnst best að skera helling af kjöti inní eldhúsi áður en ég ber lambalærið á borð. Það næstum pirrar mig þegar húsbóndar á heimilum eru settir af stað með hníf og steikargaffal og á að sneiða kjöt í matargesti. Það er í fyrsta lagi ansi erfitt að skera lambalæri þar sem það er ekki þannig í laginu að maður skeri auðveldlega sneiðar af því og auk þess er erfitt að gera það sitjandi eða borgandi með olnbogana í augum sessunautanna.
-Þú þarft ekki að eiga steikarpott. Ég hef hingað til notað eina af bökunarplötunum mínum en í þetta skipti notaði ég svona sem ég keypti um daginn og fannst tilvalið að bæta í flóruna af hlutum sem ég veit orðið ekkert hvar ég á að geyma!
Uppskriftin af kartöflugratíninu er hér: Kartöflugratín
ENJOY !