þriðjudagur, 17. apríl 2012

Hamborgarar

Fyrstu hamborgarar sumarsins voru gerðir í dag og jafnframt grillaðir ! 





Hér er uppskrift að heimagerðum hamborgurum :)

Enjoy
SHARE:

fimmtudagur, 4. ágúst 2011

Harissa-kjúklingur á teini

Mikið hefur verið rætt um Harissa í matarbloggheimum upp á síðkastið. Aðallega hefur verið að tala um hve bragðmikið og spennandi þetta kryddmauk er. En það er frekar sterkt, með tómat, chili og hvítlauk en er þó alls ekki eins og eitthvað sem maður gerir auðveldlega heima.

Ég ákvað að prufa að gera mína útfærslu af rétti með þessu mauki og er hann alveg rosalega auðveldur og tilvalinn á grillið heima eða í útilegunni.


Svona lítur Harissa maukið út sem fæst orðið í flestum búðum og er það mauk sem ég notaði.

Uppskriftin og aðferðin er einföld. 

Skerið niður 3 kjúklingabringur, skellið öllu saman og setjið í box sem ætti ekki að opnast (ef þið eruð að fara í útilegu og ætlið að taka þetta með). 

Ég er mjög oft með marineraðan kjúkling með mér í útilegum til þess að grilla annað kvöldið og grilla þá vanalega maístöngla líka. 
Ég á fjölnota grillpinna sem ég fékk mjög ódýra í IKEA og hef vanalega 4 stk af þeim í matartöskunni minni sem fer allt með okkur í útilegum.  Einnig er ég með einnota latexhanska til þess að nota til að þræða uppá pinnana svo að það er auðvelt að þrífa sig eftir á. 

Til þess að hafa eitthvað annað en kjúklinginn og maísinn setti ég eina öskju af sveppum í box, hellti yfir hvítlauksolíu, pipraði og saltaði og þræddi svo upp á pinnann líka kvöldið eftir þegar þetta var grillað. 









Þetta er mjög gott kryddmauk og alls ekkert svakalega sterkt (Arnar Smári 8 ára, borðaði þetta með bestu lyst og kvartaði ekki yfi að þetta væri sterkt).  Spennandi bragð og allt öðruvísi en maður er vanur. 
Góð tilbreyting frá grilluðu kjöti!

Uppskrift

3 stk kjúklingabringur, hver og ein skorin í 8 bita 
2 msk Harissa mauk
2 msk sýrður rjómi (má vera með einhverjum bragðefnum og einnig er hægt að nota jógúrt )
2 msk matarolía
1/2 tsk salt

blandað saman í skál og geymt þar til það er notað. 

Þrætt upp á grillpinna/spjót og grillað þar til tilbúið

gott með kaldri hvítlaukssósu




SHARE:

mánudagur, 13. júní 2011

heimakryddað grillkjöt


Ef þið hafið tækifæri á, í guðana bænum ekki kaupa kryddað kjöt í búðunum. Í fyrsta lagi eru þetta ekki bestu bitarnir og erfitt er að átta sig á hvernig bitarnir eru í rauðgulum vökvanum í vacuum-pökkuðu plasti... og í öðru lagi er magnað hvað það kostar að kaupa kryddaða bita ! 

Kaupið heldur tilboðsbita, frosna í kjötborðunum í lágvöruverslunum, útvegið ykkur buffhamar og kryddið sjálf ! 

Mér finnst íslenskt kjöt látið hanga of stutt... Ég tek t.d. lambalæri eða hrygg amk viku fyrir áætlaðan eldunartíma til að það verði örugglega orðið meyrt og mjúkt þegar það kemur að því að elda það.
Í köldum ísskápunum hjá okkur, vel vöfnu inn í matarfilmu eða í boxum er kjöt ekki að fara að skemmast á 1-4 dögum í marineringu ef það er alveg ferskt til að byrja með... Það er heldur ekkert að því að geyma kjöt við kjöraðstæður í 7 daga ef þú tekur það ferskt úr frysti. 
þessvegna, EF ég hef tímann til að láta þetta vera í nokkra daga í ísskáp áður en ég elda kjötið... auðvitað ! :) það er öllum til góða! 

Hér er ég með tilboðssvínakótelettur sem ég keypti í nýju uppáhalds búðinni minni, Víði... 898 kr kg... lítil fita og stórar kótelettur... Skellti ferskum kryddjurtum (graslaukur, timian og oregano) útí mixer+ uppáhalds grillkjötskryddinu ásamt smá olíu.  


