mánudagur, 27. ágúst 2012

Bláberjasulta

Að gera bláberjasultu er alveg svakalega einfalt og geta allir gert það án þess að eiga einhvern sérstakan búnað. Það eina sem þið þurfið að eiga eru glerkrukkur og ef þið eigið þær ekki þá er hægt að kaupa þær í Europris, Búsáhöldum, Byggt og Búið, Byko og Húsasmiðjunni svo eitthvað sé nefnt.

Mér finnst að flestir ættu að skella sér í stutta útivist í berjamó einu sinni á ári. Jafnvel þó svo að berjasulta eða hlaup sé ekki það sem þið stefnið á að gera. Það er fyrst og fremst svo gríðarlega mikill peningasparnaður í því að eyða 3 tímum af einum degi í að tína ber.
Bláberin er hægt að frysta í zip-loc pokum í allt að ár og nota svo út í boozt, kökur, búa til bláberjasósu (t.d. á ostaköku) eða afþýða og borða með rjóma eða skella útá skyrið.
Ég hef lesið mér til um margar aðferðir til að frysta ber. Allt frá því að setja berin í glös með vatni og frysta svo glösin til þess að setja sykur útí pokann. Hjá mér hefur það aldrei klikkað að setja berin annað hvort í box eða vel lokanlegan poka. Maður hristir svo pokann eða boxið til áður en maður notar berin og þau losna mjög auðveldlega í sundur.
Bláberjasulta:

Byrjið á að skola berin. Mér finnst best að þrífa vaskinn vel. Fylla hann af ísköldu vatni og setja öll berin útí. Þannir fljóta upp stöku laufblöð, þurr ber og grænber sem ég hef misst af þegar ég hreinsaði berin. Berin veiði ég svo uppúr með sigti og læt á bökunarplötu með eldhúspappír á til þerris í smá stund. 

Uppskrift:
Hlutföllin eru svona sem þið aðlagið svo að því magni af berjum sem þið hafið

ath að mín uppskrift er uppskrift að sykurminni bláberjasultu en þið kunnið kannski hafið kannski kynnst. Það kemur þó ekki niður á bragðinu þó að sykurinn sé aðeins minni :) 

1 kg ber
500 gr hrásykur/sykur
1/2 bréf af bláu Melatin 

Ber og sykur soðið saman í potti í 15 mínútur við vægan hita þar til sykurinn er uppleystur og berin sprungin. Melatin duftinu er hrært saman við 2 msk af sykri og blandað saman við og soðið við vægan hita í 10 mín í viðbót.

Ég tek vanalega eina krukku frá áður en ég bæti hleypinum útí og geymi inní ísskáp, til þess að nota sem íssósu yfir veturinn :)

Hellið sultunni á hreinar krukkur og tyllið lokinu á.

Geymist í rúmt ár í eldhússkáp


í ár notaði ég hvítan sykur... Finnst hrásykurinn þó betri :) 


fjólublátt himnaríki?

Til að lesa um hvernig ég hreinsa krukkurnar þá stendur það í blogginu um Krækiberjahlaupið


SHARE:

sunnudagur, 26. ágúst 2012

Skemmtilegar fréttir :)

Eins og ég hef sagt, þá eru nokkrar ástæður fyrir bloggleysi sl 3-4 mánuði  :)

aðal ástæðan er ég hef haft litla lyst á að elda flókinn mat, búa til uppskriftir og að baka eitthvað sem ég hef ekki gert nokkrum sinnum áður.

og ástæðan er þessiHér eru skór fjölskyldunnar, raðaðir upp eftir aldri fjölskyldumeðlima. Það vantar þó enn einstaklinginn sem mun fá þessa litlu og fallegu leðurskó. 

Sá fjölskyldmeðlimur mun vera væntanlegur í kringum 2. janúar 2013 :)SHARE:

föstudagur, 24. ágúst 2012

Krækiberjahlaup

Ég er það heppin að ég á afa sem er gjörsamlega berjaóður!

