þriðjudagur, 5. september 2023

Rúgbrauð

Rúgbrauðsuppskrift
Rúgbrauð

Sætt, kraftmikið og dökkt rúgbrauð. Alveg sturlað gott.

Ég baka stóra uppskrift, sker niður í kubba og frysti. Tek svo kubbana út þegar ég hef fisk í matinn eða þegar það er mikill brauðskortur í nesti fyrir krakkana í skólann. Þau satt að segja elska þetta með nóg af smjöri.

Þetta er ekki soðið brauð, en þetta er jafn gott. Það þarf ekki að setja þetta í mjólkurfernur, en það má. Einhversstaðar heyrði ég að mjólkurfernurnar væru ekki framleiddar með það í huga að þær séu hitaðar upp í 100°C og það sé mögulegt að það leki úr þeim "efni" inn í brauðið og þar með ákvað ég að ég myndi ekki þurfa að standa í þesskonar tilraunum með fjölskyldumeðlimi. 

Ég keypti mér Gastro-bakka og lok, eins og þessa sem notaðir eru á veitingastöðum. Þeir fást á ýmsum stöðum. Minn er að stærðinni 1/2. 

Þessa stærð að uppskrift að rúgbrauði er vel hægt að setja í stóru steikarpottana sem leynast á mörgum heimilum eða minnka um helming og setja í 2 formkökuform og álpappír yfir þegar það er bakað. 

Uppskrift 

600 gr rúgmjöl 
330 gr heilhveiti 
1150 ml súrmjólk 
200 gr púðursykur 
430 gr sýróp 
17 gr matarsódi 
13 gr salt 


Aðferð: 

-Aðferðin er ekki flókin. Allt er sett í skál og blandað saman. Sett í smurt form og lok eða álpappír settur yfir. 
-Mér finnst sjálfri gott að láta deigið standa í forminu í 30 mínútur áður en ég set þetta í form svo að rúgurinn og heilhveitið blotni vel áður en bakstur hefst.
-Bakist við 100°C 
-Sé all deigið bakað í einu formi, bakið það þá í 11 klst. Bakið þið það í smærri einingum, bakið það þá í 10 klst. 
-Ég set tímaniðurtalninguna af stað á ofninum og brauðið bakast yfir nótt hjá mér. Ofninn slekkur á sér þegar hann er búinn og okkar býður þá vanalega ylvolgt rúgbrauð á morgnana. 

Rúgbrauðsuppskrift
Öllum innihaldsefnum blandað saman 

Rúgbrauðsuppskrift
Deigsoppan tilbúin í bakstur. Mikilvægt að hafa lok eða álpappír yfir

Rúgbrauð  uppskrift
Nýbakað og volgt, skorið í kubba og svo fryst 
Rúgbrauð



Hlakka til að sjá rúgbrauðin ykkar! 


Njótið 



SHARE:

Engin ummæli

Skrifa ummæli

Ragna.is er matarbloggsíða með sniðugum og auðveldum uppskriftum að gómsætum kökum, mat, meðlæti, brauðum, súpum og fleira.
Myndir fylgja flestum uppskriftum :)

Blog Design Created by pipdig