Sett yfir kjöt sem var búið að buffa aðeins með buffhamri og látið marinerast í 1 dag (þarna keypti ég kjötið 1 degi fyrir áætlaðan grilltíma og gat því ekki haft þetta lengur, en svona er þetta bara :) ) 


kjötið bragðaðist alveg prýðisvel og hlakka ég til að leika mér með hinar sneiðarnar sem eftir eru ! :)

Endilega prufið ykkur áfram. Kryddjurtirnar þurfa jú ekki að vera ferskar en auðvitað hvet ég ykkur til að prufa að rækta sjálf útá svölum. 
Hér er staðurinn þar sem ég fékk mínar kryddjurtir, forræktaðar og tilbúnar til að setja útá svalir! :) 

Garðyrkjustöðin Engi   (ég hvet ykkur til að gera like á síðuna. Ekkert smá spennandi að fylgjast með sumarmarkaðinum og fleirum uppákomum sem maður getur kíkt á sunnudagsbíltúrnum í sumar!) 


Svo er aldrei að vita nema að það fari að líða að  bloggi :) þá meina ég alvöru matarbloggi...

Update : Kryddið sem ég nota, og lærði að nota af mömmu minni sem er alger grillkjötssnillingur heitir Rustica. 
Þetta er krydd sem kemur alveg í risastórum 600 gramma dunki og fæst aðeins í Fjarðarkaupum (svo ég viti til)... Einu sinni fékkst þetta krydd aðeins í heildsölum fyrir veitingastaði en sem betur fer fæst þetta orðið í Fjarðarkaupum. Ég (og mamma) notum einnig mikið kjötkraftinn, grænmetiskraftinn + sveppakraftinn... alveg ótrúlega góðar vörur ! 

SHARE:

mánudagur, 16. maí 2011

Eruði tilbúin í hamborgarasumar?

Ég er amk komin í gírinn (í huganum amk)
Hamborgarar eru ekki alveg það óhollasta í bókinni... Það er aðallega sósujukkið sem maður treður á borgarann sem gerir hann gífurlega óhollann.. Annars er þetta bara grænmeti, brauð og jú kjöt. Þeir sem vilja geta meira að segja sleppt brauðinu og enn verið með í borgarafjörinu í sumar :)
hafi þetta hver á sinn hátt ! :)
Ég verð samt að tuða örlítið um það að það virðist ekki fást hakk hér á íslandi sem er undir 10-12% í fitu... Ég veit ekki hvað tilbúnir borgarar eru með mikilli fituprósentu en það er sjálfsagt ekki undir því.
Það væri snilld að geta fengið almennilega magurt hakk.

Ég sá á netinu um daginn auglýsingu sem hljómaði eitthvað á þessa leið... 200 gr borgararnir komnir, 100% ekta nautakjöt!!
Ég hugsaði að það væri snilld að bera á borð þvílíka steik fyrir gestina sem ætluðu að koma í Eurovisionforkeppnispartýið á þriðjudaginn síðasta og renndi á staðinn sem bauð upp á þessa borgara...
Ég hrökklaðist fljótlega út aftur enda kostuðu 2 stk af þessum 200 gr kjötstykkjum heilar 980 kr !
Asskoti dýrt kílóverðið það

Ég ákvað því að fjárfesta loksins í hamborgarapressu í Húsasmiðjunni sem kostaði rétt undir 800 kr, rúllaði við í Hagkaup og keypti hakk úr kjötborðinu þar (það vildi þannig til að hakkið úr kjötborðinu var ódýrara en það sem var boðið uppá í tilbúnum pakkningum)

Þegar heim var komið gerði ég svo mína eigin 160 gr 100% ekta nautakjötshamborgara og bauð uppá í kvöldmatinn.

Hamborgarabrauðin sem ég notaði voru þessi af stærri gerðinni sem loksins eru farin að fást fyrir almenning en fengust fyrir 1-2 árum aðeins fyrir veitingastaði. Það gea þess vegna hver sem er gert listagóða hamborgara heima hjá sér.

