mánudagur, 24. maí 2010

Ofnbakaður fiskur í tómatasósu

Mér finnast tómatasósur, gerðar úr niðursoðnum tómötum alveg gífurlega góðar. Sérstaklega finnast mér ítalskar tómata-pastasósur vera góðar og einnig finnst mér bragðgóð og chunky tómatasósa gera saltfisk að veislumat!

maður þarf örlítið að losna við hugmyndina sem orðið tómatsósa læðir að hjá manni.... Þetta er alls ekki hunt's tómatssósa í flösku :) Tómatasósan í þessum rétt er svo einföld að hún er frábær byrjun fyrir byrjendur.

Þessi réttur er búinn til í nokkrum þrepum en er að lokum settur allur saman í eldfast mót og settur ostur yfir... (Bráðinn ostur kemur mér næstum því hálfa leið til himnaríkis, ég sver það!)

Í réttinn notaði ég 600 gr af þorski sem Valgeir tengdapabbi veiddi. Þar sem ég kem úr Vík er ég ekki vön því að geta fengið ferskan fisk eða mjög góðan og fallegan fisk nema kannski í frosnum blokkum í kaupfélaginu. Þess vegna er ég svo ánægð með að eiga tengdpabba sem veiðir fisk og færir okkur af og til örlitla björg í bú. Einnig útbýr Valgeir saltfisk sem gerir mig einnig mjög glaða... Ég ELSKA saltfisk (í góðu hófi þó). Þó að ég noti þorsk þá má auðvitað nota ýsu.

Ég notaði íslenskt bankabygg í þennan rétt þar sem mér finnst það svo gott. Sjálfsagt er að nota hrísgrjón er þið viljið en ef þið hafið ekki prufað íslenska bankabyggið þá ættuð þið kannski að grípa tækifærið og gera það núna. Bankabygg þarf um 40 mínútna suðu. Hlutföllin eru 1 dl af bankabyggi á móti 3 dl af vatni.
Vegna þess hve langan suðutíma byggið þarf þá þarf að byrja á því að setja það í pott og koma upp suðu.

Næst er fisknum er velt uppúr hveiti sem hefur verið saltað og piprað og síðan steiktur í olíu á pönnu. Þegar búið er að steikja fiskinn er hann lagður til hliðar. Ef þið eruð ekki viss um hvort að hveitið sé nógu vel kryddað skulið skera smá bita af fisknum til prufu, velta honum uppúr hveitinu og smakka.

Þá skuliði gera sósuna sem fer yfir réttinn:
Fyrst er að saxa laukinn mjög smátt. Þið eruð vonandi búin að læra að saxa lauk frá því í póstinum um túnfisksalatið ? (ef ekki, þá skuliði skoða þann póst). Laukurinn er steiktur í 2-3 mínútur á pönnu, setjið karrý útá laukinn og steikið aðeins betur. Með því að steikja karrýið aðeins aukiði bragðið af því og það verður betra. Í indverskri matargerð eru öll krydd réttarins oftast steikt saman í olíu áður en hafist er handa við að bæta matartegundum útá pönnuna.  Út á karrýgula-laukinn hellið þið úr einni niðursuðudós af  Newman's Own Five Cheese sósu. Hitið þetta saman þar til að það sýður og kryddið með salti og pipar. Þetta má vera frekar aðeins of salt heldur en vansaltað.


Hér eruði vonandi komin með soðið bankabygg, steiktan fisk og gómsæta tómatsósu.

þá skuliði setja fiskréttinn saman


Hellið bankabygginu í botninn á eldfasta mótinu og raðið fiskstykkjunum þar ofaná 

Hellið tómatsósunni yfir fiskinnn og stráið ostinum yfir

Bakað inní ofni sem stilltur er á yfir og undirhita og á 200°C þar til að osturinn bráðinn.. Ekkert kjaftæði með að hita þetta í 10 mín eða 7.6 mín eða já... einhvern tíma.. Osturinn þarf bara að verða smá litaður og rétturinn á að bubbla af hita...

takið réttinn út og berið fram með salati 

Uppskrift:

2 dl bankabygg
600 gr þorskur/ýsa
(ca 3 dl hveiti + salt og pipar)
olía til að steikja fiskinn uppúr
2 venjulegir laukar
1 tsk karrý
1 dós af Newman's Own Five Cheese sósu
salt og pipar
rifinn ostur, nægur til að þekja réttinn eða eins mikill og þig langar í. 

Gjörið svo vel 
SHARE:

1 ummæli

  1. Nafnlaus4:29 e.h.

    mmmm girnó :) prófa þennan í vikunni

    kveðja Guðný

    SvaraEyða

Ragna.is er matarbloggsíða með sniðugum og auðveldum uppskriftum að gómsætum kökum, mat, meðlæti, brauðum, súpum og fleira.
Myndir fylgja flestum uppskriftum :)

Blog Design Created by pipdig