84 ára er karlinn að týna tugi lítra af krækiberjum útum allar sýslur og í ár fékk ég 5 lítra af berjum hjá honum. Ég er nú ekki mikið fyrir að borða krækiber ein og sér, en finnst hins vegar krækiberjasaft og krækiberjahlaup algert sælgæti og ákvað því að gera hvorugtveggja í ár. 

Krækiberjahlaup er aðeins meira mál heldur en sultan þar sem við þurfum að nota safann úr berjunum en ekki berin sjálf. Auðveldasta aðferðin er að skella berjunum í gegnum berjapressu og skilja þannig hratið frá berjunum en við sem höfum ekki lagt í svoleiðis kaup getum þrátt fyrir það búið til krækiberjahlaup! (það kostar bara smá vinnu í staðinn)


Grunn uppskriftin er þó svona 

1 líter berjasafi
1 kg sykur 

Þið farið svo eftir þessu þegar þið gerið hlaupið og breytið stærðunum eftir því sem þið hafið af saft, en hlutföllin halda sér 
(Ath að aftan á melatin pokunum er sagt að maður þurfi meira af meltatini en þetta, en þetta er nóg)

Ég byrja allaf á að skola berin og satt best að segja er mér næstum alveg sama þó örlítið lyng læðist með. Það mun alltaf verða sigtað frá hvort sem er.  

Til þess að fá safann úr krækiberjunum eru þau sett í pott og soðið upp á þeim í 20 mínútur. Þau eru ekki eins og bláberin sem springa sjálfkrafa við suðu heldur þarf svo að stappa á þeim með því áhaldi sem ykkur þykir best. Mér finnst best að nota kartöflustappara. Öll berin eru kramin þar til þau springa og gefa frá sér safann.

Þá er hratið sigtað frá með sigti eða með því að strengja taubleyju yfir skál og festa á börmunum með teygju eða bandi og gott er einnig að setja eitthvað ofan á hratið til að mynda smá meiri þyngsli á hratið (meiri safi! :) )


Svona er hægt að kaupa í Byggt og Búið, Húsasmiðjunni, Byko og á fleiri stöðum. 

Þetta læt ég standa yfir nótt.

Daginn eftir mæli ég saftina, helli henni í pott og sýð uppá henni með sykrinum í um 10 mínútur eða þar til sykurinn er uppleystur.

Ef ég vil gera krækibejasaft, þá helli ég henni þarna af og set í glerflöskur sem ég hef geymt (hvítlauksolíuflöskur t.d.) 

útí berjasafann + sykurinn í pottinum set ég Melatín duftið sem ég hef blandað saman við 2 msk af sykri svo að það hlaupi ekki í kekki í pottinum, sýð í 10 mín í viðbót og helli svo safanum í krukkur og loka krukkunum með því að tylla lokinu á.

Varðandi það að sótthreinsa krukkurnar þá hef ég ekki farið í þær aðferðir sem margir nota... S.s. þær að t.d. þvo krukkurnar og setja þær svo í stóran pott fullan af vatni og sjóða þær í einhverjar mínútur, þvo þær og setja þær í 100°C heitan ofn í klst og örugglega til fleiri aðferðir.

Ég einfaldlega þvæ krukkurnar annað hvort í mjög heitu vatni í höndnum eða í uppþvottavélinni og læt þar við sitja.  Ég geymi krukkurnar svo í skáp og geymast þær í rúmt ár án þess að hlaup/sulta skemmist hjá mér og þess vegna hef ég ekki breytt út af þessum vanaMunið að henda aldrei glerkrukkum :)


og 

Munið að vera í svörtum fötum á meðan þið standið í þessu stússi ! (Krækiberjasafi litar!)


Uppskrift af Bláberjasultu Hér
SHARE:
Blog Design Created by pipdig