Til að þið fáið smá tilfinningu fyrir stærð á borgunum þá eru flestir borgara sem fást 4 saman í öskju með brauðum aðeins 80 gr. Ég man því miður ekki hvað það er verið að selja þessa bakka á núna en mig minnir að það sé farið að slaga hátt í 600 krónurnar. Það merkilega við þessa pakkaborgara er hvernig kringlóttur borgari getur orðið að sporöskjulaga borgara við steikingu.... Beats me, mínir borgarar héldust fullkomnlega kringlóttir :)

Millistærð af borgara er 110 gr og stórir borgarar eru 160 - 200 gr. Ég hafði hugsað mér að gera 200 gr borgara en þar sem hamborgarapressan fæst bara í einni stærð þá yrði 200 gr borgarinn ansi þykkur og þyrfti í raun að vera aðeins meiri í þvermáli. Þessvegna hafði ég hann 160 gr, sem var svo fullkomnlega passlegt að ég geri það örugglega aftur... alltaf

Ég hafði auðvitað áhyggjur af því að þetta væri dýrara en að kaupa tilbúna hamborgara svo ég leit mikið í kringum mig í síðustu viku til að fá smá tilfinningu fyrir hvað almennt verð væri á hamborgunum og komst að því  eftir að ég hafði sett upp smá verðdæmi um hvað borgarinn kostaði sem 160 gr eða sem 80 gr á því verði sem ég keypti hakkið síðasta þriðjudag þá væri það síður en svo dýrt miðað við annað á markaðnum


1 stk risa hamborgarabrauð : 77 kr
160 gr  100% nautakjöt : 215 kr
Máltíð: 292 kr
Fyrir 4: 1168


1 stk risa hamborgarabrauð : 77 kr
80 gr kjöt : 124
Máltíð: 201
fyrir 4: 432 kr

Það er því um að gera að elta tilboðin á nautahakki í sumar og kaupa sér bakka þegar góð verð eru í boði :) T.d. eru alltaf tilboð í Kosti á mánudögum, 697 kr kílóið


Hér er svo myndasería hvernig ég gerði borgarann og ég held að myndirnar tali sínu máli. 











SHARE:

þriðjudagur, 10. maí 2011

Eurovision partý matur


í forrétt:

Grillaðir kjúklingavængir með heimagerðri gráðaostasósu 


Aðalréttur:

Heimagerður hamborgari




Blogg væntanlegt
SHARE:

laugardagur, 8. janúar 2011

Naan brauð



Frábært naan brauð. Mjúkt, rosalega bragðgott og slær alltaf í gegn í matarboðum ! 

Frábært með ýmiskonar mat. Sérstaklega með indverskum mat auðvitað. Ég hef aðeins verið að fikta mig áfram við að gera indverskan mat frá grunni en það eru heilmikil vísindi bak við það og mjög tímafrekt. Einnig þarf að kaupa heilan helling af kryddum til að koma sér upp þessum helstu grunntegundum. 
Ég keypti í sumar útí tyrklandi fullt af kryddi og fræjum sem svo mikið er notað í indverskum réttum og hef verið að æfa mig hérna heima. So far, so good! 

í kvöld hafði ég samt ekki löngun né tíma til að standa í einhverjum stórræðum. Bakaði vöfflur með kaffinu þegar ég vaknaði eftir næturvaktina og við fengum gesti í kaffi.
Því var bara steiktur kjúklingur á pönnu, hellt Butter Chicken sósu úr krukku útá og soðin hrísgrjón með

Mesti tíminn fór sjálfsagt í að gera naan brauðið. Þ.e. það þarf að lyfta sér í ca klst. 





Uppskrift: 
fyrir um 6 þegar naan brauðið er borðað með mat. 

1 pakki þurrger
1.5 bollar volgt vatn (í heitari kantinum, en alls ekki HEITT vatn, meira vatn ef þarf) 
1/4 bolli sykur
ca 4 1/2  bollar hveiti (helst brauðhveiti, þetta Bláa frá Kornax - ekki nauðsynlegt þó)
2 tsk salt 
5 matskeiðar mjólk
1 egg 



