laugardagur, 3. nóvember 2012

Fyllt gerhorn / Skinkuhorn

Gömul klassík 
Fyllt gerhorn
Já eða skinkuhorn ! :) 

Fer allt eftir því hvað þið eruð vön að kalla þetta. En þar sem ég set hinar ýmsar  fyllingar í mín horn þá á nafnið "skinkuhorn" ekki alltaf við :) 
Hef oft verið spurð að uppskrift af svona hornum en tjah... Ég í fyrsta lagi geri þau ekki oft og eins og svo margar brauðuppskriftir, þá hendi ég bara einhverju saman í skál og kalla það gott ! :) 
Var um daginn með leshring Bráðahjúkrunarfræðinga heima hjá mér og hitti það akkúrat á Viku Bráðahjúkrunar svo ég skellti saman í Tiramisu, Snúðasnúning (Rögnusnúða gerða eins og Pekanhnetuhringinn nema með súkkulaðikremi ofaná) og Fyllt gerhorn.



Notaði tækifærið og fór loksins eftir uppskriftinni sem ég á en ég gerði auðvitað aðeins öðruvísi fyllingu en ég hef vanalega gert. Bara svona til að prufa eitthvað nýtt. :) 

Byrjið á að setja volgt vatn í skál, sykur og ger og látið standa í 10 mín en þar til gerið er farið að freyða aðeins.
Hnoðið svo restinni saman og bætið í hveiti eftir þörfum ef þið þurfið en þetta ætti að vera nokkuð passlegt.
Látið á volgan stað eða setjið skálina í heitt vatn í 40 mínútur. 

Hér getið þið ráðið hvað þið gerið mörg horn.
upprunanlega uppskriftin segir að maður eigi að skipta deiginu í 2 hluta og hvern hluta skal skera í 8 geira.
Eins og þið sjáið, þá skipti ég deiginu í 5 hluta og hvern hluta í 6 geira.
Ástæðan er sú að ég vildi fleiri og minni horn þar sem mér finnst oft og mikið að hafa hornin of stór og maður fær sér frekar fleiri horn ef maður vill meira í stað þess að sitja uppi með stór horn :) 


Uppskrift: 
16 stór horn eða í kringum 30 minni

2 dl volgt vatn
3 1/2 tsk þurrger
1 tsk sykur

1 tsk salt
2 msk olía
5 dl hveiti

Fylling
Pizzasmurostur nýtt (um hálf askja)
hvítlauksgeiri
reykt skinka, skorin smátt (um 6 sneiðar)

Aðferð:
-Setjið volgt vatn, ger og sykur í skál og látið standa í 10 mín eða þar til gerið fer aðeins að freyða. Bætið restinni af innihaldsefnum saman við og hnoðið þar til deigið er slétt og vel saman sett. Má vera aðeins klístrað og er það í rauninni betra en að hafa það of stíft og seigt :)
-Látið lyfta sér í 40 mínútur.
-Sláið deigið niður, skiptið því í búta eftir því hve mörg horn þið viljið gera, fletjið út í hring sem er svipað og pizzabotn á þykkt og skerið með pizzaskera í 6-8 geira. Ath ef kökurnar eru í minni kanntinum þá eru 6 geirar passlegir og í sumum tilfellum 4 alveg nóg.
-Setjið fyllingu á miðja kökuna, nær breiðari kanntinum á geiranum og rúllið í átt að mjórri endanum. Gætið að klípa vel saman endnum sitt hvorum megin við fyllinguna svo minna leki út af henni en það er vanalega eitthvað sem gerist no-matter-what :)
-Raðið á plötu þannig að það sjáist í mjóa hluta geirans og endana sem þið hafið klemmt saman lagið þið aðeins til svo fylltu hornin ykkar líti út eins og fyllt horn :)
-Bakið við 180°C á blæstri ef þið eruð með ofn sem býður upp á það í um það bil 10-15 mínútur (satt best að segja, þá þarf ALLS ekki að baka svona horn mikið. Bara fá þau létt brún!)

Punktar
-Sumir vilja pensla horn með eggi og strá birkifræi ofan á... það er alveg option ef þið viljið :)
-Bakið tvöfalda uppskrift og frystið. Alger snilld og þið getið hitað hornin upp með því að skella þeim frosin í ofninn þegar gestir koma og glansað af myndarheitum þegar gestirnir koma! :)
-Ath, hornin þurfa ekki að líta fullkomnlega út. þau eru alveg nógu góð til að standast útlitsgagnrýni :)

Hugmyndir af fyllingum! 

Sveppaostur, skinka og graslaukur
Rækjuostur og sinnep
Epli og kanilsykur
Paprikuostur og paprika
Skinkumyrja og skinka
Pepproni og rifinn mozzarella


Enjoy !


SHARE:

4 ummæli

  1. Þessi verður sko prufuð um leið og prófatíðin klárast :)

    SvaraEyða
  2. Er hægt að nota heilhveiti í stað venjulegs ? :)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Æj svarið er hér fyrir neðan :)

      Eyða
  3. Já :) gætir þurft smá meiri vökva þá

    SvaraEyða

Ragna.is er matarbloggsíða með sniðugum og auðveldum uppskriftum að gómsætum kökum, mat, meðlæti, brauðum, súpum og fleira.
Myndir fylgja flestum uppskriftum :)

Blog Design Created by pipdig