miðvikudagur, 4. desember 2019

Piparkökur



Síðastliðin 8 eða 9 ár hef ég verið að leita að hinni fullkomnu piparkökuuppskrift og þar að leiðandi prufað nýja uppskrift á hverju ári og aldrei verið fullkomnlega ánægð með útkomuna.

Ég vil stökkar, bragðmiklar piparkökur með smá sýrópskeim, svona svoldið eins og sænsku piparkökurnar í rauðu boxunum.

Eftir mikla leit einn morguninn fann ég uppskrift sem var öðruvísi en allar þær sem ég hef áður gert og ákvað því að gera hana í dag með fjölskyldunni.







Uppskrift 
gerir um 35-50 kökur 

150 gr smjör
3/4 dl sýróp
2 dl sykur
1 tsk kanill
1 tsk engiferduft
1 tsk negull
2 egg
1 tsk matarsódi
8-9 dl hveiti

Aðferð 
- Smjör, sýróp, sykur, kanill, engifer og negull sett saman í pott, suðan látin koma upp og látið malla við lágan hita í 3 mínútur.
-Látið blönduna kólna niður í herbergishita
-Hrærið eggjum saman við útí pottinn
-Hrærið 5 dl af hveiti og matarsóda samanvið útí pottinn og hrærið með sleif
-Bætið við restinni af hveitinu útí, hvolfið úr pottinum á borð og hnoðið saman þar til  deigið er orðið samfellt og loðir  vel saman án þess að klístrast við hendur. Ath að það er tiltölulega lint.
-Setjið inní kæli í amk 2 klst, helst yfir nótt og það geymist í nokkra daga í kæli
-Takið kalt útúr kæli og fletjið út á hveitistráðu borði. Reynið að fletja það þunnt út
-Skerið kökurnar út, færið á smjörpappírsklædda plötu og bakið við 180°C blæstri þar til þær eru farnar að taka aðeins lit.
-Látið kólna

Þessar piparkökur eru afskaplega góðar einar og sér en ef það á að skreyta þær/mála þá mæli ég alltaf með því að gera royal icing-glassúr sem í rauninni er bara flórsykur og eggjahvíta í stað þess að setja bara vatn útí flórsykurinn.
 Ef maður gerir svona blöndu þá verða piparkökurnar ekki mjúkar með tímanum heldur halda áfram að vera stökkar. Einnig er liturinn mun sterkari þegar búið er að setja matarlit útí þennan glassúr.

Árdís Rúna var ansi lunkin með sprautupokann 

Aldrei fallegustu kökurnar en samt klárlega þær bestu þegar allir hafa setið saman og skreytt :) 


Uppskrift aðlöguð frá http://klingskitchen.se/ 



SHARE:

miðvikudagur, 27. nóvember 2019

Kalkúnabringa með fyllingu

Þakkargjörðarhátíðin kemur frá Bandaríkjunum og er almennt ekki haldið upp á hana hér á Íslandi.
Það er hins vegar gaman að gera dagamun, bjóða vinum í heimsókn eða útbúa mat sem maður gerir ekki svo oft yfir árið.

Kalkúnabringa er eitthvað sem ég elda almennt ekki oft en hún er afskaplega bragðgóð og góð tilbreyting á hversdagsleikanum.

Þessi kalkúnabringa er fyllt með sætri, saltri, mjúkri fyllingu, með mikið af olíu og verður kalkúnninn safaríkur og mjúkur.

