miðvikudagur, 29. janúar 2020

Kóreskir djúpsteiktir kjúklingavængir

Kóreskir kjúklingavængir.
Kóreskir djúpsteiktir kjúklingavængir
Steiktir kjúklingavængir
sterkir kjúklingavængir
Sticky Korean kjúklingavængir.

Erfitt að velja nafn á þennan rétt, but you get the point :)

Þessir vængir samt... úff og vá... Betri en nokkrir aðrir sem ég hef smakkað á veitingastöðum. Sætir, smá sterkir (alls ekki um of), klístraðir, djúsí, stökkir, bragðgóðir... Þeir hafa ALLA uppáhalds eiginleika góðs matar ;)

Þessi réttur hefur ef til vill nokkuð langan innihaldslista af vörum sem þið eigið ekki endilega til í skápunum ykkar. Það góða við innihaldslistann er að þetta geymist flest allt mjög lengi, í framtíðinni er auðvelt að hendast til og græja þennan rétt með stuttum fyrirvara og það sem besta er ... að 2 bakkar af kjúklingavængjum kosta vel undir 1000 kr!

Það skemmtilega við þennan rétt er að hann getur verið aðalréttur, forréttur eða meðlæti. Allt eftir hvað hentar hverju sinni.




Kjúklingavængir: 
Aðalréttur fyrir 2, snakk með öðrum réttum fyrir 4-5 manns

2 bakkar (ca 1 kg) kjúklingavængir skornir í bita (hendið vængendanum) (sjá aðferð við að snyrta kjúklingavængi)
Svartur pipar
Salt
2 cm rifinn engifer
1 bolli / 250 ml kartöflumjöl
ca 500 ml sólblómaolía (má vera meira)

Sósa:
2 msk tómatsósa
2 msk sojasósa
2 hvítlauksrif - rifin
2 msk Gochujang paste (Kóreskt chili paste sem fæst í asíubúðum)
60 ml hunang (tært)
60 ml púðursykur
1 msk sesamolía

Eftirá:
1-2 msk sesamfræ
saxaður vorlaukur (bara græni hlutinn)

Aðferð:

Kjúklingavængir:
-Skerið kjúklingavængina í þrjá hluta (sjá hvernig skal skera þá) og hendið vængendanum.
-Þurrkið þá vel með eldhúspappír svo þeir eru þurrir
-Saltið yfir og piprið
-Setjið rifinn engifer yfir og kastið kjúklingavængjunum saman í skál.
-Stráið kartöflumjöli yfir og hristið til í skálinni svo að allir vængirnir séu vel þaktir kartöflumjöli.
-Steikið vængina í heitri olíu sem er ca 180°C í potti á eldavélinni (ef þið eigið djúpsteikingarpott þá er það auðvitað það sem þið mynduð vilja nota ;) ). Þið eruð að fara að steikja vængina í nokkrum skömmtum og svo steikiði þá AFTUR þegar búið er að steikja alla vængina einu sinni
-Sem sagt.... steikið vængina í ca 5 mínútur við 175°C. Passið að hafa ekki of marga vængi í einu í pottinum. Eftir þessar 5 mínútur takiði þá út og leggið á pappír eða á ofngrind svo olían geti lekið af þeim.
-Á meðan þið hægt og rólega eruð að steikja vængina er kjörið að gera sósuna... (kem að því síðar).
-Þegar búið er að steikja alla vængina einu sinni eru þeir steiktir aftur í nokkrum skömmtum í 180°C heitri olíunni en nú bara í 3-4 mínútur eða þar til orðnir örlítið brúnir en mjög stökkir.
-Látið vængina aftur á pappír eða ofngrind.

Sósa: 
-Setjið allt sem á að fara í sósuna í pott og látið suðuna koma upp og sjóðið við mjög vægan hita þar til sykurinn er uppleystur.

Samsetning:

Þegar allir kjúklingavængirnir eru tvísteiktir, hitið sósuna aftur þannig að hún sjóði, setjið vængina í skál og hellið sósunni yfir vængina. Kastið svo vængjunum til í skálinni þar til þeir eru allir þaktir      sósunni.
Ra ðið á bakka, stráið semsamfræjum og söxuðum vorlauk yfir

Tillaga að meðlæti: 
Gráðaostasósa


SHARE:

Engin ummæli

Skrifa ummæli

Ragna.is er matarbloggsíða með sniðugum og auðveldum uppskriftum að gómsætum kökum, mat, meðlæti, brauðum, súpum og fleira.
Myndir fylgja flestum uppskriftum :)

Blog Design Created by pipdig