aðferð: 
-Setjið 1 bolla volgt vatn í skál og stráið þurrgeri yfir. Látið standa i ca 10 mín þar til gerið hefur leyst upp og farið að freyða aðeins.
-Setjið öll þurrefni í skál og hellið blautefnum samanvið. Hnoðið saman í höndunum eða í hrærivél í ca 6 mínútur, notið auka hveitið (1/2 bollann)  til að ná réttri áferð á deginu. Deigið á ekki að vera mjög klístrað en alls ekki setja of mikið hveiti í. 
-deigið er látið lyfta sér í skál í ca klst og þá tekið úr skálinni, hnoðað létt og mótað í stóra rúllu á hveitistráðu borði. 
-Þegar elda-steikja á brauðið. Hitið stóra pönnu á hæsta hita þar til alveg heit. Takið þá búta af deiginu og fletjið út í flatar þunnar kökur í höndunum og steikið á pönnunni. Snúið við þegar brauðið er orðið dökkt á hliðunum. 
- Trikk !!! grillið brauðið á grillinu ykkar um sumar... Skelltið flötum kökum á mjög heitt grill og snúið þegar það verður brúnt. Ef það eru 2 brennarar á grillinu. Slökkið þá undir kökunum þegar sú fyrsta fer á og látið hinn/eða hina brennarana sjá um að hita upp grillið. Lokið grillinu á milli 
-Takið brauðið af þegar það er tilbuið og látið á bakka eða grind. 

Hægt er að borða naan brauðið svona eins og það kemur af pönnunni en ég set alltaf hvítlaukssmjör á það.

Geri hvítlaukssmjörið svona:
100 gr smjör
1 hvítlauksrif 
1/2 tsk salt 
steinselja eftir smekk, þurrkuð eða fersk
Hitað í örbylgju eða potti þar til smjörið er bráðnað og svo er því penslað yfir brauðið þegar það er nýkomið af pönnunni

mér finnst nauðsynlegt að að hita hvítlaukinn í smjörinu til að mýkja aðeins bragðið af honum.





ég mana ykkur að prufa þetta bráðum :) 


smá auka punktur:
ef ykkur finnst þetta of mikið deig og þurfið ekki að nota það allt, ekki henda því. Finnið skál, setjið aðeins matarolíu innan í hana, deigið þar ofaná, veltið uppúr matarfilmunni og setjið matarfilmu yfir. 
Geymið svo deigið inní ísskáp þar til þið viljið nota það aftur. Takið það ca 1-2 klst fyrr úr kæli til að það nái úr sér mesta kuldanum.
Tilvalið að redda sér með svona deigi og gera pizzu. Ekki hið fullkomna pizzadeig en deig altså. 
Passið ykkur á því að hafa skálina ekki of litla þar sem deigið mun halda áfram að lyfta sér í ísskápnum, svona til að forða ykkur frá því að þurfa að skafa deigið upp af hillunni í ísskápnum :) 






SHARE:

mánudagur, 5. júlí 2010

Grillað nautakjöt með meðlæti

Útilega MEÐ STÆL !



Nautalund frá Íslandsnauti sem lofar fullmeyrnuðu nautakjöti.. Hefði þó verið gott að hafa steikarhníf með (note to self). Béarnaise-sósan kemur frá Úrvals Nonna litla ! og er alveg rosalega góð... Aðeins dýrari en aðrar kaldar Béarnaise sósur í Bónus en alveg fyllilega þess virði ! Kjötið var kryddað með steikarkryddblöndu  sem heitir Burgundy beef - dry rub, frá Weber. Alger snilld... snilld snilld... Kaupið bara ókryddað lambakjöt eða nautakjöt og þurrkryddið það og pakkið í box fyrir útileguna og sparið ykkur nokkrar krónur með því að kaupa ekki fyrirfram kryddað kjöt í pakkninum. Nautakjötið kryddaði ég þó bara á staðnum en lambakjötið krydda ég fyrirfram. (Burgundy BEEF? iss.. má þess vegna vera burgundy LAMB mín vegna) 

Meðlætið var:
Grillkartafla með hvítlaukssmjéri, þarf um 40-60 mín í álpappír á beinum hita á grilli ef hún er ekki forsoðin

Grillað grænmeti á teini. Keypti mér í vor svona grillteina frá IKEA. Mjög sniðug kaup. Ekki dýrir teinar, ekkert vesen með að leggja trépinna í bleyti og kveikja svo í þeim hvort sem er og auðvelt að taka í hringinn til að snúa þeim við (í hanska eða með peysuerminni, sem var minn kostur). Grænmetið var ég búin að skera niður í bita og setja í box áður en lagt  var af stað. Sveppir, laukur, kúrbítur og spergilkál, allt í bitum, hvítlauksolíu hellt yfir og piprað smá. Þrætt á teinana við grillið og grillað þar til það er orðið mjúkt og búið að taka smá lit 

Vinstra megin í efra horninu má sjá kanilsykur í boxi. Ég blogga síðar um hvað ég gerði við hann 

þar til næst ! 

ciao
SHARE:
Blog Design Created by pipdig