Fylling 
2 dl saxaðar döðlur
1 dl þurrkuð trönuber
1 hvítlauksgeiri (saxaður smátt)
1 skarlottulaukur (saxaður smátt)
1 msk ferskt timian
1 krukka fetaostur og öll olían
3 brauðsneiðar

Aðferð
-Steikið uppúr olíunni af fetaostinum lauk og hvítlauk þar til hann mýkist
-Bætið timian, döðlum og trönuberjum útí, lækkið hitann og steikið í 2-3 mínútur
-Bætið fetaosti útí og lækkið hitann enn meira, hann á aðeins að bráðna samanvið en ekki alveg leysast upp
-Rífið niður 3 brauðsneiðar í litla teninga (sleppa skorpu) og hrærið saman

Kalkúnabringa 
1.2 kg - fyrir ca 4 fullorðna

-Skerið bringuna þannig að hún verði útflött (e. butterfly - sjá video hér)
-Kryddið með góðu kryddi báðu megin. Mæli með kalkúna eða kjúklingakryddi.
-Setjið fyllinguna í og rúllið bringunni þétt saman uppí rúllu, rúllið upp frá styttri hlið bringunnar.
-Ef ykkur finnst þurfa, stingið tannstönglum í hana svo hún haldist vel saman.
-Eldið við 190°C í ofni (reiknið með klst inní ofni ca).
-Notið kjöthitamæli (algerlega nauðsynlegt). Ég mæli með að elda hana upp í 68°í kjarnhita, taka hana þá út, setja álpappír yfir og handklæði og láta hana standa í 20-30 mín á borði. Hún mun ná 71°C hita að lokum, jafna sig og verða meira safarík en ef hún væri skorin stuttu eftir að hún kæmi útúr ofni.

Sósa 
2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
3-4 greinar af timian
2 msk matarolía
1 L vatn
200 ml hvítvín
Kalkúnakraftur frá Tasty
Maizenamjöl í vatni
2 msk smjör
salt og pipar eftir smekk

Aðferð
-Steikið skarlottulaukinn, hvítlauk og timian í matarolíu þar til það verður lint.
-Hækkið hitann og hellið hvítvíni útí. Látið sjóða nær alveg niður
-Bætið vatni og krafti útí og látið sjóða í 30 mín við vægan hita
-Þykkið með maizenamjöli
-Saltið og piprið að vild
-Setjið 2 msk af smjöri útí sósuna rétt áður en hún er borin fram.



Reykjabúið - ATH, engin sýklalyf... Alveg dásamlegt! :) 
Flött út 
Fyllingin sett í 


SHARE:

föstudagur, 22. nóvember 2019

Skinkuhorn





Ég get lofað ykkur að þetta eru mýkstu skinkuhorn sem þið munuð nokkurn tíman smakka. Tvöföld hefun gerir extra trikkið og salt ofaná í lokin er punkturinn yfir i-ið.


Skinkuhornin er tilvalið að gera og geyma í frysti fyrir skólanesti eða til að eiga og grípa í. 


Uppskrift:
gerir 36 stk 

2 dl volgt vatn
1 bréf þurrger
1 tsk sykur

1 tsk salt
2 msk olía
6 dl hveiti

Fylling
hálf askja skinkusmurostur 
6-8 sneiðar af reyktri skinku 
1 hvítlauksgeiri (lítill) 
smá svartur pipar 
ítalskt krydd 

Aðferð:-Setjið volgt vatn, ger og sykur í skál og látið standa í 10 mín eða þar til gerið fer aðeins að freyða. Bætið restinni af innihaldsefnum saman við og hnoðið þar til deigið er slétt. Ég mæli með að gera það með deigkrók í hrærivél og hnoða það í 5 mínútur á litlum hraða.
-Látið deigið lyfta sér í 40 mínútur undir viskastykki á borði.-Sláið deigið niður, skiptið því í 6 búta, fletjið út í hring sem er svipað og pizzabotn á þykkt og skerið með pizzaskera í 6 geira. -Setjið fyllingu á miðja kökuna, nær breiðari kanntinum á geiranum. Bleytið breiða kanntinn og spíssinn með vatni (ég nota bara fingurnar í þetta) og rúllið í átt að mjórri endanum. Gætið að snúa saman endunum svo að lítið af fyllingunni leki út.
-látið hornin standa á borði í 30 mínútur svo þau lyfti sér aftur. 
-Penslið yfir hornin með matarolíu og setjið flögusalt yfir þau. 
-Bakið við 200°C á blæstri í um það bil 10 mínútur eða þar til hornin verði létt brún. 


