mánudagur, 21. september 2009

Skjöldur, forvarnarfélag Hjúkrunarnema HÍ



Æsispennandi, æðisleg, fræðandi, fjörug og upplýsandi ferð var haldin á vegum Skjaldar, forvarnarfélags Hjúkrunarfræðinema við HÍ um síðustu helgi.
Forsaga ferðarinnar er sú að í byrjun annar kom Brynja Örlygsdóttir kennari okkar með meðlimum Skjaldar í tíma og kynnti okkur þá hugmynd að við sem 4. árs nemar gætum tekið þátt í forvarnarverkefninu og það yrði metið inn sem 4 einingar eða kæmi inn sem Valáfangi á 4. ári. Þáttaka okkar í verkefninu yrði að fara í vinnubúðir í eina helgi sem færi fram 18.-20. september í Brekkuskógi, gist yrði í sumarbústöðum og alla helgina færu fram fyrirlestrar, hugmyndavinna, æfingar og kennsla. Að lokum yrði afraksturinn notaður í forvarnarfræðslu í 2 framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu, MH og Kvennó þar sem 2-3 nemar færu inn í tíma hjá 1. annar nemum í Lífsleikni og okkar umræðuefni væri Sjálfsmynd, hvað hún væri, hverju hún tengdist, hvað hefði áhrif á hana og á hvað jákvæð sjálfsmynd hefði áhrif á.

32 nemar skráðu sig til leiks ásamt 4 kennurum við Hjúkrunarfræðideildina sem í hugsjón gáfu alla sína vinnu.

Strax á föstudagskvöldinu fór  fram fyrsta hópvinnan okkar þar sem við töluðum saman um styrkleika okkar og fyrirmyndir og bjuggum til grunninn að umræðum helgarinnar.

Allir bústaðirnir voru með heitan pott sér við hlið svo að að sjálfsögðu var okkar prufaður strax um kvöldið með köldum bjór í hönd og var farið frekar seint að sofa þar sem ég, Eva og Harpa kjöftuðum frá okkur nóttina til kl 04. Þrátt fyrir að Óli Lokbrá hafi verið seint á ferð var ræs (í boði Lóu) kl 07 og eftir morgunmat var skyldumæting í Sóleyjaræfingar fyrir utan miðstöðina með aðstoð Þóreyjar. Hressandi í kuldanum og sólinni og kom blóðinu á hreyfingu og ekki veitti af... ! allan daginn vorum við þurrausin af hugmyndum og þurftum að tjá okkur alveg frá innstu hjartarrótum í æfingum og pælingum á meðan uppbyggileg fræðsla átti sér stað. Dagurinn endaði á kennslufræðifyrirlestri og hvernig  við sæjum fyrir okkur að byggja kennslustundina upp.

Ég skráði mig svo í  7 manna hópinn sem kemur að því að "skrifa" grind og uppskrift af fræðslunni sem verður svo kynnt og æfð fyrir restina af hópnum.

Grill var tendrað fyrir hópinn og örlítil kvöldvaka haldin áður en farið var í bústaðarpartý og pottapartý og farið enn seinna að sofa en kvöldið áður (ég, Harpa og Kolla amk).

Vegna lítils svefns var ansi þreytt lið á sunnudagsmorgninum sem mætti til leiks kl 09 og allir meira og minna eftir sig eftir daginn mikla deginum áður.

Dagskrá var lokið kl 12 og fóru allir í sína bústaði, gengu frá og fóru heim á leið.

ALVEG ROSALEGA góð helgi að baki, mikið hlegið, grafið í tilfinningum, lært nýja hluti, spennandi nýsköpun í fullum gangi og frábært fólk með í för.

Hér eru nokkrar myndir sem þið getið skoðað en restina má finna á nýju SMUGMUG síðunni minni sem má finna HÉR

Mánudagurinn var víst svipaður hjá flestum... Hef það eftir heimildum að ANSI margir hafi verið það eftir sig eftir helgina að mæting var fremur dræm í tíma dagsins og kúrðu margir fram eftir morgni og höfðu það að orði að þeir muni ekki eftir því hvenær þeir hefðu orðið svona þreyttir síðast!







Nú hlakkar öllum til að fara og vera með fræðsluna fyrir unglingana :)
SHARE:

Engin ummæli

Skrifa ummæli

Ragna.is er matarbloggsíða með sniðugum og auðveldum uppskriftum að gómsætum kökum, mat, meðlæti, brauðum, súpum og fleira.
Myndir fylgja flestum uppskriftum :)

Blog Design Created by pipdig