miðvikudagur, 28. september 2016

Haustsúpa - Tómatkjötsúpa



Ég elska kjarnmiklar súpur og mér finnst alltaf voðalega haustlegt að hafa stóran pott með súpu mallandi á eldavélinni.
Uppáhalds haustsúpan er að sjálfsögðu gamla og góða íslenska kjötsúpan (sem verður bráðlega sett hérna inn) en einnig finnast mér Frönsk Lauksúpa og Buttnernut graskerssúpa afskaplega góðar haustsúpur

Ég hef verið að reyna að minnka kolvetnin (eins og allir eru að gera þessa dagana) og langaði í súpu af tómatagrunni með kjöti og ekki uppfulla af rjómaosti eða rjóma :) Þessi súpa fellur undir mataræði eins og Clean eating, Whole30 og Paleo (svona ef þið eruð e-ð að spá í því).

Þessi æðislega súpa bragðast svo vel með íslenska grænmetinu sem er nú í búðum að mæli ég með að þið prufið að gera þessa súpu á meðan það er enn í hillunum :)


Uppskriftin er að vísu afskaplega stór, en hún passar fyrir einn bakka af hakki og hentar hún mjög vel til þess að eiga í frystinum til þess að bjarga kvöldmatnum seinna í vetur (geymist líka í 3-4 daga í kæli).


Uppskrift (um 5 lítar eða fyrir ca 8-10 manns)
2 msk matarolía eða kókosolía
1 bakki hakk
1 laukur, fínt saxaður
4 hvítlauksrif fínt söxuð
gulrætur, skornar í skífur (ca 750 ml þegar búið er að skera þær niður)
sellerí, skorið í þunnar sneiðar (400 ml)
1,5 L vatn
1 dós heilir tómatar
1 dós saxaðir tómatar
1 ferna passata - tómatsafi
2 kjötkraftsteningar
1 tsk salt
1 tsk nýmalaður pipar
1 tsk oregano
1 tsk timían
1 tsk basilíka
(sé notað ferskt krydd þá þarf helmingi meira)
hvítkál skorið í teninga (750 ml)

ATH að ég kýs ekki að tiltaka fjöldann af gulrótum, fjöldan af sellerístöngum og að segja 1/2 hvítkálshaus (mér finnast þetta afar ónákvæmar mælieiningar). Ég hins vegar kýs frekar að saxa þetta og mæla í stórri 1 L mælikönnu og eru mælingarnar út frá því.

Aðferð
-Steikið saman hakk, lauk og hvítlauk þar til kjötið er brúnað
-Bætið gulrótum og sellerí útí og steikið aðeins lengur
-Bætið öllum vökva útí, tómötum, vatni og tómatsafa
-Kryddið
-Sjóðið saman í 15 mínútur
-Bætið hvítkálinu útí og sjóðið í 10 mínútur í viðbót við lágan hita.


Kjöt, laukur, hvítlaukur, tómatar, tómatsafi, vatn og krydd komið útí 

látið malla saman í 15 mínútur

hvítkálið komið útí og búið að sjóða í 10 mínútur í viðbót


Eins og þið sjáið þá er samsetningin alveg hrikalega einföld og það þarf ekki að byrja að útbúa súpuna mörgum klst áður en þið ætlið að borða hana

Punktar:
-Hægt er að bæta svo mörgu sniðugu út í þessa súpu að listinn er óendanlegur. Sem dæmi er gott að setja pastaskrúfur útí í stað hvítkálsins.
-Hægt er að bæta við kartöflum
-Þegar súpan er borin fram er hægt að strá yfir hana rifnum osti eða setja sýrðan rjóma


Njótið :)









SHARE:

Engin ummæli

Skrifa ummæli

Ragna.is er matarbloggsíða með sniðugum og auðveldum uppskriftum að gómsætum kökum, mat, meðlæti, brauðum, súpum og fleira.
Myndir fylgja flestum uppskriftum :)

Blog Design Created by pipdig