Gerið og sykur sett útí vatnið og látið freyða 

Bætt útí hveitið, olíu og salti 

Hnoðað í 5 mínútur þar til deigið er slétt og fínt 

látið lyfta sér í 40-60 mínútur

Fyllingin sett saman 

Það er mjög gott að hafa aðstoðarmann sem fylgist vel með hvort deigið sé ekki að lyfta sér 

"mamma það er alveg orðið mjög stórt" 

Deiginu skipt í 6 jafnstórar kúlur 

Flatt út á hveitistráðu borði í hring 

Skorið í 6 geira með pizzaskera, lítið af fyllingu sett á breiðari endann og vatni penslað á endann og spíssinn

rúllað saman frá breiðari enda að þeim mjórri 

Snúið upp á endana og horn mótað 

Látið lyfta sér í 30 mínútur í viðbót, penslað með olíu og salti stráð yfir. 

Enjoy :)


SHARE:

föstudagur, 1. nóvember 2019

Súkkulaðikaka með þeyttu karamellukremi



 Þessi kaka er himnesk! hún er SVO mjúk, hún er SVO góð, hún er SVO öðruvísi en margar aðrar sem þið hafið eflaust smakkað.

Kremið er hægt að setja á hverskonar köku sem er svo að það er ekki vitlaust að vista þessa uppskrift á góðum stað og nota við fleiri tækifæri.


Ólíkt öðrum kökum ætla ég að mæla með því að þið byrjið á að gera kremið áður en þið gerið kökuna.
Það þarf nefnilega að standa í ískáp í 2-3 klst áður en þið getið þeytt það upp svo það verði svona létt og ljóst eins og það er.

Karamellukrem 


200 gr sykur
50 gr smjör
400 ml rjómi
1 tsk sjávarsalt
200 gr Nóa rjómasúkkulaði, brotið í bita
1 tsk vanilluextract/dropar

Aðferð


-Setjið sykurinn í pott og hitið þar til hann verður karamellubrúnn. Ath að brenna hann ekki því þá verður kremið beiskt.
-Hitið rjómann að suðu í öðrum potti.
-Þegar sykurinn er karamellaður og rjóminn heitur takið þá sykurinn af hitanum og setjið smjörið útí og hrærið það saman við.
-Hellið rjómanum útí sykur- og smjörblönduna í 3 skömmtum og setjið aftur yfir hitann (ath þetta getur soðið hratt uppúr, farið varlega). Bætið vanilluextract útí.
-Hellið karamellunni yfir súkkulaðið, látið standa í 5 mín og hrærið svo öllu saman.
-Færið inní kæli og látið kremið kólna og stífna aðeins. (Þetta tekur 2-3 klst).
-Þegar kakan er orðin köld og tilbúin til þess að setja á hana, þeytið þá upp karamellukremið með handþeytara í 1-2 mínútur eða þar til hún hefur lýst og verður ljóskaramellulituð.


Kaka

250 gr hveiti
75 gr kakó
2 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
300 gr púðursykur
2 egg
100 ml matarolía
250 ml súrmjólk
200 ml uppáhellt kaffi, látið kólna smá
1 tsk vanilludropar/extract
(salthnetur til skrauts ef þið viljið)

Aðferð: 


-Hveiti, kakó, lyftiduft, matarsódi og salt sigtað saman í skál.
-Hrærið púðursykur saman við
-Bætið eggjum, matarolíu, súrmjólk, kaffi og vanilludropum saman við og hrærið með sleif
-Bakið í tveim til þrem kringlóttum formum í 30-40 mínútur eða þar til botnarnir eru tilbúnir í 180°C heitum ofni á blæstri.

