þriðjudagur, 19. maí 2020

Bananakaka á hvolfi með karamellu

Þessi kaka er himnesk. Stökkar hliðarnar eftir að smjörið bubblar á meðan hún bakast, mjúk og safarík karamellan sem umlykur safaríka bananana og svo ís til að toppa þetta allt er svolítið eins og himnaríki í köku verð ég að segja. 

Fyrir utan hve góð hún er þá tekur lítinn sem engan tíma að undirbúa hana þar sem öll innihaldsefnin hrærast saman í einni skál með sleif og svo er hún bökuð í hverskonar formi sem ykkur kann að láta ykkur detta í hug. 

Þó svo að ég notist hér við formkökuform þá má vissulega nota eldfast mót, lítið kringlótt form eða jafnvel baka þessa köku í pönnu sem má fara í ofn. 
Hún mun hvort sem er hvolfast á annan disk þegar hún er bökuð svo að formið sem hún bakast er aukaatriði. 



Uppskrift 

100 gr smjör, brætt
100 gr púðursykur 
2-3 bananar 

170 gr hveiti 
135 gr sykur 
1/2 tsk salt 
2 tsk lyftiduft 
1 tsk kanill 
3 msk matarolía
1 egg
1 tsk vanilluextract / dropar 
180 ml mjólk


Aðferð

-Bræðið smjör og blandið púðursykur saman við. Hellið í botninn á formkökuformi (það þarf ekki að smyrja formið áður
-Skerið bananana langsum í sneiðar og leggið yfir blönduna 
-Blandið restinni af innihaldsefnum saman í skál og hrærið með sleif þar til allt er vel blandað saman
-Hellið varlega yfir banana og bakið í 180°C heitum ofni á blæstri í 35 mínútur eða þar til kakan er karamellubrún að ofan
-Látið kökuna standa á borði í 15 mínútur eftir að hún kemur úr ofninum og hvolfið henni svo á disk.
-Borin fram volg með rjóma eða ís 

Setjið smjör og púðursykur saman í skál
Smjör og púðursykur sett saman í skál 
Smjör- og púðursykursblöndunni helt í botninn á forminu og bönunum raðað ofaná í botninn 

Þurrefnum, olíu, eggi og mjólk blandað saman í skál með sleif og svo helt yfir 

Þegar kakan hefur kólnað í 15 mínútur eftir að hún kemur úr ofninum er henni hvolft á platta eða disk svo að bananarnir sem voru í botninum séu nú efstir. 

ATH 

-Það er hægt að skipta út banönum í staðinn fyrir ananas, epli eða perur að vild. 
-Það má sleppa vanillu eða kanil ef þið eigið það ekki til 
-Rjómi er alveg jafn tilvalinn og ís 
-Ég setti Saltkaramellusósu frá Skúbb yfir ísinn.



Volg karamellu-kaka með banana og ís

SHARE:

2 ummæli

  1. Þessi er vægast sagt ljúffeng! Takk fyrir okkur.
    Ætlaði bara að koma og finna bananabrauð ið sem við bökum alltaf frá þér. En duttum í lukkupottinn.

    SvaraEyða
  2. Vantar uppskrift af banana brauði.


    SvaraEyða

Ragna.is er matarbloggsíða með sniðugum og auðveldum uppskriftum að gómsætum kökum, mat, meðlæti, brauðum, súpum og fleira.
Myndir fylgja flestum uppskriftum :)

Blog Design Created by pipdig