þriðjudagur, 23. janúar 2018

Asískt núðlusalat


Flestir eru vanir að fá sér núðlurétt en það kannast ekki margir við að elda eða borða  núðlusalat. Þetta asíska núðlusalat er með vissa skírskotun til Víetnam í hráefnavali og einkennist af hvítlauk, stökku salati, mjúkum núðlum og gómsætum kjúkling sem toppar bragðið.
Þessi réttur er fljótlegur og skemmtilegur í matarboð þar sem það þarf litla fyrirhöfn að hafa fyrir honum, er ódýr, hollur og slær alltaf í gegn. Einnig hentar rétturinn vel til þess að útbúa í nesti.
Öll hráefnin fást í flestum stórmörkuðum fyrir utan Vermicelli hrísgrjónanúðlurnar, þær fást í flestum asíubúðum.

Persónulega set ég oftast meira af kóríander heldur en uppskriftin segir til um en það er algerlega af því að ég elska kóríander. Einnig á ég það til að setja mikið chilli í dressinguna ef ég vil hafa þetta sterkara en uppskriftin gefur upp.



Fyrir 4

Marinering fyrir kjúkling

2 kjúklingabringur skornar í tvennt
2 msk sojasósa
1/2 msk fiskisósa
1 msk limesafi
2 msk matarolía
2 skarlottulaukar saxaðir fínt
2 hvítlauksgeirar saxaðir fínt
1 tsk salt
1 tsk svartur pipar

Salat
1 lítill iceberghaus
2 gúrkur
1 dl söxuð fersk mynta
1 dl saxaður ferskur kóríander
1 dl saxaðar salthnetur

Dressing fyrir salat
4 msk fiskisósa
3 msk limesafi
120 ml vatn
1 hvítlauksgeiri saxaður fínt
1/2 chilli saxað smátt (meira eða minna eftir smekk)
2 msk matarolía




Skera kjúklingabringurnar í tvo jafnstóra hluta 


útbúa marineringu fyrir kjúklinginn
útbúa dressingu 

steikið kjúklinginn á vægum hita (annars brennur marineringin)
útbúið salat á meðan



allt í salatið er skorið/saxað niður og sett í skálar 



núðlur soðnar eftir leiðbeiningum, sigtaðar og settar ofan á salatið 
Kjúklingur skorinn í sneiðar og settur ofan á núðlurnar 


dressingu hellt yfir 


Aðferð

1. Skerið kjúklingabringurnar 2 í 2 jafnþykkarsneiðar hverja (4 sneiðar samtals)
2. Blandið öllum innihaldsefnum fyrir marineringuna saman og þekið kjúklingabringurnar. Látið standa í skál á borði í 1 klst.
3. Útbúið salatdressinguna með þvi að blanda öllum innihaldsefnum saman í skál og hræra vel. Gott er að gera dressinguna rétt eftir að maður marinerar kjúklinginn svo að hún taki vel í sig bragðið af hvítlauknum og chilli.
4. Steikið kjúklinginn á pönnu þegar hann er búinn að marinerast. Ekki hafa of háan hita því þá brennur hvítlaukurinn. Snúið reglulega.
5. Á meðan kjúklingurinn er að eldast í gegn skal sjóða núðlurnar eftir þeim leiðbeiningum sem gefnar eru upp á pakkanum og skolið svo með köldu vatni.
6. Sneiðið iceberghausinn í mjóa strimla, gúrkurnar í þunnar sneiðar, saxið kryddjurtirnar og salthneturnar (Má vera búið að þessu áður og geyma þar til kjúklingurinn er eldaður).
7. Þegar kjúklingurinn er eldaður er best að skera hann í strimla.
8. Setjið salatið saman í 4 skálar í þessari röð: iceberg, gúrka, mynta, kóríander, núðlur, kjúklingabringa og salthnetur.

9. Borðið á borð og hver og einn setur dressinguna yfir sjálfur. Reiknað er með ca 30-40 ml á mann.

SHARE:

Engin ummæli

Skrifa ummæli

Ragna.is er matarbloggsíða með sniðugum og auðveldum uppskriftum að gómsætum kökum, mat, meðlæti, brauðum, súpum og fleira.
Myndir fylgja flestum uppskriftum :)

Blog Design Created by pipdig