Öll þurrefni sett í skál 


Restinni bætt útí
Árdís mjög hugsi yfir þessu 
Sett í form 

Þessi kaka geymist vel. Hún er afskaplega mjúk og djúsí en hún er líka gríðarlega sæt :)

Mæli með að þið prufið þessa ef þið viljið prufa eitthvað nýtt

-Tekið að hluta til frá -The Boy who bakes 

SHARE:

sunnudagur, 6. október 2019

Kjötsúpa


Góða, kjarngóða íslenska kjötsúpan....

Þessi súpa hefur eflaust haldið lífinu í mörgum Íslendingnum í gegnum tíðina. Súpan er einföld og tekur ekki lengri tíma en um klst að elda.
Það er ekki betra að sjóða súpuna. Á endanum ertu bara að gera kæfu úr kjötinu og það þarf ekki meiri suðu en um þessa rúmu klst.


Uppskrift:

3 lítar  vatn
1,5-2 kg súpukjöt
1/2 dl hrísgrjón (má sleppa)
2 msk salt (og örlítill hvítur pipar)
5-8 gulrætur
8-10 kartöflur
1-2 rófur (smáar)
1/4 hvítkálsshaus
1 laukur
1 dl súpujurtir

Aðferð: 

-Skolið af kjötinu og setjið í pottinn ásamt 3 lítrum af vatni. Á meðan suðan er að koma upp er eðlilegt að brún froða myndist ofan á. Takið hana í burtu með skeið eða ausu jafn óðum og hún myndast. Sjóðið í 45 mínútur
-Á meðan kjötið sýður undirbúið grænmetið. Reynið að hafa í huga að hafa grænmetið í þeirri stærð svo það passi í skeið.  Skerið gulrætur í ca 5 mm þykkar sneiðar (ef gulræturnar mjög sverar skerið þær þá til helminga eða í fjórðunga fyrst), rófurnar í teninga, kartöflurnar skræliði og skerið í teninga, laukinn skerið þið í litla bita (mun smærri en annað grænmeti) og hvítkálshausinn í teninga.
-Þegar 45 mín eru liðnar af suðunni á kjötinu setjið þið þá 1 dl af súpujurtum útí, laukinn, kartöflur, rófur, gulrætur, salt, örlítinn hvítan pipar og ef þið viljið, 1/2 dl hrísgrjón (þau voru oft sett til þess að drýgja súpuna en margir eru vanir því að hafa hrísgrjón í súpunni sinni)
-Súpan soðin áfram í ca 15-20 mínútur.
-Að  suðutímanum liðnum hef ég vanalega tekið kjötið uppúr og dundað mér við að tína það af beinunum, hreinsa í burtu sinar og fitu, rífa í smærri bita og set þá svo aftur ofaní.
-Það er ekkert leyndarmál að súpan sé betri daginn eftir. Hún er það svo sannarlega... og hún er líka góð 3-4-5 daga eftir að hún hafi verið útbúin. Geymið hana bara í ísskáp í lokuðu íláti og hitið bara upp þá skammta sem þið ætlið að taka af henni. Sem sagt, reynið að hita hana ekki alltaf alla og kæla svo aftur (svo má alltaf setja súpuna í smærri skammta í box og frysta)

Ath ...
Svona hef ég helst viljað borða kjötsúpu. Hafa hana tilbúna í skál eins og ég ber hana á borð.
Sumir eru vanir því að fá súpuna sér og svo kjöt, kartöflur og rófur á disk hliðina á og borðar það þá súpuna og matinn til skiptis eða brytjar kjöt, kartöflur og rófur sjálft út í súpuna.










SHARE:

sunnudagur, 22. september 2019

Bláberjapönnukökur



Þykkar og djúsí pönnukökur með safaríkum bláberjum....
mmmmm!
Það er svo oft sem maður nær ekki alveg að klára bláberin í stóru fötunum áður en þau skemmast en það er gott að nota restarnar úr fötunni í þessar bláberjapönnukökur.

