Sá um daginn svínakjöt í bónus og langaði að prufa eitthvað nýtt með svínakjöti. Satt að segja finnst mér íslenskt svínakjöt ekki jafn gott og til að mynda danskt og breskt, ástæðan er sú að mér finnst vera alveg sama hvernig maður eldi það, þá verði það alltaf seigt.
Viðar fékk að velja annað hvort svínagúllas eða svínakótilettur og kótilettur urðu fyrir valinu.
Eftir smá brainstorming ákvað ég að taka alla fitu og allt það sem maður myndi hvort sem skera af þegar maður færi að borða kótiletturnar. Að lokum skar ég beinið frá.
Til að reyna ná kjötinu aðeins meyrara barði ég það með buffhamri á báðum hliðum.
Því næst var að undirbúa raspinn og eggin. Ég notaði 1 egg + 3 msk af mjólk. Þessa blöndu kryddaði ég svo með salti, pipar og örlitlu steikarkryddi (ath að þetta þarf að krydda örlítið ríflega þar sem ekki mikið af blöndunni fer utan á kjötið). Raspurinn samanstóð af brauðraspi (venjulegum) og Panko-brauðraspi (japanskur), einfaldlega af því að ég átti bara smá af panko-raspinum. Annars hefði ég líklegast bara notað þannig. En þetta kom vel út svona 50%/50% og er líka alveg örugglega jafngott bara með venjulegum brauðraspi. út í raspinn saxaði ég ferskar kryddjurtir. Fyrir valinu var flatlaufa steinselja og timian. Séu ferskar kryddjurtir ekki við hendina myndi ég nota ítalska þurrkaða kryddblöndu. Til að setja eitthvað aðeins meira í raspinn reif ég parmesan-ost út í raspinn
Svo er bara að undirbúa og elda
Þekja hverja sneið með eggja og mjólkurblöndunni |
Þekja síðan vel með mylsnunni |
Steikja á pönnu þar til vel krispí báðum megin |
Sveppir steiktir í restinni af olíunni til að gera sósuna |
Meðlætið var kartöflumús og Péturseyjar gulrætur |
Uppskrift:
5 stk svínakótilettur með beini
1 stk egg
3 msk mjólk
salt + pipar + krydd að ykkar vali
1,5 dl venjulegur brauðraspur
1,5 dl panko brauðraspur
3 msk saxaðar ferskar kryddjurtir (steinselja + timian) eða 1-2 msk þurrkaðar
3 msk rifinn parmesan ostur
3 msk rifinn parmesan ostur
aðferð:
farið eftir myndunum hér að ofan til að útbúa raspinn utan á kjötið.
Steikið svo í matarolíu eða ólífuolíu á pönnu. Ath að það þarf mikið af olíu þar sem raspurinn drekkur olíuna alla í sig. Ég giska á að ég hafi notað um 70 ml af olíu.
Þegar kjötið er orðið brúnt og krispí setið það þá á ofnheldan disk eða eldfast mót og hafið á 50-70°C hita inní ofni á meðan sósan er útbúin á pönnunni. Afgangsolía er nýtt til að steika sveppi, þeir eru saltaðir og pipraðir og 1.5 dl af rjóma er hellt út á ásamt 1 dl af mjólk. Þetta er soðið upp og bætt útí hálfum tenging af kjötkrafti (í mínu tilfelli notaði ég sveppakraft, um 1 msk). Sósan var þykkt aðeins með maizena sósudufti og svo borin fram með kjötinu.
Meðlæti var kartöflumús og að sjálfsögðu var smá sætt með og var rifsberjahlaupið frá mömmu notað.
Snilldar gott og svo góð tilbreyting frá steiktum svínakótilettum að ég mun gera þetta oft aftur.
punktar:
- Nota kjúkling í stað svínakjöts
- í stað kartöflumúsar hefði einnig hefði verið gott að hafa nýjar soðnar kartöflur, kúskús eða bygg.
- Ekki er nauðsynlegt að hafa sósu með
Engin ummæli
Skrifa ummæli
Ragna.is er matarbloggsíða með sniðugum og auðveldum uppskriftum að gómsætum kökum, mat, meðlæti, brauðum, súpum og fleira.
Myndir fylgja flestum uppskriftum :)