Uppskrift 
(gerir 4-5 stórar pönnukökur)

1 bolli hveiti (250 m)
2 msk sykur
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
265 ml mjólk
2 msk matarolía
1 egg
1 tsk vanilludropar/extract
1 1/2 til 2 dl bláber (frosin eða fersk)


Aðferð
-Blandið saman þurrefnum og bætið svo vökvanum og eggjum útí. Hrærið öllu létt saman svo það blandist ágætlega.
-Lykillinn að loftmiklum pönnukökum er að hræra þær ekki of mikið og það er í lagi að smáir kekkir séu í deiginu. Ef ykkur finnst deigið vera of þunnt, látið það standa í nokkrar mínútur þar sem það þykkist aðeins við það. Einnig ef ykkur finnst deigið vera of þykkt, bætið þá smá mjólk útí til að þynna það.
-Bætið bláberjunum varlega útí rétt áður en þið farið að steikja pönnukökurnar, reynið að sprengja þau ekki.
-Setjið um 1 ausu af deigi í olíuborna pönnu, veltið pönnunni til svo að hún fletjist sem mest út eða ýtið henni út með matarskeið svo hún nái lófastærð. Steikið á miðlungshita og snúið pönnukökunum við þegar loftbólur myndast í gegn.
-Berið fram volgar beint af pönnunni með smjörklípu og sírópi.


Öllum þurrefnum og vökva auk eggs sett í skál og hrært saman 

Þennan morgun fékk ég æðislega sætan aðstoðarkokk

Stóð sig sérlega vel

Það er ekkert að því að það séu smáir kekkir í deiginu 

Steikja þær á miðlungshita á pönnu 

Frábærar með sýrópi og smá smjöri 

SHARE:

sunnudagur, 15. september 2019

Tómatasúpa


Haustið er komið og þá er svo gott að fá sér heita súpu með góðu brauði. Hér er uppskrift að ódýrri og einfaldri tómatasúpu sem tekur stuttan tíma að gera. 

Uppskrift
Fyrir 4-5
10 stk tómatar
2 hvítlauksrif
1 1/2 laukur
1 tsk oregano
ólífuolía
1 kjötkrafts/grænmetiskrafts-teningur
400 ml tómatapassata / fersk tómatsósa
400 ml vatn
salt og pipar
lófafylli af basil
1 tsk pestó (má sleppa)

Aðferð
-Skerið tómatana í tvenn, raðið á ofnplötu með skurðinn upp, hellið ólífuolíu jafnt yfir tómatana, saltið og piprið.
-Skerið hvítlauksgeirana þvert langsum og leggið á milli tómatana
-Bakið í ofni í 20 mín á 230°C
-Á meðan tómatarnir eru inní ofni steikiði við vægan hita laukinn sem þið eruð búin að saxa gróflega niður uppúr 1 msk af olíu
-Bætið tómötum útí pottinn (ef hvítlauksgeirarnir eru mjög brúnir þá sleppi ég þeim) með lauknum auk þess að setja vatn, tómatpassata, 1 tsk oregano, 1 kraft-teningi, ca 10 blöðum af basil (söxuðum fínt) og sjóðið saman við vægan hita í 10 mín. Saltið og piprið eftir því sem ykkur finnst.
-Mixið súpuna saman með töfrasprota eða með blender (ath að fara verlega með heita súpu í blender)
-Saxið nokkur blöð af basil í strimla og setjið útí súpuna rétt áður en hún er borin á borð.

Bragðast vel með nýbökuðu brauði eða grillaðri ostasamloku.


Áður en tómatarnir fara inní ofn 

Laukurinn steiktur við vægan hita á meðan tómatarnir bakast í ofninum 


Tómatarnir komnir úr ofninum 

Allt hráefnið komið í pottinn 

Búið að mixa súpuna með töfrasprota 



Enjoy
xxx


SHARE:
Blog Design Created by pipdig